DV hefur boðið upp á áskriftartilboð um jól og áramót. Eitt tilboðið hefur vakið meiri athygli en hin, en þar er þeim sem gerast áskrifendur að DV í þrjú ár boðið að fá miða á Justin Bieber tónleikanna í Kórnum í september í kaupbæti. Samtals myndi slík áskrift kosta viðkomandi 114.840 krónur, sem verður að teljast ansi dýr biti fyrir þá sem hugleiða að fá sér áskrift einvörðungu fyrir miðanna eftirsóttu.
Ljóst er á ummælum sem fallið hafa við auglýsingu DV á tilboðinu á Facebook að ekki ríkir mikil kátína með umrætt tilboð. Miðillinn er ásakaður um siðleysi og ýmislegt verra. Það fór nefnilega varla framhjá mörgum að miðar á tónleika Bieber seldust upp á skotstundu og mun færri komust að en vildi, þrátt fyrir að alls hafi 19 þúsund miðar verið í boði.
Það vakna upp ýmsar spurningar vegna áskriftartilboðs DV. Í fyrsta lagi velta margir fyrir sér hvernir fjölmiðillinn fékk miða til að láta fylgja með tilboðinu, þegar þúsundir aðdáenda sátu eftir með sárt ennið þegar miðasalan fór fram á Tix.is fyrir skemmstu.
Í öðru lagi hefur Tix gefið það út að það sé ekki undir neinum kringumstæðum leyfilegt að endurselja miða á tónleikanna með fjárhagslegum hagnaði og að allir miðar sem verði endurseldir með þeim hætti verði ógildir. Vel má færa rök fyrir þvi að DV hafi töluverðan fjárhagslegan hag af því að binda fólk sem áskrifendur í heil þrjú ár og fá fyrir tæplega 115 þúsund krónur, þegar miðar á Bieber kostuðu frá 15.990 til 29.990 krónur.
Í þriðja velta ýmsir fyrir sér hvort aðdáendur Bieber, sem alla jafna eru börn og táningar, séu sá markhópur sem DV ætti helst að vera að sækja sér nýja áskrifendur í.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áskriftartilboð DV vekja athygli. Í apríl síðastliðnum staðfesti áfrýjunarnefnd neytendamála ákvörðun Neytendastofu um að banna viðskiptahætti DV þegar dagblaðið auglýsti „frían“ iPad með áskrift að blaðinu. Áskrift að DV hafi verið 334,9 prósent dýrari en raðgreiðslur af iPad fyrstu þrjá mánuðina en 167,5 prósent restina af 36 mánaða binditímanum. Í úrskurði Neytendastofu sagði að „á grundvelli fyrirlggjandi gagna verði ekki annað ályktað en að kostnaður vegna iPad spjaldtölvunnar í áskriftarleið DV sé innifalinn í verði áskriftar.“