Eins og ég minntist á í pistli á dögunum þá tel ég að Ólafur Ragnar Grímsson hafi gert mikil mistök, fyrst hann var að beita málskotsréttinum á annað borð, að vísa ekki lögum sem heimiluðu Kárahnjúkavirkjun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var tækifæri til þess eftir 16. apríl 2002, þegar Alþingi samþykkti lög sem heimiluðu virkun Jökulsár á Brú og Jökulsár á Fljótsdal, en það hefði einnig verið hægt að gera það á öðrum stigum, þegar aðrir hlutar Kárahnjúkavirkjunar komu til kasta þingsins.
Meiri almannahagsmunir undir
Fjölmiðlalögin svokölluðu og Icesave-málin eru mun vegaminni atriði heldur en þessi ráðstöfun á orkuauðlindum þjóðarinnar felur í sér, hvort sem litið er til almannahagsmuna eða beinna peningalegra hagsmuna. Upphæðirnar sem tengjast viðskiptunum með raforkuna eru margfaldar á við hagsmuni almennings sem snéru að Icesave-málinu, og fjölmiðlalögin blikkna í samanburði við hagsmunina sem undir voru, hvernig sem þau eru borin saman. Þar skiptir sköpum að um 40 ára viðskiptasamning var að ræða.
Svo virðist sem Ólafur Ragnar hafi ekki haft áhuga á beitingu málskotsréttarins þegar 37,5 prósent af orkuauðlindum þjóðarinnar var ráðstafað, sé miðað við efnahagsreikning Landsvirkjunar árið 2014 og þá orku sem framleidd er nú.
Þúsund störf og 14 til 15 þúsund störf
Nú eru sjö ár liðin af 40 ára samningstíma Landsvirkjunar við Alcoa. Í 33 ár í viðbót munu hluthafar Alcoa njóta góðs af lágu verði sem samið var um, með framleiðslunni á Austurlandi. Gagnrýni á þessi viðskipti snýr ekkert að framleiðslu sjálfri eða starfsfólki Alcoa á Íslandi. Um eitt þúsund störf hafa orðið til vegna starfsemi Alcoa.
En það verður að horfa á þessi hluti í stærra samhengi en út frá hagsmunum Alcoa. Á árunum 2013 til 2015 hafa t.d. orðið til 14 til 15 þúsund ný störf á Íslandi, flest í gegnum nýsköpunarstarfsemi og ferðaþjónustu. Þetta rakti Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, ágætlega í pistli á mbl.is á dögunum. Þetta hefur gerst á sama tíma og íslenska ríkið hefur verið að borga niður skuldir, og Landsvirkjun sömuleiðis.
Ríkið þarf ekki alltaf að ryðja veginn
Þetta sýnir ágætlega, að íslenska ríkið þarf ekki nauðsynlega að taka lán í erlendri mynt, upp á nálægt 200 milljarða miðað við núverandi gengi, til þess að búa til þúsund störf fyrir Alcoa. Það eru engin lögmál. Stjórnmálamenn, ekki síst þeir sem tala til fólks frá hægri vængnum, skulda betri rök fyrir stefnu eins og þeirri sem Kárahnjúkavirkjun og 40 ára viðskiptasamningurinn við Alcoa byggði á, og þeim miklu skuldbindingum sem hið opinbera er að stofna til, svo að agnarsmár hluti starfa af heildinni verði til.
Nú er fyrirsjáanlegt, eftir að þjóðir heimsins komu sér saman um að stemma stigu við mengun af mannavöldum í París undir lok ársins, að áhugi erlendis frá á endurnýjanlegri orku á Íslandi muni aukast mikið. Til þessa hafa íslenskir stjórnmálamenn ekki sýnt nægilegan sáttavilja þegar kemur að því njörva niður rammaáætlun sem segir til um hvað megi virkja og hvað ekki, til langrar framtíðar. Mikilvægt er að hún haldist óbreytt milli kjörtímabila, svo að sátt geti náðst og langtímasýn á stöðu mála verði til með einhvern grunn sem heldur.
Hvernig ætli þessi orka, sem Alcoa mun kaupa næstu 33 árin, sé verðlögð núna? Það er vitað að erlend ríki vilja að sæstrengur sé lagður hingað, og orka seld um hann, á margföldu verði á við það sem Alcoa kaupir á. Norðmenn hafa þegar klárað pólitískar rökræður um þessi mál, og er það mat stjórnmálamanna þar, þvert á flokka, að skynsamlegt sé fyrir Noreg að selja raforku um sæstreng til Evrópuríkja.
Stjórnmálamenn munu þurfa að taka afstöðu til þess, hvernig við ætlum að taka þátt í alþjóðasamstarfi í þessum efnum, en um leið verja hagsmuni landsins. Því miður er umræða um þetta stutt komin, en hún er aðkallandi.
Það er full þörf á því að minnast á það aftur, eins og ég gerði í síðasta pistli, að margir þeir sem gagnrýndu viðskiptasamninginn við Alcoa, málefnalega og af festu - samhliða náttúruverndarbaráttu - fengu yfir sig miklar skammir og oft yfirlætisfullar aðdróttanir. Guðmundur Páll Ólafsson heitinn, náttúrufræðingur og rithöfundur, er meðal þeirra.
Nú liggur það fyrir, sjö árum eftir að orkusala frá Kárahnjúkavirkjun hófst, að stjórnmálamenn sáu til þess að stórum hluta af orkuauðlindum þjóðarinnar var ráðstafað í þágu hagsmuna hluthafa Alcoa.
Komandi kynslóðir munu spyrja sig spurninga
Þjóðaratkvæðagreiðsla um virkjunaráformin hefði skapað grunn að sátt um niðurstöðuna, og gefið komandi kynslóðum betri grunn til þess að meta hvernig þessir viðskiptasamningar komu til. Því miður var Ólafur Ragnar ekki búinn að færa hugann að þessum möguleika árið 2002, þó það hafi breyst skömmu síðar þegar hagsmunir fjölmiðlalaganna voru undir. Hvað veldur því, er erfitt að segja, en enginn vafi á því í hvoru málinu voru meiri hagsmunir undir fyrir almenning og hvort málið var umdeildara meðal þjóðarinnar.
En nú heyrir það upp á stjórnmálamenn, og þau sem að því stóðu, að treysta viðskiptin við Alcoa í sessi með lögum, og ráðstafa stórum hluta af orkuauðlindum þjóðarinnar í leiðinni, að tala skýrt um hvernig staðan horfir við og hvort þessi viðskipti voru skynsamleg eða ekki. Getur verið að Alcoa hafi gert ótrúlegan samning við íslenska stjórnmálamenn, sem almenningur tapar á og komandi kynslóðir?
Voru þetta góð viðskipti? Voru þessi þúsund störf dýru verði keypt eða ekki? Höfðu Guðmundur Páll, og fleiri sem gagnrýndu viðskiptin við Alcoa - og máttu þola skít og skömm fyrir - rétt fyrir sér? Þessum spurningum þarf að svara, og vonandi verða þau sem stóðu að viðskiptasamningunum, fyrir hönd almenings, óhrædd við að bera gögn á borð máli sínu til stuðnings í þetta skiptið.