Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra stendur í ströngu, en í morgun sagðist hann í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni „hlakka til“ þess ef fram kæmi á hann vantrausttillaga á Alþingi. Ástæðan eru upplýsingar um félagið Wintris sem eiginkona hans á, en það er skráð á Bresku jómfrúareyjunum og lýsti það um 500 milljóna kröfu í bú hinna föllnu banka, Kaupþings, Landsbankans og Glitnis, eins og kunnugt er, og hefur verið rætt mikið að undanförnu.
Eitt af því sem forsætisráðherrann nefndi í viðtalinu í þættinum Sprengisandi, voru eftirfarandi orð, þegar hann var spurður út í það, hvort hann óttaðist vantrausttillögu frá þingmönnum á Alþingi vegna málsins, einkum hinum augljósu spurningum sem vakna um vanhæfi forsætisráðherra til að koma að málum þar sem persónulegir hagsmunir hans voru undir. „Heldur betur ekki. Þetta er alveg kjörið tækifæri til þess að ræða árangur þessarar ríkisstjórnar. Hvaða árangri hún hefur náð og bera það saman við aðra og hverju þeir hafa skilað,“ sagði Sigmundur Davíð, kokhraustur.
Það sem Sigmundur Davíð virðist ekki átta sig á, þegar þetta mál er annars vegar, er að það snýst aðeins að litlu leyti um hann, eiginkonu hans eða Framsóknarflokkinn, þar sem hann er formaður. Það hefur ekki þurft þetta mál til þess að minnka fylgið við flokkinn úr 29,6 prósentum skömmu fyrir kosningarnar 2013 niður í ellefu prósent nú, sé mið tekið af könnunum Gallup.
Málið snýst mun frekar um almenning og hvernig stjórnmálamenn fara með umboðið sem þeir fá í lýðræðislegum kosningum. Þegar það stendur til að lýsa yfir vantrausti á forsætisráðherra, á grundvelli þess að hann hafi haldið leyndum persónulegum hagsmunum fjölskyldu sinnar er tengjast málefni sem hann var með puttann í ásamt trúnaðarmönnum sínum, þá er það ekkert gaman mál fyrir almenning. Þetta kemur í reynd flokkspólitískum atriðum lítið sem ekkert við, og því eru varnarorð pólitískra samherja forsætisráðherra nær alveg marklaus.
Það eru stjórnmálamenn almennings sem eru að deila um þessi mál, og forsætisráðherra getur ekki persónugert upplegg vantrausttillögunnar, bara til þess að geta rætt um hvernig þróun mála hefur verið í efnahagslífinu frá því ríkisstjórn hans tók við. Það er ekki rétt hjá forsætisráðherra að vantrausttillaga sé „kjörið tækifæri“ til að ræða um árangur ríkisstjórnarinnar. Efnislega ættu umræður um hana aðeins að snúa að því, hvort forsætisráðherra hafi verið hæfur þegar að fyrrnefndu máli kom, og hvort það hafi ekki verið óeðlilegt að halda persónulegum hagsmunum fjölskyldu hans leyndum fyrir þingi og þjóð. Ekkert annað ætti að komast að í þessum umræðum en þessi atriði.
Ef það verður gerð tilraun til þess að snúa þessu alvarlega máli upp í pólitíska varnarleiksýningu - eins og margt bendir til að sé verið að reyna að gera - þá mun það tæta niður traust almennings á stjórnmálunum enn frekar. Sigmundur Davíð hefur dregið verulega úr traustinu nú þegar, með því að neita að ræða við fjölmiðla um málið í tíu daga - nema með útvöldum undantekningum og í gegnum einhliða yfirlýsingar. Slíkt gera bara óöryggir stjórnmálamenn.
Það er verulegt áhyggjuefni að forsætisráðherra skuli gera þetta - og svara fyrir málið eins og hann hefur gert - það er til marks um að samtal við þjóðina sé ekki í góðum farvegi.