Óhætt er að segja að Ísland hafi verið í sviðljósinu, þegar íslenska karlandsliðið lék fyrsta leikinn í úrslitakeppni stórmóts, gegn sterku liði Portúgal, á EM í Frakklandi. Úrslitin, 1-1, gefa tilefni til bjartsýni, enda liðið samstíllt og frá því stafar gríðarleg barátta og leikgleði.
Augljóst var á umfjöllun erlendra fjölmiðla - sem fylgjast með EM um allan heim - að Ísland er að vekja gríðarlega mikla athygli fyrir framgöngu sína, og fyrir það eitt að vera í úrslitakeppninni. Þulurinn á ESPN stöðinni í Bandaríkjunum, átti varla orð til að lýsa því, hversu mikið afrek það væri hjá Íslandi að komast á EM, og hrósaði hann sérstaklega mögnuðum stuðningi á vellinum.
Sömu sögu er að segja á Norðurlöndunum og víðar.
En Færeyingar eiga alveg sérstaklega mikið hrós skilið, þegar kemur að stuðningi við Ísland. Fólk kom saman í stórum hópum utandyra til að horfa á leikinn á stórum skjá, og fagnaði gríðarlega mikilvægu stigi Íslands þegar jafnteflið var tryggt. Magnað.
Jákvæðir kraftar berast því frá Íslandi í útlöndum, hvert sem litið er. Það er góð tilbreyting, frá því sem stundum hefur verið, hvort sem það er vegna athafna bankamanna eða stjórnmálamanna. Íþróttafólkið bregst hins vegar ekki, frekar en fyrri daginn, og heldur uppi góðri ímynd landsins.
Áfram Ísland, alla leið!