Morgunblaðið hefur verið duglegt að fjalla um sjónarhorn og skoðanir hagsmunaaðila í sjávarútvegi á stuðningi Íslands við viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna í garð Rússa.
22. desember birtist forsíðufrétt á Morgunblaðinu um skoðun Kolbeins Árnasonar, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, á óbreyttri afstöðu Íslands til viðskiptaþvingananna. Í fréttinni kom fram að afstaðan kosti íslenskan sjávarútveg átta til tólf milljarða króna á ársgrundvelli. Evrópusambandið hafði samþykkt nokkrum dögum áður að framlengja viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum um sex mánuði og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hafði sagt opinberlega að afstaða Íslands gagnvart stuðningi við aðgerðirnar yrði óbreytt. Forsíðuna má sjá hér að neðan.
Í dag, 4. janúar, er síðan forsíðufrétt um skoðun Jens Garðars Helgasonar, stjórnarformann Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, á þátttöku Íslands í viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum. Þar segir Jens Garðar að viðskiptabann Rússa, sem lagt var á íslenskar vörur vegna stuðnings okkar við viðskiptaþvinganirnar, kosti þjóðina tólf til þrettán milljarða króna á árinu 2016.
Því ræddi Morgunblaðið við bæði framkvæmdastjóra og stjórnarformann hagsmunasamtaka útgerðarmanna um skoðun þeirra á pólitískum aðgerðum ríkisstjórnar Íslands á forsíðu blaðsins á innan við tveimur vikum. Og í millitíðinni hækkaði áætlaður árlegur kostnaður Íslands vegna stuðnings við viðskiptaþvinganir gegn Rússum úr átta til tólf milljörðum króna í tólf til þrettán milljarða króna.
Þessi framsetning á fréttum um hagsmuni útgerðarfélaga þarf reyndar ekki að koma neitt sérstaklega á óvart. Alls eiga félög tengd sjávarútvegi 79,37 prósent hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Flestir forsvarsmenn félaganna hittast víðar en á hluthafafundum Árvakurs. Þeir sitja nær allir í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem áður hét Landssamband íslenskra útgerðarmanna (LÍÚ).
Þegar hlutur félags Sigurbjörns Magnússonar, sem situr í stjórn Ísfélags Vestmannaeyja, og Halldórs Kristjánssonar, tengdasonar fyrrum eigenda Stálskipa, er talin með fer þetta hlutfall upp í 95,84 prósent.