Fjöldi fólks hefur skráð sig í félag Zúista á Íslandi undanfarin. Skráðir meðlimir eru nú fleiri en í félagi múslima, eða alls um þrjú þúsund talsins. Þetta hefur eðlilega vakið athygli, sérstaklega vegna þess að megintilgangur Zúista er að hið opinbera felli úr gildi öll lög sem veita trú- og lífsskoðunarfélögum forréttindi eða fjárstyrki umfram önnur félög og að núverandi gagnagrunnur yfir trúfélagaaðild landsmanna verði lagður af. Þeir sem skrá sig í zúistafélagið geta fengið þá fjármuni sem ríkið greiðir til þess endurgreidda, eða látið þá renna til góðgerðarmála.
Kastljós hefur reyndar bent á að fyrrum stjórnendur félagsins séu grunaðir um umfangsmikil fjármunabrot, og því verður væntanlega mjög náið fylgst með hvort Zúistar standi við að endurgreiða þeim mikla fjölda sem skráð hefur sig.
Einn þeirra sem hefur gagnrýnt þá sem skrá sig í félag Zúista er Stefán Bogi Sveinsson,fulltrúi Framsóknarflokksins í bæjarstjórn og bæjarráði Fljótsdalshéraðs. Hann skrifaði grein á vef Austurfrétta í dag þar sem hann segir ekki heiðarlegt að skrá sig í trúfélag án þess að trúa kennisetningum þess. „Það að skrá sig í trúfélag, án þess að trúa kennisetningum þess, til þess eins að hagnast persónulega er ekki á tiltakanlega háu plani siðferðislega. Ef þú ert tiltekinnar trúar skaltu skrá þig í viðkomandi trúfélag[...]Ef þú ert trúlaus og hefur ekki lífskoðanir sem jafnast til trúarbragða, nú stattu þá utan trúfélaga. Það er hið heiðarlega.“
Í bakherberginu hefur þessi skoðun Framsóknarmannsins verið rædd mikið og sett í samhengi við hegðun flokks hans í aðdraganda kosninga. Fyrir kosningarnar 2013 lofaði Framsóknarflokkurinn nefnilega, kæmist hann til valda, að greiða þeim sem voru með verðtryggð húsnæðislán skaðabætur vegna verðbólgu. Taktíkin svínvirkaði, fylgi Framsóknarflokksins rauk upp í 24,4 prósent, hann komst í stöðu til að leiða nýja ríkisstjórn og á endanum greiddi ríkissjóður 80 milljarða króna til hluta þjóðarinnar, meðal annars stóreignafólks, vegna leiðréttingarinnar svokölluðu.
Því má vel velta því fyrir sér, á sama hátt og Stefán Bogi gerir varðandi trúfélög, hvort það sé á „tiltakanlega háu plani siðferðislega“ að kjósa stjórnmálaflokk „til þess eins að hagnast persónulega“.