Ísland hefur keppni á EM í Frakklandi í dag þegar liðið mætir sterku liði Portúgala. Þar er fremstur meðal jafningja, einn allra besti leikmaður heims, Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid. Það verður að finna leiðir til stöðva hann, ef leikurinn á að fara vel fyrir Ísland. Svo mikið er víst.
Í leiknum á Laugardalsvelli 12. október 2010 sást vel hve Ronaldo þarf lítinn tíma til að skapa usla í vörn andstæðingana. Hann hafði sig ekki mikið í frammi, virtist vera að hvíla sig löngum stundum. En hann skoraði glæsilegt mark úr aukaspyrnu í upphafi leiks, sem sló vopnin úr höndum Íslands.
En íslenska liðið hefur sýnt það, að þegar leikmenn standa saman þá getur það lagt sterka andstæðinga af velli, og haldið stórstjörnum í skefjum.
Núna er að duga eða drepast, og leggja líf og sál í leikina framundan. Áfram Ísland!