Hugtakið rasismi nær yfir þá hugmynd að kynþættir mannkyns séu eðlisólíkir og að sumir kynþættir séu æðri en aðrir, án þess að geta fært nein haldbær rök fyrir því. Á grundvelli þeirrar hugmyndar vilja rasistar mismuna. Þeir vilja verja hina æðri fyrir hinum lægri.
Það má færa rök fyrir því að hefðbundinn rasismi sé á undanhaldi í hinum vestræna heimi. Hatur og ótti gegn öðrum kynþáttum en hinum hvíta er auðvitað enn til staðar, og hjá sumum afar ríkur, en hann er ekki jafn kerfislægur líkt og hann var lengi vel í mörgum hlutum heimsins.
Þess í stað hefur rutt sér til rúms það sem mætti kalla menningarlegur rasismi. Í nýlegri rannsókn sem Kjarninn greindi frá í nóvember segir að eitt af höfuðeinkennum menningarlegs rasisma, og systur hans þjóðernispopúlismans, sé að draga upp tvískipta mynd af sínum menningarheimi annars vegar og útlendingum og öllum utanaðkomandi hins vegar. Að skipta heiminum upp í „við“ og „hinir“. Svarthvíta mynd sem aðgreinir hið „góða“ frá hinu „illa“.
Ég er ekki rasisti, en...
Niðurstaða þeirrar rannsóknar var sú að það megi tvímælalaust greina sterkan menningarlegan rasisma í orðræðu í íslenskum stjórnmálum. Gott dæmi um það voru hugmyndir sem Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, setti fram í kjölfar árása á skrifstofur Charlie Hebdo snemma á þessu ári. Þar velti Ásmundur því fyrir sér hvort bakgrunnur þeirra 1.500 múslima sem búa á Íslandi hafi verið kannaður með það að leiðarljósi að komast að því hvort þeir hefðu „farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í Afganistan, Sýrland eða öðrum löndum þar sem óöld ríkir meðal múslima.“ Ásmundur viðurkenndi síðar að hann þekkti samfélag múslima „nánast ekki neitt“.
Ásmundur er rasisti í öllum hefðbundnum skilningi þess orðs. Það er enginn vafi um það. Hann vill vernda hina „góðu“ frá hinum „illu“ með því að mismuna þeim. Setja um 1.600 milljón manns þrengri frelsisskorður vegna þess að þeir trúa á sama guð og einhverjir sturlaðir menn sem nota hann sem ábreiðu fyrir voðaverkum sínum. En það er svipað því að ætla að ætla að dæma alla kristna menn út frá Timothy McVeigh, David Koresh eða öllu því sem Ku-Klux-Klan hefur gert í gegnum tíðina, sem væri auðvitað fjarstæðukennt.
Sú skoðun sem Ásmundur setti fram er mjög í anda þess sem Donald Trump, sem vill verða forseti Bandaríkjanna, hefur verið að boða. Trump vill loka Bandaríkjunum fyrir flestum múslimum. Til að ákveða hverjum hann vill hleypa í gegn ætlar Trump að skoða bakgrunn þeirra.
Útlendingar eru arfi
Ásmundur er sannarlega ekki einn á báti á Íslandi. Hér þrífst mikil útlendingaandúð, þjóðernispopúlismi og gegndarlaus hræðsla við hið óþekkta byggð á tillfinningu mun frekar en rökum.
Einn þekktasti lottó-kynnir landsins, Vignir Freyr Andersen, lýsti þeirri skoðun sinni í Morgunblaðinu nýverið að Íslendingar ættu ekki að taka við fleiri flóttamönnum vegna þess hvernig staðan sé á Íslandi þar sem þurfi að huga að öldruðum og öryrkjum. Svo sagði hann: „Við skulum slá heimahagana fyrst og taka síðan við arfanum hinum megin frá.“ Lottó-kynnirinn sagðist ekki hafa meint neitt illt með þessum ummælum og hafnaði því að vera rasisti. Hann sagði að fólk þyrfti „að lesa fréttirnar, ekki bara fyrirsagnirnar. Ég held að það geri sér ekki allir grein fyrir því hvað það þýðir að fá þetta fólk til landsins.“
Lottó-kynnirinn er einn af fjölmörgum Íslendingum sem kjósa að nota öryggi sem afsökun fyrir óþoli gagnvart fólki sem er öðruvísi en hann sjálfur.
Fyrr í þessum mánuði eignaðist ég nýjan Facebook-vin. Hann setur margar stöðuuppfærslur inn á síðu sína daglega. Ein sú nýlegasta er stuðningsyfirlýsing við það athæfi Dana að gera skartgripi flóttamanna upptæka til að niðurgreiða kostnað. Áður gagnrýndi hann harðlega vilja alþingismanna til þess að opna landamæri fyrir veiku barni sem „kostar tugi milljóna árlega fyrir landsmenn“. Þar á undan hjólaði viðkomandi í IKEA fyrir að gefa flóttamönnum inneign hjá sér og lofa þeim vinnu. Gagnrýnin snérist um að IKEA ætti frekar að gefa Íslendingum húsgögn. Facebook-vinurinn spyr síðan: „Er IKEA að stuðla að múslimavæðingu Íslands?“.
Flest sem maðurinn skrifar er beinlínis rangt en annað afar villandi. Allt er sniðið að eftirfarandi skilaboðum: Við (Íslendingar) viljum ekki ykkur (múslima) hingað.
Þeir sem hafa þá skoðun, og deila henni með Ásmundi, Vigni og nýja Facebook-vini mínum, eru ekkert annað en rasistar. Flestir gangast hins vegar ekki við þeim stimpli, aðallega vegna þess að þeim finnst orðið gildishlaðið og neikvætt. En ef við lítum bara inntak hugtaksins þá á það að öllu leyti við þennan hóp.
Við græðum á innflytjendum
Það er mikill misskilningur ef fólk heldur að þetta sé jaðarskoðun á Íslandi. Hér ríkir landlægur rasismi og ótti gagnvart hinu óþekkta sem byggir á tilfinningu frekar en rökum og staðreyndum.
Þessi afstaða stórs hluta þjóðarinnar hefur verið staðfest af sjálfstæðum eftirlitsaðilum. Evrópunefnd gagnvart kynþáttafordómum og umburðarleysi gaf t.d. út skýrslu árið 2010 sem sýndi að 30 prósent Íslendinga vildu takmarka fjölda innflytjenda til landsins. Einn þriðji þess hóps, um tíu prósent landsmanna, vildi takmarka komu fólks með annan litarhátt, trú og menningu en meirihluti Íslendinga.
Í dag eru heitustu rökin fyrir því að halda útlendingum úti annars vegar tengd öryggi og hins vegar tengd kostnaði.
Varðandi öryggisþáttinn þá má benda á að afbrot eru í sögulegu lágmarki á Vesturlöndum, þrátt fyrir aukinn innflytjendastraum, Schengen og allt hitt sem úrtölumenn alþjóðavæðingar og fjölmenningar telja að sé frá myrkraöflunum komið. Hér á Íslandi þurfum við ekki einu sinni að ræða þessi mál. Það er augljóst að innflytjendur eru ekki að vega að öryggi okkar, enda er Ísland öruggasta land í heimi.
Það er líka mikil skammsýni að telja einvörðungu kostnað fylgja innflytjendum. Til lengri tíma eru þeir afar líklegir til að skila mikilli verðmætasköpun til íslensks samfélags. Þeir hafa tilhneigingu til að koma fljótt undir sig fótunum og vinna störf sem Íslendingar sækjast vanalega ekki mjög fast í, sérstaklega þjónustu- og umönnunarstörf.
Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kom út í haust kom fram að innflytjendur hafi almennt jákvæð áhrif á efnahagslíf í þeim löndum sem þeir flytjast til. Í umfjöllun Greiningardeildar Arion banka um hana segir:„Innflytjendur greiða almennt skatta og opinber gjöld umfram það sem þeir fá frá hinu opinbera (þetta styðja fleiri rannsóknir) auk þess að koma með ýmsa færni og þekkingu inn í landið. Einnig hafa flóttamenn jákvæð áhrif á heimalönd sín, m.a. með því að senda pening heim og öðlast færni í nýju landi sem ekki er í boði í heimalandinu. Þá sýnir nýleg rannsókn frá Ástralíu að flóttamenn þar í landi hafi jákvæð efnahagsleg áhrif, auk þess sem farið er yfir ýmsar aðrar rannsóknir þar sem niðurstaðan er að flóttamenn séu ekki byrði til lengri tíma, ólíkt því sem oft er haldið fram.“
Í nýlegum leiðara Economist var einnig fjallað um málið. Þar sagði: „Fólk sem ferðast yfir eyðimerkur og úthöf til að komast til Evrópu er ólíklegt til að vera slugsarar þegar það kemur. Þvert á móti hafa rannsóknir sýnt að innflytjendur um allan heims séu líklegri til að stofna fyrirtæki heldur en heimamenn og ólíklegri til að fremja alvarlega glæpi, auk þess að vera nettó greiðendur í ríkiskassann. Óttinn um að þeir steli störfum og lækki laun á sér einnig litla stoð. Vegna þess að innflytjendur koma með öðruvísi færni, hugmyndir og tengsl, reynast þeir jafnan hækka laun heimamanna, þó laun lítið menntaðara heimamanna lækki lítillega.“
Rannsóknir sýna semsagt að við græðum á því að fjölga innflytjendum. Þá er ég ekkert búinn að snerta á því að íslenskt samfélag vantar einfaldlega fólk til að a) auka stærðarhagkvæmni samfélagsins, b) bregðast við breyttri aldursamsetningu þjóðarinnar svo einhverjir geti séð um og unnið fyrir Ásmundi, Vigni og Facebook-vini mínum í ellinni og c) svo við slítum okkur úr hinum óþolandi viðjum frændhygli og nálægðarspillingar sem hið innræktaða samfélag okkar leiðir óhjákvæmilega af sér.
Stórt pólitískt tækifæri til að ala á hatri og andúð
Það er þó ekki við því að búast að ofangreind rök, sem styðjast við staðreyndir í stað tilfinninga, muni hafa þau áhrif að hræðsla og hatur gagnvart útlendingum muni dragast saman á næstu mánuðum. Þvert á móti sýnir þróun mála í löndunum í kringum okkur, og rannsóknir á þessum málum hérlendis, að fleiri og fleiri séu hoppa á þennan vagn. Það má sannarlega sjá þess merki á samfélagsmiðlum, og í umræðum á Útvarpi Sögu, að fleiri og fleiri eru óhræddir við að opinbera rasisma sinn á opinberum vettvangi.
Ef miðað er við rannsókn Evrópunefndar um kynþáttafordóma og umburðarleysi, sem minnst var á hér á ofan, má ætla að á bilinu 10-30 prósent þjóðarinnar vilji takmarka komu innflytjenda til Íslands. Í því felst augljóst pólitískt tækifæri fyrir tækifærissinnuð stjórnmálaöfl. Það sást ágætlega þegar Framsókn og flugvallarvinir ákváðu að hræra í þessum potti í síðustu sveitarstjórnarkosningum og ruku upp í fylgi í kjölfarið. Síðan hefur forysta flokksins reynt að þrífa þá skömm af sér, með mjög ósannfærandi hætti.
Framsókn mun samt sem áður ekki komast upp með að svara spurningum um stefnu sína í innflytjendamálum með óljósum hætti í aðdraganda næsta þingkosninga, sem fara fram eftir um 16 mánuði. Ef flokkurinn hoppar ekki á rasistavagninn, sem verður að teljast líklegt miðað við vandlætingu forystumanna hans gagnvart réttmætri gagnrýni á flokkinn fyrir rasistadaður sitt, og forysta og ungliðar Sjálfstæðisflokksins ákveða þá sem áður að hunsa gömlu íhaldsuglurnar í sínum flokki, mun skapast risastórt tækifæri fyrir nýtt stjórnmálaafl til að keyra á útlendingaandúð. Stjórnarandstöðuflokkarnir munu ekki nýta það tækifæri.
En það mun einhver gera það.