Á meðan Donald Trump veður áfram í kosningabaráttu sinni, með byr í seglum, er flokksforysta Repúblikana allt annað en róleg. Hún er sögð vera að stilla saman strengi til að koma í veg fyrir að Trump verði fulltrúi flokksins í forsetakosningunum í nóvember. Sá sem leiðir hóp forystumanna Repúblikana er Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og fyrrverandi varaforsetaefni flokksins.
Það sem fyllti mælinn hjá Ryan var þegar Trump neitaði að
fjarlægja sig kynþáttahöturum í Ku Klux Klan samtökunum. Eftir að hafa
gagnrýnt Trump fyrir glannalegar yfirlýsingar í nokkur skipti, meðal annars
þegar hann lagði til að múslimum yrði bannað að koma til Bandaríkjanna, virðist
Ryan hafa misst algjörlega þolinmæðina gagnvart fordómafullum viðhorfum Trumps,
og freistar þess nú að koma í veg fyrir að hann verði sá sem leiði Repúblikana
í kosningabaráttunni.
Erfið staða
En hvernig er það hægt, ef Trump kemur á fund Repúblikana, þar sem endanlega mun koma í ljós hvaða fulltrúar flokksins verða í fararbroddi í kosningunum? Trump þarf að ná 1.237 kjörmönnum til að vera með meirihluta á landsfundi Repúblikana. Ef það tekst ekki þá opnast möguleiki fyrir aðra frambjóðendur, til að styðja annan en Trump, alveg óháð því hversu mikla sigra Trump hefur unnið í ríkikjunum. Þannig geta kjörmenn annarra frambjóðenda en Trump sameinast gegn honum og stöðvað sigurgöngu hans.
Flokkurinn á hvolfi
Einn virtasti blaðamaður Bandaríkjanna sem skrifar um stjórnmála, Philip Bump, segir í grein á vef The Washington Post í dag, að þessar áhyggjur sem forysta Repúblikana hefur af vinsældum Trumps séu um margt einstakar fyrir flokkinn. Rökin gegn Trump sem oft eru dregin upp, það er að hann njóti ekki vinsælda hjá flokksmönnum, einkum forystunni, eru ekki nægilega sterk þegar tölurnar eru skoðaðar.
Í fyrra hafði Trump ekki svo mikinn stuðning innan flokksins, en þetta hefur breyst mikið á síðustu sex mánuðum. Nú virðist andstaðan við Trump vera að magnast hjá forystunni, á sama tíma og vinsældirnar hjá almennum flokksmönnum hafa aukist. Þetta hefur þau áhrif að forystan hefur einangrast innan flokksins, og í þinginu minnkar slagkraftur þess.
Bump segir í greiningu sinni að tölurnar séu bæði með og á móti Trump, því séu kosningarnar árið 2012 skoðaðar, og hvernig fylgið þróaðist hjá Mitt Romney – sem nú er svarinn andstæðingur Trumps – þá getur brugðið til beggja vona, verði Trump útnefndur fulltrúi flokksins í forsetakosningunum. Þá gæti hafist niðurlægjandi vegferð fyrir flokkinn, þar sem samstöðuleysið yrði fyrir allra augum, sem myndi leiða til afgerandi sigurs Demókrata, líklega Hillary Clinton eins og mál standa nú.
Upprisan gegn fordómum
Trump kemur úr heimi viðskiptanna og hefur alla tíð verið
með silfurskeið í munni, ef svo má að orði komast. Eignir hans eru metnar á 4,5
milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 600 milljörðum króna. Þær eru að mestu
bundnar í fasteignum, samkvæmt upplýsingum Forbes, og að grunni til fékk hann þær í arf frá fjölskyldu sinni.
Aðeins einn stjórnmaálamaður
í Bandaríkjunum er ríkari en hann, og hann hefur opinberlega gefið það út að
hann ætli ekki að taka þátt í forsetaslagnum. Það er Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri í New York, en
eignir hans eru metnar á 40 milljarða Bandaríkjadala, og er hann í hópi ríkustu
manna Bandaríkjanna. Hann lýsti því yfir á blaðamannafundi að hann vildi ekki
verða til þess að gera „Trump eða Cruz“ að forseta, með því að taka mögulega
fylgi af Hillary Clinton eða Bernie Sanders.
Eins ótrúlega að það
kann að hljóma þá hefur Trump, sem fyrir minna en ári síðan þótti vera
fulltrúi viðskiptaelítunnar í kosningabaráttunni, tekist að mála sig nánast
alveg út í horn hjá „elítunni“ á stjórnmálasviðinu. Hún er nú, þvert á flokka,
í kappi við tímann til að gera honum ómögulegt að verða forseti Bandaríkjanna,
samkvæmt greingum sem birtast í
fjölmiðlum hér.
Hann hefur víðtækan stuðning hjá sértrúarsöfnuðum og hinum ýmsu samtökum sem
Repúblikanar hafa þurft að hafa mikið fyrir að fjarlægja sig, og standa Ku Klux
Klan samtökin þar upp úr.
Upprisa forystunnar er upprisa gegn fordómunum
Eins og Ryan og John McCain hafa bent á, þá á að Repúblikanaflokkurinn á að vera opinn fyrir öllum kynþáttum og trúarbrögðum. Vissulega hefur mátt grein vafasöm sjónarmið í grasrót Repúblikana, í gegnum tíðina, en enginn líklegur forsetaframbjóðandi flokksins flokksins hefur talað með viðlíka hætti og Trump gerir nú. Sá sem kemst næstur er Ted Cruz, sem er næstur á eftir Trump í röðinni eins og mál standa nú.
Það að neita að fjarlægja sig forystu Ku Klux Klan, kalla alla Mexíkóa nauðgara og eiturlyfjasmyglara og vilja setja upp vegg á landamærum, og banna múslium að koma til Bandaríkjanna og vera þar, er skýrt merki um eitt.
Það er yfirlýstur kynþáttahatari að reyna að verða valdamesti maður heims, á viðkvæmum tímapunkti í heiminum.
Sjálfsagt að koma mótmælum á framfæri
Vonandi hafa íslenskir ráðamenn kjark til þess að mótmæla með ákveðnum hætti þessum fráleitu og vitfirrtu stefnumálum Trumps. Þó ekki nema í virðingarskyni við múslima á Íslandi, svarta og aðra þá sem Trump talar gegn. Hann er ekki að tala bara gegn Bandaríkjamönnum heldur öllum þeim sem vilja koma þangað og vera þar, til dæmis við nám og störf.
Það eru dæmi fyrir kröftuglegum mótmælum gegn Trump og málflutningi hans, og má nefna stjórnmálamenn í Bretlandi því til staðfestingar. Hinn litríki borgarstjóri í London, Boris Johnson, hefur farið þar fremstur í flokki. Bæði með því að beita húmornum, en einnig á alvarlegri nótum þegar honum hefur gefist kostur á því. Hann áttar sig á því að Trump er að tala með niðrandi hætti um milljónir Breta líka.
Kynþáttahatur eins og sést hjá Trump – sem forysta Repúblikana er nú orðin lafhrædd við – er alvarlegt mál og varðar okkur öll, því miður.