Hagkerfið íslenska sneri við úr samdrætti og djúpri lægð á síðari hluta ársins 2010. Síðan þá hafa flestir hagvísar á Íslandi þróast jafn og þétt í rétta átt. Hér hefur verið samfelldur hagvöxtur, atvinnuleysi hefur minnkað jafnt og þétt, hagur heimila og atvinnulífs að jafnaði batnað, skuldir lækkað og afkoma ríkisins hefur verið í jafnvægi eða plús síðan 2013.
Enda er nú svo komið að farið er að bera á gamalkunnugum og ónotalegum belgingi um að hér sé allt að ganga svo miklu betur en annars staðar, við séum að komast í öfundsverða stöðu og ekkert annað en blómabreiður séu framundan. Þá staldrar undirritaður við. Er að læðast aftan að okkur sama gagnrýnis- og andvaraleysið og fór svo illa með okkur árin fyrir hrunið 2008? Ég minnist andrúmsloftsins og umræðunnar 2005, 2006 og í aðdraganda alþingiskosninga 2007. Þegar reynt var að benda á hættumerkin og alla mælana sem stóðu á rauðu var maður sakaður um svartsýnisraus og að sjá ekki veisluna. Svo fór sem fór.
Til að fyrirbyggja allan misskilning þá gleðst undirritaður á hverjum degi yfir því sem enn er að sýna og sanna að efnahagsleg endurreisn Íslands, sem með ærinni fyrirhöfn tókst að ýta af stað á árinu 2010, er enn að ganga vel. En engu að síður ætla ég mér ekki frekar nú en fyrr að sofa á verðinum. Bitur reynsla ætti að hafa kennt okkur Íslendingum lexíu. Það er ekki síður og kannski fyrst og fremst þegar við höldum að allt leiki í lyndi og trúum því að við siglum góðærisbyr, sem við gerum mistökin og klúðrum hagstjórninni. Enn er tiltölulega heiður himinn, en hyggjum að eftirfarandi skýjum við sjóndeildarhring:
Skoðað í skýin
1) Vöruskiptajöfnuðurinn er nú neikvæður mánuð eftir mánuð. Þ.e., við flytjum minni verðmæti út í formi varnings en við flytjum inn. Fyrstu fjóra mánuði ársins var halli á vöruviðskiptum tæplega 31 milljarður króna en á sama tímabili í fyrra var afgangur uppá tæpa 9 milljarða. Sem sagt, sveifla til hins verra sem nemur 40 milljörðum frá fyrra ári. Ef ekki væri hinn ævintýralegi vöxtur ferðaþjónustunnar og mikill afgangur af þjónustuviðskiptum væru þetta gamalkunnug hættumerki og eru það auðvitað enn, því ferðaþjónusta og þjónustuviðskipti almennt eru kvikari starfsemi en rógróin framleiðslustarfsemi.
2) Þó verðbólga sé enn lág og vel undir viðmiðunarmörkum þá skýrist það annars vegar af ytri aðstæðum sem við höfum lítið yfir að segja, svo sem sögulega lágu olíu- og hrávöruverði. Hins vegar af því að krónan hefur verið í styrkingarfasa og ríkið hefur afsalað sér tekjum að hluta gegnum leiðir sem hafa lækkað verðlag. Það hefur að vísu skilað sér illa til neytenda og áhrifin af slíku því minni en ella. En, hvorugt styrkir okkur að mínu mati til framtíðar litið. Útflutnings- og samkeppnisgreinar þola misvel frekari styrkingu gengisins og ríkið þarf á traustum og stöðugum tekjustofnum að halda til að tryggja undirstöður velferðarsamfélagsins.
3) Afkoma ríkisins er í of miklum mæli byggð á einskiptis eða skammtíma búhnykkjum en ekki traustum grunnrekstri. Satt best að segja er afkoma ríkisins án óreglulegra liða nánast í járnum og horfur á því áfram samkvæmt fyrirliggjandi ríkisfjármálaáætlun. Þessu veldur fyrst og fremst mikið tekjuafsal ríkisins í tíð núverandi ríkisstjórnar. Lækkun skatta í anda hægristefnu á yfirstandandi kjörtímabili í vaxandi þensluástandi á mörgum sviðum er að mínu mati óskynsamleg leið og áhættusöm horft frá sjónarhóli ríkisbúskaparins og getur komið hart niður á afkomu ríkissjóðs ef ytri aðstæður breytast til hins verra.
4) Hagur sveitarfélaganna hefur ekki batnað í takt við batnandi stöðu ríkissjóðs. Stóru sveitarfélögin voru flest rekin með halla á síðasta ári og verða í besta falli nálægt núllinu á þessu ári. Engu að síður velur ríkisstjórnin að lækka sínar tekjur, og það því miður oftar en ekki í þágu þeirra sem síst þurfa á því að halda, fremur en færa einhverja tekjustofna yfir til sveitarfélaganna og jafna þannig á klifjunum. Þetta er óskynsamleg „landamærahugsun“ þegar kemur að ábyrgum rekstri velferðasamfélagsins í landinu í heild.
5) Fjárfestingastig ríkisins er allt of lágt og ástandið algerlega ósjálfbært hvað það snertir. Innviðirnir, svo sem vegirnir, eru að grotna niður og á því sviði hleðst upp skuld við framtíðina. Flokka má kjarnastarfsemi heilbrigðis- og menntakerfis til innviða samfélagsins í þessu samhengi og þar liggur fyrir þörfin á að gera betur. Nægir að nefna stöðu Landspítalans og framhaldsskólana í því sambandi. Fjárfestingar uppá 1,3% af vergri landsframleiðslu og þó þær eigi að tosast upp í 1,5% árið 2019 samkvæmt ríkisfjármálaáætlun, er miðað við sögulegt meðaltal um helmingi of lágt. Vissulega er ákveðinn hagstjórnarlegur vandi því samfara að stórauka alveg á næstunni fjárfestingar ríkisins, sbr. það sem hér verður fjallað um á eftir um ákveðin bólumerki, en við því má sjá með ýmsum aðferðum og ekki síst því að afla einfaldlega tekna á móti þeim auknu fjárfestingum. Auk þess má velja framkvæmdum stað og stærð þannig að það yrði síður þensluhvetjandi en ella.
6) Vaxtastigið í landinu er þegar mjög hátt á sama tíma og það er í sögulegu lágmarki í flestum nálægum löndum. Vaxtamunurinn milli Íslands og annarra landa býður heim, og raungerir reyndar þegar, vaxtamunaviðskiptabrask og ættum við nú að vera nógu brennd á því. Þessu vaxtastigi fylgir mikill kostnaður og komi til frekari vaxtahækkana geta afleiðingarnar orðið skelfilegar eins og reynslan sýnir. Hugleiðum hvað gerist ef ytri aðstæður snúast snögglega við og hækkandi olíu- og hrávöruverð tekur allt í einu að flytja inn verðbólgu í stað þess að hafa lækkað hana að undanförnu.
7) Ákveðin þenslu- eða bólumerki sjást á gamalkunnugum sviðum. Fasteignamarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er þaninn og ástandið á því sviði reyndar herfilegt á allan hátt. Í byggingageiranum og mannvirkjagerð er hið sama uppi og æ oftar berast nú fréttir af tilboðum í verk sem eru tugi prósenta yfir kostnaðaráætlunum. Þau skilaboð ættum við að taka alvarlega. Það er að byggjast upp ójafnvægi, bæði í efnahagslegu og hagstjórnarlegu tilliti og einnig milli landshluta. Slakinn er horfinn á vinnumarkaði og spennu þar haldið niðri með stórfelldum innflutningi á vinnuafli.
8) Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang helst okkur illa á ungu fólki og umtalsvert fleiri íslenskir ríkisborgarar flytja frá landinu en koma til baka nú misseri eftir misseri. Vandamálið er gamalkunnugt en jafn mikið áhyggjuefni fyrir því og reyndar nýtt að hagstætt árferði efnahagslega skuli ekki einu sinni duga til að ná a.m.k. tímabundnu jafnvægi. Er okkur ekki að mistakast að skapa hér nógu barn- og fjölskylduvænt samfélag, jákvætt andrúmsloft og spennandi framtíðarhorfur fyrir nýjar kynslóðir í ljósi þessa?
9) Efnahagsástand, þjóðmálaástand og andrúmsloft eru í meira og minna mæli huglæg fyrirbæri. Þjóðin er ósátt við sitt lítið af hverju eins og t.d. aprílmánuður sýndi og ekki að ástæðulausu. Orðspor landsins hefur á nýjan leik beðið hnekki á alþjóðavettvangi og þó auðvitað sé engin leið að kvarða áhrifin af slíku geta þau varla verið annað en neikvæð. Aðeins er spurning um stærðargráðuna. Vafasamt þátttökuheimsmet Íslendinga í aflandsviðskiptum með ráðamenn í broddi fylkingar, sem Panamaskjölin afhjúpuðu, var ekki það sem við þurftum mest á að halda til að endurheimta traust og tiltrú á að hér væri að rísa réttlátara og heiðarlegra samfélag úr rústum hrunsins.
10) Og síðast en ekki síst skulum við enda á spurningunni um réttlátt samfélag. Útbreidd tilfinning manna fyrir því að þeir búi þrátt fyrir allt í réttlátu, heiðarlegu og sanngjörnu samfélagi er sennilega dýrmætasta þjóðareign sem til er takist að skapa hana og séu fyrir henni innistæður. Ekkert tryggir betur stöðugleika og farsæld en slík tilfinning í þjóðarsálinni. Þar getum við gert betur og við verðum að gera betur. Lífsbaráttan er enn alltof mörgum allt of erfið. Landið er of ríkt til þess að það sé líðandi að yfir sex þúsund börn búi við skort. Megn og réttmæt óánægja öryrkja og eftirlaunafólks með sinn skarða hlut er ör á þjóðarlíkamanum. Misskipting gæðanna er of mikil og tækifæri allra eru ekki nógu jöfn. Launamunur kynjanna storkar stanslaust baráttunni fyrir fullu jafnrétti. Landsmenn hafa áhyggjur og það með réttu af landinu sínu og móður náttúru. Getum við nú ekki að minnsta kosti lagt stofnun almennilegs miðhálendisþjóðgarðs inn á sáttareikninginn, sparða okkur þannig deilur og sofið rórri.
Lokaorð
Höfundur bíður þess nú spenntur hvort þetta greinarkorn kalli fram viðbrögð í anda stemmingarinnar sem ríkti árin fyrir hrun. Skyldi einhverjum verða það á að tala um svartagallsraus eða eru hér jafnvel loftáraásir á ferð gegn glæstum árangri núverandi ríkisstjórnar að hennar eigin sögn? Verði það sem verða vill en ég hef þá allavega reynslu í að taka á móti slíku.
Samantekið má segja að horfurnar eru enn um margt ágætar, en feilspor geta fljótt reynst okkur afar dýrkeypt. Gagnrýnis- og andvaraleysi og innistæðulítill rembingur yfir eigin ágæti ef ekki yfirburðum borið saman við aðrar þjóðir fór illa með okkur á sínum tíma. Látum slíkt ekki henda okkur aftur og skjótum ekki sendiboðana sem vara okkur við, hvort sem þeir koma úr eigin röðum eða eru glöggt gestsauga.