Eitt stærsta mál liðins mánaðar var krafa öryrkja og ellilífeyrisþegar um afturvirkar hækkanir á bótum þeirra. Fulltrúar þeirra komu á fund fjárlaganefndar og bentu á að hóparnir hefðu ekki notið sömu kjarabóta og aðrir. Þar fyrir utan væru margir í hópi öryrkja og ellilífeyrisþegar að draga fram lífið langt undir fátækrarmörkum. Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, sagði við það tækifæri: „„Hér býr fólk við fátækt en við getum auðveldlega útrýmt fátækt í þessu litla samfélagi.“
Ákall öryrkja og ellilífeyrisþegar hlaut ekki náð fyrir eyrum stjórnvalda. Breytingartillaga stjórnarandstöðunnar um að bætur yrðu afturvirkar var felld.
Í bakherberginu var þetta rifjað upp sökum þess að á morgun mun Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra halda sitt þriðja áramótaávarp. Í þeim ávörpum sem hann hefur haldið hingað til hefur hann í bæði skiptin minnst á aðstæður og kjör ofangreindra bótaþega. Árið 2013 sagði hann: „Rúmlega 300 þúsund manna þjóð með þá lýðræðishefð, þekkingu, sterku innviði og ómældu auðlindir sem landið veitir á að geta byggt upp samfélag þar sem öll störf eru vel launuð og þeir sem hafa lokið starfsævinni eða þarfnast aðstoðar búa við öryggi.“
Í fyrra sagði Sigmundur Davíð síðan: „Þannig segir sú staðreynd að á Íslandi sé lægst hlutfall fátæktar í Evrópu okkur ekki að við eigum að sætta okkur við það hlutfall, hún segir okkur að fátækt eigi ekki að þurfa að vera til á Íslandi.“
Það verður áhugavert að sjá hvort fátækt, sem sannarlega er til á Íslandi, eða öryggi þeirra sem hafa lokið starfsævinni eða þarnast aðstoðar, beri á góma í ávarpi morgundagsins.