Alltaf einn á vaktinni, eftir Karl Th Birgisson, ber undirtitilinn Saga af forseta og þjóð hans. Sannast sagna eru bæði titill og undirtitill hálfvillandi, því bókin er mun fremur almenn upprifjun á síðustu forsetakosningum, og aðdraganda þeirra, en sérstök saga af Ólafi Ragnari Grímssyni. Og þjóðin er líka í aukahlutverki, hennar aðkoma að bókinni er fyrst og fremst í gegnum frásagnir af skoðanakönnunum. Ekki er ólíklegt að titillinn sé vísun í bók Steinunnar Sigurðardóttur um Vigdsíi Finnbogadóttur, Ein á forsetavakt, í það minnsta hefur hann litla skírskotun í efni bókarinnar.
Útgangspunktur hennar er nefnilega fyrst og fremst forsetaframboð Þóru Arnórsdóttur. Aðdraganda framboðsins er lýst, sem og þeirri atburðarás sem framboðið hratt af stað. Og Karl virðist ágætlega tengdur fólki sem vann að framboðinu og kemur ágætlega á framfæri ýmsum innanbúðarupplýsingum.
Ólafur Ragnar er þannig ekki aðalumfjöllunarefni bókarinnar, þó hann sé örlagavaldur sögunnar. Hann vomar yfir, lýsingin hverfist um viðbrögð við orðum hans og gerðum.
Og það er vel, því, eins og Karl lýsir skilmerkilega, tókst Ólafi Ragnari að láta síðustu kosningabaráttu hverfast algjörlega um sig og sín orð. Þannig tók hann allt frumkvæði í umræðunni og aðrir forsetaframbjóðendur voru sífellt í viðbrögðum við orðum hans. Meira að segja mikilvægustu ræður Þóru, sem áttu að sýna kjósendum fram á erindi hennar í forsetaembættið, snérust að miklu leyti um Ólaf Ragnar og orð hans.
Karl Th. er lipur penni og ferst frásögnin vel úr hendi. Ákveðinn losarabragur er þó á frásögninni og á stundum fær maður á tilfinninguna við lestur bókarinnar að of mikið sé af uppfyllingaefni í henni, til dæmis þegar maður ber sig í gegnum heilu kaflana úr greinum og bloggfærslum. Betri ritstýring hefði þannig gert bókina mun beittari og markvissari.
Þau sem kvarta yfir málflutningnum núna ættu að lesa bók Karls og sjá að þetta er eins og barnaleikur miðað við margt sem á gekk fyrir fjórum árum. Og þar spilaði Ólafur Ragnar stærstu rulluna.
Að öllu þessu sögðu þá er bókin Alltaf einn á vaktinni stórskemmtileg. Maður spænir sig í gegnum hana og ýmis atkvik rifjast upp fyrir lesandanum á meðan önnur koma á óvart. Karli tekst vel að setja hluti í samhengi og draga ályktanir. Þannig ferst honum vel úr hendi að draga fram dekkri hliðar baráttunnar, ósvífnina og ófyrirleitnina sem oft og tíðum einkenndi málflutning Ólafs Ragnars Grímssonar.
Síðasta kosningabarátta til forsetaembættis var nefnilega þannig að það er svo sannarlega þess virði að skrifa um hana bók. Minni okkar getur verið gloppótt og sá sem hér ritar var búinn að gleyma ótal mörgum þáttum sem Karl dregur fram og fygldist ég þó nokkuð vel með málum sem starfandi blaðamaður.
Persónulegar árásir, dylgjur, hálfkveðnar vísur og að ganga á bak orða sinna - allt þetta einkenndi kosningabaráttuna. Þau sem kvarta yfir málflutningnum núna ættu að lesa bók Karls og sjá að þetta er eins og barnaleikur miðað við margt sem á gekk fyrir fjórum árum. Og þar spilaði Ólafur Ragnar stærstu rulluna.
Karl Th. Birgisson hefur skrifað skemmtilega bók um áhugavert tímabil sem vert er að halda á lofti. Hún er ekki gallalaus, en heilt yfir afbragðs skemmtun og holl og þörf upprifjun.