Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, fór mikinn í viðtali við útvarpsþáttinn Sprengisand í morgun. Þar var hann meðal annars spurður út í gagnrýni samflokksmanna á formennskutíð hans og ummæli fyrrum formanns flokksins, Margrétar Frímansdóttur, um að Árni Páll hangi á roði sem hann ráði ekki við. Sú gagnrýni er vitanlega sett fram vegna þess að fylgi Samfylkingarinnar, sem átti að verða breiðfylking jafnaðarmanna og félagshyggjufólks, hefur um nokkuð langt skeið mælst um og undir tíu prósent.
Sigurjón M. Egilsson, stjórnandi Sprengisands, spurði Árna
Pál hvort hann efist aldrei um að hann sé rétti maðurinn í formennskustól
Samfylkingarinnar og hvort hann muni sækjast eftir endurnýjuðu umboði í lok árs
2016 þegar ný forysta flokksins verður kosin.
Árni Páll sagðist ekki vilja dingla áfram sem formaður án þess að hafa svör við þeim spurningum sem Samfylkingin og allir aðrir grónir stjórnmálaflokkar standi fyrir í breyttum veruleika. Það blasi við að fólk sé almennt að hrista af sér gamla strúktúra og gömul form og að því þurfi stjórnmálin og stjórnmálaflokkarnir að laga sig. Árni Páll sagði það líka skipta sig máli þegar hann ákveði framhaldið hvað Samfylkingin vildi vera. Hvort hún muni vilja opna sig „upp á gátt“ fyrir öllu fólki - líka þeim sem eru ekki virkir í flokknum í dag - bjóða það velkomið á fundi og að taka þátt í að kjósa nýja forystu. Það vanti vilja í Samfylkinguna til að fá fólk með nýjar hugmyndir inn í flokkinn, en tók þó fram að þær hugmyndir þurfi að byggja á grunngildum jafnaðarmennsku. „Ef það kemur allt öðruvísi fólk inn, með allt öðruvísi hugmyndir, þá bara ræður það fólk[...]Ég hef engan áhuga á því að vera formaður í réttsýnisflokki. Í forskriftarflokki. Ég gafst upp á að vera í Alþýðubandalaginu á sínum tíma, mér fannst svo dapurlegt og þunglyndislegt, þessi eilíf besserwissergangur, að vita alltaf betur en allir aðrir. Það sem heillaði mig við Samfylkinguna var að fólk skyldi vilja koma saman úr mjög ólíkum áttum og vera tilbúið að rökræða og una lýðræðislegri niðurstöðu án þess að útmála hvort annað sem ósanna jafnaðarmenn eða ósanna þetta eða hitt. Það er lykilatriði.“
Í bakherberginu hafa margir velt þessum orðum Árna Páls fyrir sér í dag, enda ekki á hverjum degi sem flokksformaður í stjórnmálaflokki er jafn berorður í gagnrýni á eigin flokk. Ljóst er að Árna Páli finnst Samfylkingin ekki lengur vera sá suðupottur rökræðu og lýðræðis sem hann heillaðist upphaflega af heldur orðin meira í átt við besserwissera-samkomuna sem Alþýðubandalagið endaði sem. Hins vegar eru skiptar skoðanir um hvað Árni Páll sjái fyrir sér sem leiðina út úr þessari stöðu. Var hann að kalla eftir nýrri stefnu og nýjum hugmyndum eða var hann að kalla eftir algjörlega nýju fólki í Samfylkinguna? Hann var að minnsta kosti að kalla eftir öðru hvoru.