Landsbankinn steig fordæmalaust skref á mánudag þegar hann opnaði ítarlega „spurt og svarað“ síðu um sölu bankans á hlut í greiðslukortafyrirtækinu Borgun, sem hefur verið mikið gagnrýnd. Samhliða sendi bankinn frá sér langa fréttatilkynningu þar sem farið var í gegnum helstu aðalatriði málsins. Í tilkynningunni segir m.a.: „Landsbankanum var kunnugt um að Borgun hugðist auka verulega færsluhirðingu fyrir seljendur í erlendum netviðskiptum. Að mati bankans fylgdi þeirri starfsemi veruleg áhætta og líkur voru taldar á að hún gæti leitt til tjóns hjá félaginu og skaðað orðspor Landsbankans."
Í gær voru síðan sagðar fréttir af því að orðsporsáhættan hefði meðal annars verið falin í því að Landsbankinn hafði áhyggjur um að útrás Borgunar myndi fela í sér aukningu á færsluhirðingu fyrir veðmálaviðskipti og klámsíður.
Þær áhyggjur eru áhugaverðar þegar þær eru mátaðar við grein sem Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, skrifaði í Morgunblaðið 22. janúar síðastliðinn vegna Borgunarmálsins. Þar sagði m.a. að þegar tilboð barst frá stjórnendum Borgunar í hlut Landsbankans, snemma árs 2014, hafi þeir einnig boðið í hlut Íslandsbanka í fyrirtækinu. Íslandsbanki, sem á meirihluta í Borgun, hafi hins vegar ákveðið að taka ekki tilboði stjórnendanna og þá hafi Landsbankinn kannað „hvort Íslandsbanki hefði áhuga á að eiga viðskipti við Landsbankann með hluti í Borgun. Íslandsbanki hafði ekki áhuga á því.“
Það virðist því liggja fyrir að um vor eða sumar 2014 hafi Landsbankinn kannað hvort bankinn gæti eignast stærri hluta í Borgun og virtist þá ekki hafa miklar áhyggjur af orðsporsáhættu sinni. Nokkrum mánuðum síðar seldi Landsbankinn síðan hlut sinn í fyrirtækinu vegna þess að hann taldi að starfsemi þess fylgdi „veruleg áhætta og líkur voru taldar á að hún gæti leitt til tjóns hjá félaginu og skaðað orðspor Landsbankans."
Mögulega breyttist skoðun Landsbankans við það að óskað var upplýsingum um framtíðaráform Borgunar í júlí 2014, líkt og fram kom í tímalínu sem bankinn birti í gögnum sem hann sendi Alþingi fyrr í dag.