Sala Landsbankans á 31,2 prósent hlut í Borgun í nóvember
2014 hefur heldur betur dregið dilk á eftir sér. Bankinn, sem er að nánast öllu
leyti í eigu íslenska ríkisins, seldi hlutinn á 2,2 milljarða króna til
Eignarhaldsfélagsins Borgunar, sem var í eigu stjórnenda Borgunar og
meðfjárfesta þeirra. Í viðskiptunum var miðað við að heildarvirði Borgunar væri
sjö milljarðar króna.
Viðskiptin voru upphaflega gagnrýnd harkalega í kjölfar þess að Kjarninn greindi frá því að hluturinn hafi verið seldur bakvið luktar dyr, í ógagnsæju ferli og að bjóðendur hafi setið einir að því að fá tækifæri til að kaupa hlutinn. Sá hópur sem keypti þorra hlutar ríkisbankans á hrakvirði samanstóð annars vegar af stjórnendum Borgunar – sem höfðu besta yfirsýn yfir hversu mikils virði fyrirtækið er – og hins vegar hópi mjög efnaðra meðfjárfesta, sem keyptu stærstan hluta þess sem selt var.
Á meðal þeirra eru Stálskip ehf., þar sem Guðrún Lárusdóttir hefur stýrt ferðinni í áratugi, og félag í eigu Einars Sveinssonar, sem skráð er í Lúxemborg. Einar er föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, og var viðskiptafélagi hans árum saman áður en Bjarni hætti í viðskiptum til að einbeita sér að stjórnmálum. Þótt nokkuð augljóst sé að Bjarni hafi aldrei verið í nokkurri stöðu til að beita sér fyrir því að frændi hans fengi að kaupa hlutinn í Borgun - og hefur þar af leiðandi ekki haft nokkuð með kaupin að gera - þá er jafn ljóst að þessi tengsl eru óheppileg. Þau hafa skapað tortryggni og dregið úr trausti.
Það var ekki til að bæta ásýnd viðskiptanna þegar eigendur Borgunar ákváðu að borga sér 800 milljónir króna í arð í febrúar 2015, rúmum tveimur mánuðum eftir að gengið var frá sölu á hlut ríkisbankans.
Úr sjö milljörðum í allt að 26
Gagnrýnin á Borgunarsöluna fékk byr undir báða vængi í upphafi árs 2016 þegar greint var frá því að Borgun ætti rétt á hlutdeild í söluandvirði Visa Europe, en Visa Inc. er að kaupa það félag. Morgunblaðið hefur sagt frá því að Borgun sé nú metið á allt að 26 milljarða króna, eða næstum fjórum sinnum meira en þegar Landsbankinn seldi hlut sinn. Samkvæmt þessu mati er hlutur þeirra sem keyptu á 2,2 milljarða króna nú allt að 8,1 milljarða króna virði. Fjárfestarnir hafa grætt tæpa sex milljarða króna á rúmlega fjórtán mánuðum. Það eru tæpar 560 milljónir króna á hverjum einasta mánuði sem liðið hefur frá því að kaupin voru frágengin.
Í gær upplýsti Borgun loks um það að fyrirtækið muni fá 6,5 milljarða króna vegna sölunnar á Visa Europe, þar af munu 4,8 milljarðar króna skila sér í peningum þegar formlega verður gengið frá sölunni. Auk þess mun Borgun fá afkomutengda greiðslu árið 2020 sem fyrirtækið hefur ekki upplýst um hversu há er. Það liggur því fyrir að það sem fellur Borgun í skaut vegna þessarra viðskipta, sem voru ekki tekin með í reikninginn þegar ríkisbankinn seldi hlut sinn í fyrirtækinu, er að öllum líkindum hærri fjárhæð en heildarvirði Borgunar var áætlað í viðskiptunum í lok árs 2014.
Borgun segir að meginhluti hagnaðarhlutdeildar Borgunar megi rekja til rekstrarsögu Borgunar síðustu 18 mánuði fyrir sölu Visa Europe. Það þýðir að hluti hagnaðarins hið minnsta varð til áður en Landsbankinn seldi hlut sinn í Borgun fyrir rúmum fjórtán mánuðum.
Kasta á milli sín kartöflunni
Framan af létu bæði stjórnendur Landsbankans og Borgunar sem að ekkert hafi verið athugavert við söluna. Eftir mikla gagnrýni viðurkenndi bankaráð Landsbankans snemma árs í fyrra að standa hefði átt að sölunni með öðrum hætti og að hluturinn hefði átt að seljast í opnu og gagnsæju ferli. Bankinn hélt því þó ávallt fram, síðast í aðsendri grein eftir Steinþór Pálsson bankastjóra sem birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2016, að hann hefði fengið gott verð fyrir hlutinn í Borgun.
Nú er annað hljóð í strokknum og stjórnendur Borgunar og Landsbankans hafa undanfarna daga kastað ábyrgðinni á því að stjórnendur Landsbankans hafi ekki áttað sig á mögulegu verðmæti Borgunar, við söluna á hlut sínum fyrir um fjórtán mánuðum, á milli sín eins og heitri kartöflu. Bankasýsla ríkisins er komin á fullt í að kanna söluna og hefur farið fram á ítarlegar upplýsingar um hana. Steinþór breytti síðan tóni sínum í málinu mjög rækilega í viðtali við RÚV um liðna helgi þegar hann sagði að ef það komi í ljós að upplýsingum hafi verið haldið frá Landsbankanum í söluferlinu á hlut hans í Borgun muni bankinn leita réttar síns. „Þá er málið mjög alvarlegt, þá fer þetta bara í lögfræðilegan feril. Þá munum við gæta okkar hagsmuna með þeim aðferðum sem hægt er.“
Borgun svaraði því til í svari við fyrirspurn Landsbankans í gær að það hafi alltaf legið fyrir, og ekki verið neitt leyndarmál, að Borgun hefði verið leyfishafi í Visa Europe. Þetta hafi verið kynnt á fundum með Landsbankanum í aðdraganda sölunar á hlut hans. Það hafi líka legið fyrir að til staðar var valréttur sem gæti skilað söluhagnaði ef Visa Inc. myndi ákveða að kaupa Visa Europe. Borgun hefði ekki talið hann vera vera „veruleg verðmæti“ á sínum tíma og bókfært valréttinn þannig.
Síðar breyttist þessi valréttur hins vegar í risavaxinn happadrættisvinning fyrir nýja eigendur Borgunar.
Hápólitískt og mun hafa afleiðingar
Málið er nú orðið hápólitískt og ljóst að það mun hafa afleiðingar. Stjórnmálamenn þvert á hið pólitíska litróf hafa kallað eftir því að einhver verði látinn axla ábyrgð á gjörningnum, sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur kallað klúður og Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur lengi sagt að sé reginhneyksli. Árni Páll hefur enn fremur sagt að atburðarrásin öll lýsi mjög ógeðfelldum samskiptum í æðstu lögum í fjármálakerfinu sem kalli „á spurningar um þann kúltúr sem þar viðgengst.“
Í gærkvöldi urðu síðan ákveðin vatnaskil þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í kvöldfréttum RÚV að augljóst hefði verið að salan á Borgun hefði verið klúður og að standa hefði átt öðruvísi að henni. Málið gæti haft áhrif á áform ríkisins um að selja 28,2 prósent hlut í Landsbankanum, en fjárlög ársins 2016 gera ráð fyrir því að hún skili ríkissjóði 71 milljarði króna í kassann í ár.
Það eru engir smápeningar sem þarf þá að finna annarsstaðar til að láta fjárlög ganga upp.
Ljóst er að þungi var í orðum Bjarna þegar hann sagðist áskilja sér allan rétt til að íhuga hvað væri hægt að gera til að vernda hina miklu hagsmuni ríkisins í málinu. Þar var hann án efa að vísa til þess að traust er lykilforsenda alls bankareksturs. Ef traust til banka, bankaráðs eða stjórnenda banka er laskað eða horfið þá hefur það eðlilega áhrif á virði bankans og mögulegan áhuga áhugasamra kaupenda á honum.
Það virðist því blasa við að aðgerða sé að vænta vegna Borgunarmálsins. Beinharðir fjárhagslegir hagsmunir ríkissjóðs, og þar með okkar allra, eru undir.