Í byrjun vikunnar birtist ný rannsókn sem sýnir að konur eru ennþá í miklum minnihluta þeirra sem fjölmiðlar landsins ræða við eða fjalla um. Í einu af hverjum fimm tilvikum er kona umfjöllunarefni eða viðmælandi, en í hinum fjórum eru það karlar. Þetta eru ömurlegar tölur, það fer ekki á milli mála.
Rannsókn eins og þessi er góð brýning og áminning fyrir fjölmiðla landsins um að þeir þurfi að standa sig betur í því að jafna kynjahlutföll sinna viðmælenda. Ég held að á flestum fréttastofum og ritstjórnum landsins viti fólk þetta, þótt það sé hvorki algilt yfir allar ritstjórnir né innan þeirra.
Betri kynjahlutföll í fréttum haldast í hendur við betri kynjahlutföll inni á fjölmiðlunum, enda sýndi rannsóknin að fjölmiðlakonur voru duglegri að tala við aðrar konur heldur en karlar, sem í 92 prósentum tilvika töluðu við aðra karla á meðan konurnar töluðu við eða fjölluðu um konur í þriðjungi frétta sinna. Og svo það sé tekið strax fram hef ég aldrei upplifað að konur vilji síður koma í fram í fjölmiðlum en karlar.
Staða kvenna í fjölmiðlum á Íslandi hefur iðulega verið verri en hún er núna. Fréttastjóri RÚV er kona, aðalritstjóri 365 er kona auk þess sem kona stýrir Fréttablaðinu og kona stýrir fréttastofu Stöðvar 2. Annar stjórnenda Kjarnans er kona. Annar ritstjóra Stundarinnar er kona og sama sagan er á DV auk þess sem mbl.is, stærsta fréttavef landsins er stýrt af konu. Þetta hlýtur að skipta máli.
Að vilja reglur um viðmælendur
Eygló Harðardóttir, sem er meðal annars ráðherra jafnréttismála, sagði í hádegisfréttum RÚV í dag að framundan séu ærin verkefni í jafnréttisbaráttunni. Þar getum við Eygló verið sammála. Landið sem á að vera jafnréttisparadís á nefnilega mjög langt í land með að eiga slíkan titill skilinn.
Hún lagði til að fjölmiðlar birtu lista yfir fjölda og kynjaskiptingu viðmælenda sinna. Það er í sjálfu sér ekkert vitlaus hugmynd. Reyndar eru lög í landinu sem krefjast þess af öllum fjölmiðlum að þeir skili slíkum upplýsingum inn til fjölmiðlanefndar á hverju ári, og tölurnar ættu því að vera til alls staðar, þótt þær séu ekki endilega teknar saman vikulega eða mánaðarlega. Það væri líklega fínt aðhald og áminning fyrir fjölmiðla að slíkar upplýsingar væru aðgengilegar. Á mörgum sviðum geta fjölmiðlar stýrt því við hverja er talað og um hverja er fjallað.
Þarna skilja hins vegar leiðir okkar Eyglóar í málinu, því svo sagði hún þetta:
„Fjölmiðlar eru ekki að endurspegla fjölbreytileikann í samfélaginu, þeir eru ekki að endurspegla stöðu kvenna í samfélaginu, stöðu kvenna í stjórnmálunum, stöðu kvenna í atvinnulífinu né hátt menntunarstig kvenna,“ sagði Eygló meðal annars í dag. Hún vill þess vegna að jafnréttisþing ræði hvort ástæða sé til að reglur verði settar um fjölda viðmælenda.
Þessi ummæli lýsa miklu skilningsleysi á því hvernig fjölmiðlar virka. Ef settar yrðu reglur um viðmælendur í fjölmiðlum væri alveg eins hægt að setja reglur um umfjöllunarefni þeirra, og engum dettur slík vitleysa og ritskoðun í hug, eða hvað?
Ég er líklega ein fyrsta manneskjan til að viðurkenna að á mörgum vígstöðum geta fjölmiðlar gert betur í að jafna kynjahlutföll, og er líklega meðal mestu stuðningsmanna þess að það verði gert. Það er samt svo að fréttir virka einfaldlega þannig að ákveðnir málaflokkar eru og verða fyrirferðamiklir, þótt við getum aukið vægi annarra líka. Stjórnmál, efnahagsmál og viðskipti eru þarna á meðal. Í þessum málaflokkum er oft ekki úr mörgum viðmælendum eða umfjöllunarefnum að velja. Og það vill svo til að í þessum geirum eru karlar ennþá víðast hvar í meirihluta. Skoðum það bara nánar.
Karlar alls staðar
Byrjum á ríkisstjórninni, sem er stýrt af tveimur körlum, sem eðli málsins samkvæmt eru mjög áberandi. Ríkisstjórnin þeirra er að meirihluta til skipuð körlum. Það er þingið líka þótt staðan þar hafi skánað. 25 konur náðu kjöri á Alþingi í síðustu kosningum, eða 39,7 prósent þingmanna, og síðan þá hafa þrjár konur tekið sæti sem aðalmenn í stað þriggja karla, svo hlutfall kvenna er orðið hærra en nokkru sinni fyrr, 44,4 prósent. Konur hafa aldrei verið í meirihluta þar.
Forseti Alþingis er karl og það er líka forseti Íslands.
Þegar við færum okkur yfir í fjármálageirann er staðan miklu verri. Í úttekt sem Kjarninn gerði í vor kom í ljós að af 87 æðstu stjórnendum fyrirtækja í íslensku fjárfestinga- og fjármálakerfi eru sjö konur. Sjö konur, á móti 80 körlum. Í hlutföllum eru það 9 prósent konur og 91 prósent karlar.
Ein kona stýrir banka á Íslandi og ein sparisjóði. Ein kona stýrir lánafyrirtæki, tvær lífeyrissjóðum, ein Framtakssjóði Íslands, og einu skráðu félagi á markaði er stýrt af konu. Þetta þýðir meðal annars að engu verðbréfafyrirtæki er stýrt af konu og engu orkufyrirtæki eða óskráðu tryggingafélagi. Sex konur eru stjórnarformenn í skráðum fyrirtækjum og tíu karlar.
Svo er forstjóri Kauphallarinnar karl, það eru líka seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri og aðalhagfræðingur Seðlabankans. Og þrátt fyrir að lög séu í gildi um að hlutföll hvors kyns í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn væri að minnsta kosti 40 prósent er það langt frá því að vera tilfellið. Í annarri nýlegri samantekt Kjarnans kemur fram að af 982 stjórnarmönnum í 270 stærstu fyrirtækjum landsins eru 665 karlar og 317 konur. Það þýðir 32 prósent konur og 68 prósent karlar. Dæmigerður stjórnarmaður í íslensku atvinnulífi er karlmaður á sextugsaldri.
Þetta er staðan í stjórnmálunum og í atvinnulífinu. Þarna er ekki verið að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins eða hátt menntunarstig kvenna, þarna er heljarinnar skekkja sem er ærið jafnréttisverkefni að breyta. Ábyrgðin á hlutfalli kvenna og stöðu þeirra í stjórnmálum og atvinnulífi á alls ekki heima á herðum fjölmiðla. Að gefa slíkt í skyn er ekki bara vanþekking á fjölmiðlum, heldur á samfélaginu öllu.