Stórkostleg framganga íslenska landsliðsins á EM í Frakklandi verður lengi í minnum höfð, og er þegar skrásett á spjöld íþróttasögunnar.
Þó líklega verði ekki stór kafli um miðasölu á leiki Íslands, á þeim spjöldum, þá er samt sem áður leiðinlegt að sjá fregnir af miðasöluhneyksli í tengslum við leik Íslands og Frakka.
Tugir einstaklega fengu ekki miða, sem þeir höfðu greitt fyrir, og gátu því ekki farið á leikinn, þrátt fyrir að hafa lagt land undir fót. Vonbrigðin voru mikil, og mest voru þau hjá börnum og fjölskyldufólki. En þau voru líka mikil á hörðum aðdáendum, sem grétu yfir þeim örlögum að sjá ekki leikinn úr stúkunni.
Björn Steinbekk, athafnamaður, er sá sem átti að útvega miðana, en tókst það ekki og veitti engar upplýsingar um málið fyrr en á síðustu stundu, þegar það var orðið of seint.
Það er gott til þess að vita að franska lögreglan sé að rannsaka þetta mál, og mun vafalítið velta við hverjum steini, til að leiða hið sanna í ljós. Það er full þörf á því að gera það, enda er framkoma sem þessi, hjá bröskurum, óþolandi og hefur á sér sorglega hlið fyrir góða og trausta stuðningsmenn Íslands.