Á örskömmum tíma hefur fjármálageirinn á Íslandi breyst, og lent svo til allur í fanginu á íslenska ríkinu. Uppgjörið við slitabúin, á grunni samningsstöðunnar sem neyðarlögin og fjármagnshöftin sköpuðu, er stærsta ástæðan. Ríkið á nú rúmlega 98 prósent hlut í Landsbankanum, stærsta banka Íslands, allt hlutafé Íslandsbanka, Íbúðalánasjóð, Byggðastofnun, LÍN, 13 prósent hlut í Arion banka og auk þess smærri eignarhluti í sparisjóðum.
Til viðbótar á ríkið síðan stóra eignarhluti í mörgum félögum, sem eru undir Lindarhvoli ehf., félagi íslenska ríkisins. Því félagi tilheyra eignarhlutir mörgum félögum. ALMC eignarhaldsfélag ehf., AuÐur I fagfjárfestingasjóður, Bru II Venture Capital Fund, DOHOP, Eimskip hf., Eyrir ehf., Internet á Íslandi, Klakki ehf., Lyfja hf., Nýi Norðurturninn ehf., Reitir hf., S Holding ehf., SAT eignarhaldsfélag hf., SCM ehf. og Síminn hf. Eignirhlutir í öllum þessum félögum eru nú í höndum ríkisins.
Á hendi ríkisins
Það sem verður að teljast óvenjulegt, er að að hefðbundin viðskiptabankaþjónusta, svo sem íbúðalán og slíkt, er nú komin að miklu leyti á hendi ríkisins. Allt er komið í sama farveginn og var fyrir hendi á árum áður.
En kjörin eru þó mismunandi eftir fyrirtækjum. Íbúalánasjóður er með lökustu kjörin af ríkisfyrirtækjunum. Býður 4,2 prósent fasta verðtryggða vexti, hámarkslán 24 milljónir og 80 prósent veðhlutfall.
Landsbankinn býður fjölbreyttari kjör, verðtryggt og óverðtryggt. Óverðtryggt á föstum 7,45 prósent vöxtum í fimm ár, óverðtryggt á föstum 7,3 prósent vöxtum í þrjú ár og síðan óverðtryggða breytilega vexti, 7,25 prósent. Verðtryggð lán á breytilegum vöxtum eru á 3,65 prósent vöxtum og lán með föstum vöxtum til fimm ára eru með 3,85 prósent vöxtum. Lántakendur geta svo tekið blönduð lán, þar sem hluti lánsins er óverðtryggður og hinn verðtryggður. Allt eftir óskum og þörfum. Hámarksveðhlutfall er 85 prósent.
Færum okkur þá til hins ríkisbankans, Íslandsbanka. Þar eru breytilegir vextir 7,25 prósent á óverðtryggðu láni, fastir óverðtryggðir vextir í þrjú ár eru með 7,25 prósent vöxtum og fastir óverðtryggðir vextir til fimm ára eru 7,35 prósent. Verðtryggð húsnæðislán eru svo með 3,85 prósent vöxtum. Hámarksveðfhlutfall er 90 prósent, en þó aðeins í undatekningartilvikum við kaup á fyrstu íbúð.
Langbestu kjörin hjá lífeyrissjóðunum
Það er ágætt fyrir neytendur að hafa hinu ýmsu möguleika, en það er eðlilegt að spyrja að því hvort þetta sé eðlileg staða og þá hvort ríkið geti hagrætt og bætt lánskjörin eitthvað með því, t.d. Þarf að dreifa þessum kröftum svona, þegar kemur að fjármálaþjónustu? Sanngjarnt er að spyrja að því hvort ekki sé hægt að endurskipuleggja kerfið. Ég fæ stundum á tilfinninguna að það sé eitthvað ofurviðkvæmt að ræða um það, að hagræðing innan bankakerfisins sé vel möguleg. Kannski hræðast stjórnmálamenn að skoða þessi mál og grípa til aðgerða. Hver veit. Arðsemi rekstrarins er lítil, sé mið tekið af sterkri eiginfjárstöðu. Eigið fé Landsbankans og Íslandsbanka er samtals 460 milljarðar króna, og Landsbankinn er með mesta eigið fé allra fyrirtækja í landinu. Meira en hjá Landsvirkjun, þar sem eigið fé er ríflega 250 milljarðar.
Eins og staða mála er núna bjóða íslenskir lífeyrissjóðir langsamlega bestu kjörin á húsnæðislánamarkaði. Nefna má til dæmis kjörin hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Þar eru verðtryggð lán á með föstum 3,6 prósent vöxtum, breytilegum 3,5 prósent vöxtum og svo eru fastir óverðtryggðir vextir til þriggja ára 6,64 prósent. Þetta eru miklu betri kjör en ríkisbankarnir eru að bjóða. Fleiri lífeyrissjóðir eru að bjóða sambærileg kjör.
Stjórnmálamenn ráða för
Gera má ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir auki markaðshlutdeild sína jafnt og þétt
á næstunni. Þeir eru ekki settir undir sama regluverk og bankarnir og geta því,
meðal annars af þeim ástæðum, boði almenningi betri vexti á húsnæðislánum. Það
er gott fyrir almenning, en ætti líka að gefa stjórnmálamönnum, sem búa til
leikreglurnar og smíða rammann um fjármálakerfið, tilefni til þess að hugsa um
hvernig best sé að haga þessum málum til framtíðar litið.