Ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, um að bjóða sig ekki fram í embætti forseta Íslands, sem Kjarninn greindi frá í morgun, mun án vafa gera ákvörðun ýmissa sem velt hafa fyrir sér framboði auðveldari. Afstaða Katrínar ætti raunar ekki að koma neinum mikið á óvart. Hún sagði fyrst frá því fyrir tæpu ári síðan að hún sæi sig ekki fyrir sér í embættinu. Í byrjun janúar sagði hún svo, í samtali við Kjarnann, að hún hefði framboð ekki í hyggju.
Afdráttarlaus neitun hennar í stöðuuppfærslu á Facebook í morgun tók síðan af allan vafa.
Ýmsir hafa þegar tilkynnt um framboð sitt til forseta. Á meðal þeirra eru Ari Jósepsson, Elísabet Jökulsdóttir, Heimir Örn Hólmarsson, Ástþór Magnússon, Hildur Þórðardóttir og nú síðast sjúkrahúspresturinn Vigfús Bjarni Albertsson. Þorgímur Þráinsson, Sturla Jónsson, Linda Pétursdóttir, Sigrún Stefánsdóttir, Stefán Jón Hafstein og Hrannar Pétursson hafa öll lýst yfir áhuga á að bjóða sig fram. Flest þeirra er þó sem stendur ekki talin eiga mikinn möguleika á að sigra í forsetakosningunum 25. júní næstkomandi.
Þekktustu nöfnin sem liggja undir feldi eiga þó enn öll eftir að segja af eða á. Nú þegar Katrín hefur gefið framboð algjörlega frá sér er ljóst að styttast fer í tilkynningar þeirra.
Fjórir virðast hafa lagt mesta vinnu í að láta ráðgjafa meta möguleika sína, athugað með fjármögnun kosningabaráttu og þreifað leynt og ljóst fyrir sér eftir stuðningi við mögulegt framboð. Þar ber fyrst að nefna Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrrum varaformann Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði Kjarnanum 23. febrúar að hún væri að íhuga framboð og þeir sem þekkja til segja að Þorgerður Katrín hafi m.a. viljað bíða eftir niðurstöðu Katrínar Jakobsdóttur áður en hún tilkynnti um sína ákvörðun. Líkurnar á framboði hennar hafa því aukist til muna eftir daginn í dag.
Halla Tómasdóttir, athafnakona og einn stofnenda Auðar Capital, er einnig að íhuga framboð og hefur unnið töluverða grunnvinnu við að greina stuðning við það. Ljóst er að hún og Þorgerður Katrín munu að mörgu leyti fiska í sömu tjörn eftir atkvæðum og því verður áhugavert að sjá hvor verður á undan að tilkynna.
Nokkuð ljóst þykir að Össur Skarphéðinsson, fyrrum formaður Samfylkingarinnar, hyggur á forsetaframboð, þótt hann sé enn þögull sem gröfin um málið. Hann hefur kannað mögulegan stuðning við það víða, bæði innan stjórnmála og atvinnulífs, auk þess sem þekktir almannatenglar hafa verið kallaðir til í verkefnið. Össuri er því örugglega létt að Katrín sé hætt við.
Að lokum ber að nefna Andra Snæ Magnason, en líkurnar á hans framboði aukast með hverjum deginum sem hann slær það ekki endanlega af. Rúmir tveir mánuðir eru síðan að hann sagði í viðtali við Fréttablaðið að hann hefði hugsað alvarlega um forsetaframboð. Við blasti að Andri Snær myndi ekki fara á móti Katrínu Jakobsdóttur, enda áherslumál þeirra sambærileg og þéttasta stuðningsnetið það sama. Því enn ein hindrunin milli hans og forsetaframboðs horfin eftir daginn í dag.
Tímasetning framboðstilkynningar getur skipt öllu máli og í bakherberginu er því spáð að stóru frambjóðendurnir muni tilkynna um áform sín seinni hluta marsmánaðar. Svo þjóðin geti smjattað á þeim í fermingarveisluvertíðinni sem framundan er.