Arion banki sendi í gær frá sér fréttatilkynningu um að Frjálsi lífeyrissjóðurinn hafi lækkað vexti á lánum sem hann veitir m.a. til húsnæðiskaupa og fjölgað valkostum sínum. Veðhlutföll sjóðsins hafa verið rýmkuð, sveigjanleiki í tegundum lána aukin og vextir lækkaðir umtalsvert. Nú er til dæmis hægt að taka lán á breytilegum vöxtum hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum á 3,17 prósent vöxtum, en þeir vextir voru áður 3,8 prósent. Þá er hægt að taka óverðtryggð lán með föstum vöxtum í þrjú ár á 6,58 prósent vöxtum. Auk þess er lántökugjald hjá Frjálsa 0,75 prósent.
Ástæða þess að Arion banki sendi út viðkomandi fréttatilkynningu er sú að Arion banki rekur sjóðinn og hann er til húsa í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni. Auk þess fer afgreiðsla lífeyrissjóðslána fram í útibúi Arion banka á Höfða.
Þetta gæti ruglað ýmsa. Þau kjör sem Arion banki býður á húsnæðislánum eru nefnilega að langmestu leyti mun slakari en þau sem lífeyrissjóðurinn sem bankinn rekur býður. Hjá Arion banka eru fastir vextir til þriggja ára á óverðtryggðum lánum 7,15 prósent, breytilegir verðtryggðir vextir eru 4,15 prósent og lántökugjaldið er eitt prósent. Allt eru þetta mun lakari kjör en Frjálsi býður. Hjá Arion banka er þó hægt að taka lán fyrir allt að 80 prósent af kaupvirði á meðan að ofangreind kjör Frjálsa miða við 65 prósent hámarksveðsetningarhlutfall.
Það er því spurning hvað starfsmenn Arion banka í útibúinu við Höfða gera þegar viðskiptavinur bankans sem borgar í Frjálsa lífeyrissjóðinn kemur í útibú bankans á Höfða til að sækja sér húsnæðislán. Leiðbeina þeir honum að taka húsnæðislán hjá Arion banka eða munu þeir beina honum í mun hagstæðari lánin sem Frjálsi lífeyrissjóðurinn býður og afgreidd eru á nákvæmlega sama stað?