Undanfarin ár hefur menningarlegur rasismi og þjóðernislegur popúlismi, sem sannarlega er grasserandi hérlendis, verið að ryðja sér leið í opinbera umræðu. Í honum felst að draga upp tvískipta mynd af sinni þjóð og sínum menningarheimi annars vegar og útlendingum og öllum utanaðkomandi hinsvegar. Að skipta heiminum upp í „við“ og „hinir“ og teikna upp svarthvíta mynd sem aðgreinir hið „góða“ frá hinu „illa“.
Það sást ákaflega vel í kringum síðustu sveitarstjórnarkosningar vorið 2014 og í kjölfar árása hryðjuverkamanna á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo í upphafi árs 2015, líkt og hefur verið margrætt. Hægt er að lesa um fræðilega nálgun á þá orðræðu í fréttaskýringu sem birtist á Kjarnanum 6. nóvember síðastliðinn.
Hinir óhreinu
En þessi mátun stjórnmála við aukinn þjóðernispopúlisma á sér lengri sögu og dýpri rætur. Hann hefur til að mynda verið nokkuð áberandi í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins og hjá tryggustu fylgihnöttum þess sem þar heldur oftast á penna. Í september í fyrra birtist þar leiðari sem hét „Hinir óhreinu“. Þar var gagnrýnt harðlega að Svíþjóðardemókratar, sem þá höfðu unnið kosningasigur í sænsku þingskosningunum, væru kallaðir öfgaflokkur vegna stefnu sinnar í málefnum innflytjenda, en flokkurinn vill þrengja aðgengi þeirra að landinu mjög.
Hér má sjá nýlegt myndband af vef The Guardian um Svíþjóðardemókrata.
Í Reykjavíkurbréfi sem skrifað var í desember 2014 sagði að það væri rétt og skylt að ræða heiðarlega og öfgalaust um hversu hratt ríki eigi að taka á móti erlendum ríkisborgurunum og hvaða skilyrði þeir eigi að þurfa að uppfylla. Þar sagði orðrétt: „Öfgarnar felast í því að reyna að útiloka slíka umræðu“.
Hannes Hólmsteinn Gissurarsson, prófessor við Háskóla Íslands sem talinn var einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins á valdatíma Davíðs Oddssonar, hefur einnig verið mjög iðinn við að koma sömu skoðunum á framfæri. Í september 2014 skrifaði hann pistil þar sem sagði orðrétt: „Útlendingar eru misjafnir, og við höfum í okkar friðsæla landi ekkert að gera við þrjá hópa. Einn er sá, sem ekki nennir að vinna. Félagsleg aðstoð við fullhraust fólk er ætíð óskynsamleg, en félagsleg aðstoð við fullhrausta útlendinga, sem við höfum engar skyldur við aðrar en að láta þá í friði, er óafsakanleg. Annar hópur er sá, sem fremur glæpi, og þarf vitanlega ekki að hafa fleiri orð um það. Þriðji hópurinn er sá, sem reynir að troða siðum sínum upp á okkur.“ Þann 6. janúar síðastliðinn sagði Hannes Hólmsteinn á Facebook: „Og hver er ekki sammála mér um, að þrír erlendir hópar eiga ekkert erindi til Íslands: síbrotamenn, fólk í leit að framfærslu og menn, sem vilja neyða öfgaskoðunum sínum upp á aðra?“
Tveimur dögum síðar sagði hann: „Samuel Huntington benti á eðlismun á íslam og kristni: Múhameð var í senn spámaður og herforingi, sem reiddi sverð sitt og vann lönd. Kristur var spámaður, fallegur, hávaxinn, skeggjaður maður í hvítri skikkju, sem boðaði náungakærleik og bað menn að fyrirgefa óvinum sínum.“
Morgunblaðið segir: Evrópusambandið veldur hættu
Þetta er rifjað upp vegna forsíðufréttar, leiðara og skopmyndar Morgunblaðsins í morgun. Fyrst ber að nefna að á Morgunblaðinu starfa margir af bestu blaðamönnum landsins. Ritstjórn blaðsins og vefs hans er gríðarlega öflug og fagleg. Hún ber í raun höfuð og herðar yfir aðrar stórar fréttastofur á landinu þegar kemur að gæðum í umfjöllun.
En Morgunblaðið er líka hlaðið pólitískum farangri sem birtist bæði í ritstjórnarskrifum og, því miður, einnig í fréttum þegar stjórnendur blaðsins vilja. Þetta hefur verið bersýnilegt í umfjöllun um fiskveiðisstjórnunarkerfi, Evrópumál og síðustu ríkisstjórn. Raunar má segja að ritstjórar Morgunblaðsins, og hagsmunaöflin sem standa að baki þeim, hafi unnið allar þessar þrjár orustur og því kannski ekki skrýtið að þeir séu með blóð á tönnunum.
Í dag er forsíðufyrirsögn Morgunblaðsins „Schengen veldur hættu“. Inntakið í fréttinni er sú skoðun Ronald K. Noble, sem hann setti fram í aðsendri grein í New York Times í síðustu viku, að leggja ætti til hliðar opin landamæri Evrópu og taka tafarlaust upp vegabréfaskoðun við öll landamæri, sem kerfisbundið ætti að bera saman við gagnagrunn Interpol um stolin og glötuð vegabréf. Noble þessi var forstjóri Interpol á árunum 2000 til 2014 og bar ábyrgð á því að umræddur gagnagrunnur var settur á laggirnar. Þessi skoðun er síðan sett í samhengi við eftirmála hryðjuverkaárásanna á París fyrr í mánuðinum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Noble setur fram skoðun sína um að evrópsk ríki ættu að notast við gagnagrunn Interpol. Þvert á móti hefur Noble verið að reyna að selja Evrópu þennan gagnagrunn Interpol árum saman.
Erum við að bjóða hryðjuverkamenn velkomna?
Í leiðara Morgunblaðsins, sem ber heitið „Hryðjuverkamenn boðnir velkomnir“ er síðan lagt út frá forsíðufréttinni. Þar segir: „Áköfustu áhugamenn um sífellt aukinn samruna innan Evrópusambandsins mega ekki heyra á það minnst að fallið sé frá mislukkuðu Schengen-samstarfinu, enda telja þeir samstarfið mikilvægt skref í átt að markmiðinu um evrópskt stórríki sem er öllu öðru heilagra.[...]Engan þarf að undra að þeir sem taka engum rökum þegar kemur að þróuninni innan Evrópusambandsins eða aðildarumsókn Íslands að sambandinu skuli einnig þráast við í tengslum við Schengen-umræðuna nú. Erfiðara er að sjá hvers vegna þeir sem ekki sjá Evrópusambandið sem upphaf og endi alls vilja verja þetta misheppnaða og hættulega landamærasamstarf“. Þar er einnig fjallað um að Bandaríkin hafi forystu um landamæravörslu í heiminum, m.a. vegna þess að þau nota gagnagrunn Interpol.
Við þessi dæmalausu skrif er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi rekur Schengen-samstarfið mun öflugri gagnagrunn sem geymir mun meiri upplýsingar um fólk en gagnagrunnur Interpol. Einhliða úrsögn úr Shengen til að taka upp eigið landamæraeftirlit og notkun á Interpol gagnagrunninum myndi því þýða að Íslendingar væru með aðgang að mun minna magni af upplýsingum en þeir eru með núna. Úrsögn úr Schengen myndi því væntanlega skapa meiri hættu en vera í samstarfinu skapar, ólíkt því sem haldið er fram í forsíðufrétt Morgunblaðsins.
Í öðru lagi má alveg gagnrýna ytri landamæragæslu Schengen-samstarfsins. Hún mætti augljóslega vera betri. En að hún kalli á að hvert og eitt Schengen-land (þau eru 30 og íbúar innan þeirra rúmlega 400 milljónir) taki upp eigin landamæragæslu vegna árásanna í París er fjarstæðukennt. Það væri eins og að segja að hvert ríki Bandaríkjanna (þar sem ríkin eru 50 og íbúarnir 322 milljónir) ætti að taka upp slíka gæslu í kjölfar árásanna á New York 2001. Kostirnir við frjálsa för íbúa Bandaríkjanna þvert á ríki eða íbúa Evrópu þvert á landamæri hefur miklu fleiri kosti en galla og hert landamæraeftirlit mun aldrei útrýma hættunni á hryðjuverkum.
Í þriðja lagi er ekkert sem bendir til þess að það sé samhengi á milli veru Íslands í Schengen og aukningar á skipulagðri glæpastarfsemi eða hryðjuverkum. Þetta kemur til að mynda fram í skýrslu innanríkisráðherra til Alþingis árið 2012.
Schengen-svæðið eitt það öruggasta í heiminum
Þegar farið er yfir lista um mannskæðustu hryðjuverk sem framin hafa verið þá er ekki mikið um atburði sem áttu sér stað í löndum sem eru aðilar að Schengen-samstarfinu. Ef frá eru dregin sprenging Pan Am flugs 103 (sem var sprengt fyrir ofan Lockerbie í Skotlandi í desember 1988) og sprenging á Air India flugi 182 (sem sprakk í írskri lofthelgi) þá er mannskæðasta hryðjuverkaárás á Evrópuland sem tilheyrir Schengen sprengjuárásirnar á lestir í Madríd á Spáni árið 2004 þegar 191 lét lífið. Sú árás er í 24. sæti yfir mannskæðustu hryðjuverkaárásir sögunnar. Árásin á París er í 41. sæti.
Sú hryðjuverkaárás sem dró langflesta til dauða var árásin á Bandaríkin 11. september 2001. Samkvæmt listanum má í raun færa rök fyrir því að Schengen-svæðið hafi verið einn öruggasti staður í heimi fyrir hryðjuverkum. Sjá má listann hér.
Í höfuðvígi hræðsluáróðursins, Bandaríkjunum, er lögð mikil áhersla á að borgararnir lifi í ótta við hið óþekkta. Sá ótti er meðal annars notaður til að réttlæta að þjóðin þurfi að eiga ca. 310 milljónir byssur til að verja sig. Þessi byssueign hefur reyndar valdið því að frá árinu 1968 hafa rúmlega 1,5 milljónir manna látið lífið vegna skotvopna í Bandaríkjunum, sem eru fleiri Bandaríkjamenn en hafa látið lífið í öllum stríðum sem landið hefur tekið þátt í frá upphafi. Því má segja að öryggisleysi Bandaríkjanna, drifið áfram af hræðsluáróðri gagnvart hinu óþekkta, hafi leitt til þess að landið er í stríði við sig sjálft.
Alið á hræðslu
Fyrir rúmri viku sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að hann, og aðrir forsætisráðherra Vesturlanda, gætu ekki sagt hug sinn um t.d. flóttamannamál opinberlega af ótta við pólitískan réttrúnað og það að snúið yrði út úr orðum hans. Forsætisráðherra sagði að hinn pólitíski réttrúnaður geti „verið mjög varasamur“.
Um liðna helgi sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, að full ástæða væri til þess að Íslendingar myndu vakna til vitundar um vandann sem fylgdi öfgafullri íslamstrú, sem væri mesti vandi sem heimurinn stæði frammi fyrir frá tímum nasista. Sá vandi yrði ekki leystur með „barnalegri einfeldni“ né „einhverjum aðgerðum á sviði umburðarlyndis og félagslegra umbóta“. „Þetta er gersamlega ný staða sem allir þurfa að ræða á rólegan og yfirvegaðan hátt og átta sig á því að þetta eru þáttaskil og við megum ekki fara að úthrópa hvert annað í þessari umræðu heldur sýna hvert öðru skilning og hlusta á þau sjónarmið sem hver og einn kann að hafa. Þó okkur finnist kannski sumt af því vera frekar öfgakennt,“ sagði forsetinn.
Og í dag birti Morgunblaðið forsíðufyrirsögnina „Schengen veldur hættu“ og leiðarafyrirsögnina „Hryðjuverkamenn boðnir velkomnir“. Blaðið klykkir út með því að birta þessa skopmynd:
Öll ofangreind orðræða hefur það markmið að normalisera umræðu sem ýtir umburðarlyndi, skynsemi og frelsi til hliðar. Hún miðar að því að gera öfgar og hræðslu að hluta af viðurkenndri orðræðu og að nauðsynlegum markmiðum, þrátt fyrir að ekkert í veruleika okkar bendi til þess að þörf sé á. Hún miðar að því að láta voðaverk hryðjuverkamanna ná því markmiði sínu að setja hömlur á það frelsi sem vestræn samfélög standa fyrir og að ræna okkur öryggistilfinningunni.
Ég er mun hræddari við þessa orðræðu en nokkurn tímann Schengen-samstarfið.