Stjórnmálamaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er sjálfhverfur maður með stórar hugmyndir um eigið ágæti. Sigmundur Davíð talar mikið upp eigin verk, að hann nái oft að framkvæma nánast kraftaverk með ákvörðunum sínum og þegar á móti blæs þá er það iðulega öðrum að kenna. Nánari skoðun á verkum hans leiðir þó iðulega til hófsamari niðurstöðu og ályktana um að helstu pólitísku hæfileikar Sigmundar Davíðs séu að skreyta sig stolnum fjöðrum.
Sigmundur Davíð er þeirrar skoðunar að önnur lögmál eigi að gilda um sig en aðra. Honum finnst til að mynda ekkert athugavert við að forsætisráðherra þjóðar eigi aflandsfélag sem geymi milljarða króna og lifi þannig í öðrum efnahagslegum veruleika en allur almenningur sem hann vinnur fyrir, að hann sé kröfuhafi í slitabú fallina banka á sama tíma og hann hefur beina aðkomu að uppgjöri slíkra slitabúa, né að hann sé gripinn við það að ljúga í sjónvarpsviðtali fyrir framan alþjóð, og síðar fyrir framan allan heiminn. Hann sér lítið athugavert við það að svara bara spurningum um slík mál sem hann spyr sig sjálfur, leggja fram valin gögn og túlka gildi þeirra fyrir aðra.
Stjórnmálamaðurinn Sigmundur Davíð er á stundum ágætlega máli farinn og getur meira að segja sýnt af sér yfirborðskennda persónutöfra. Margir sem féllu fyrir honum í Icesave-slagnum muna eftir þessari útgáfu af honum.
Sigmundi Davíð virðist hins vegar standa á sama um hvaða áhrif ákvarðanir hans hafa á aðra, iðrast aldrei gjörða sinna og á mjög auðvelt með að réttlæta eigin hegðun eða firra sig ábyrgð á eigin verkum. Honum virðist sérstaklega vera í nöp við fjölmiðla sem hann hefur ásakað um „loftárásir“,„afstöðu“, „aðfarir“ og fyrir að hafa reynt að mannorðsmyrða sig fyrir eðlilega og löglega umfjöllun um athafnir hans og ummæli. Það virðist heldur ekki trufla hann mikið þegar hann er staðinn að ósannsögli eða blekkingum. Viðbragðið er þá oftast að bera fyrir sig að aðrir hafi misskilið hann eða að breyta sinni útgáfu af sannleikanum á þann hátt að hann trúir því að minnsta kosti sjálfur.
Sigmundur Davíð á mjög erfitt með að setja sig í spor annarra. Það vita þeir Framsóknarmenn sem hafa leyft sér að gagnrýna hann eða fyrrverandi samherjar hans í Indefence-hópnum. Það vita líka þeir tugir þúsunda sem mótmæltu honum á Austurvelli í apríl og þau 78 prósent þjóðarinnar sem vilja hann ekki lengur í pólitík. Þegar menn eru ekki sammála Sigmundi Davíð - þegar þeir fylgja honum ekki í blindni - þá verða þeir samstundis óvinir hans.
Svona pólitík kallar Sigmundur Davíð róttæka skynsemishyggju. Það er innihaldslaus frasi sem smíðaður er til að láta tilviljanakenndar geðþóttaákvarðanir hljóma spekingslega, enda ekkert róttækt við beitingu skynsemi og fátt skynsamlegt við margar ákvarðanir Sigmundar Davíðs.
Stjórnarandstaðan vonast eftir Sigmundi Davíð í framboð
Þrátt fyrir að hafa verið neyddur til afsagnar sem forsætisráðherra í stærsta pólitíska hneyksli Íslandssögunnar þá er engan bilbug að finna á Sigmundi Davíð. Hann hefur nú tilkynnt um endurkomu sína og að hann ætli sér að hafa áhrif á ákvarðanir ríkisstjórnarinnar hvort sem hann sitji í henni eður ei.
Viðbrögð leiðtoga stjórnarandstöðunnar við endurkomu Sigmundar Davíðs inn á hið pólitíska svið hafa verið frekar fábrotin, miðað við hversu eldfimar yfirlýsingar hans hafa verið. Ástæða þessa er einföld: það er ekkert sem stjórnarandstöðuflokkarnir vilja frekar en að Sigmundur Davíð leiði Framsóknarflokkinn inn í haustkosningar. Þeir telja að það verði eins og að gleypa handsprengju, sem muni óhjákvæmilega halda öllum möguleikum á fylgisaukningu frá Framsóknarflokknum.
Þetta er skiljanleg afstaða. Fylgi Framsóknarflokksins mælist mjög lágt um þessar mundir (8,7 prósent), ríkisstjórnin nýtur einungis stuðnings um þriðjungs kjósenda og síðast þegar traust til Sigmundar Davíðs var mælt sögðust 81 prósent aðspurðra ekki treysta honum.
Vill skriðdreka, flugvél og undankomuleið
Innan stjórnarliðsins eru viðbrögðin einnig merkilega hófsöm. Svo virðist raunar vera sem að Sigmundur Davíð sé með bæði Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn í einhvers konar gíslingu. Af viðtölum við þingmenn þeirra flokka virðast þeir helst vera að reyna að túlka framgöngu Sigmundar Davíðs í vikunni sem eitthvað annað en hún var, skýr hótun. Skrif Sigmundar Davíðs í byrjun viku svipa til krafna sem algjörlega umkringdir gíslatökumenn setja þegar þeir falast eftir skriðdreka, flugvél og öruggri undankomuleið gegn því að sprengja ekki allt í loft upp.
Þótt kröfur Sigmundar Davíðs um frestun kosninga, afnám verðtrygginga og samfélagsbanka séu settar fram í nafni flokkshagsmuna - og jafnvel almannahagsmuna - þá snúast þær einungis um persónulega hagsmuni Sigmundar Davíðs; veika von um að tafir færi honum uppreista æru og framhaldslíf í pólitík.
Hann veit sem er að Sigurður Ingi Jóhannsson er forsætisráðherra vegna þess að þingflokkur Framsóknarflokksins samþykkti kröfu Sjálfstæðisflokks um kosningar í haust. Hann veit líka að bæði Sigurður Ingi og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafa marglofað kosningum, að 70 prósent þjóðarinnar vill kjósa og að vinna þingsins miðar öll við að svo verði. Hann veit líka að helstu andstæðingar afnáms verðtryggingar og samfélagsbankahugmynda er ekki stjórnarandstaðan, heldur samstarfsflokkur Framsóknar í ríkisstjórn.
Eggjar samstarfsflokk til stjórnarslita
Með því að setja fram skilmála sína í vikunni var Sigmundur Davíð eggja Sjálfstæðisflokkinn til að slíta stjórnarsamstarfinu.
Þannig telur Sigmundur Davíð sig geta fylgt Framsóknarflokknum - illa höldnum af meðvirkni sem svipar til Stokkhólmsheilkennis - á bakvið sig, kennt Sjálfstæðisflokknum um að ríkisstjórnin hafi ekki náð að klára öll verkefnin sem lagt var upp með og gert hið ómögulega og algjörlega óutskýrða afnám verðtryggingar enn og aftur að kosningamáli.
Sigmundi Davíð líður vel þegar hann er eins máls maður. Við þannig aðstæður hefur hann áður náð árangri. Það gerðist í Icesave-málinu og í Leiðréttingarmálinu og heppnaðist vel. Það verður hins vegar að teljast afar ólíklegt, og nær ómögulegt, að áætlun Sigmundar Davíðs gangi eftir í þetta skiptið.
Það vill enginn vinna með Sigmundi Davíð
Það sem stendur sérstaklega í vegi fyrir því er að það er ekki til sá stjórnmálaflokkur með mælanlegt fylgi sem gæti hugsað sér að vinna með Framsóknarflokknum undir forystu Sigmundar Davíðs í ríkisstjórn. Það á jafnt við Sjálfstæðisflokkinn sem stjórnarandstöðuflokkanna. Í samtölum við stjórnmálamenn úr þeim flokkum kemur skýrt fram að samstarf við hann er „pólitískur ómöguleiki“. Ástæðan er ekki endilega sú að flokkarnir gætu ekki hugsað sér að vinna með Framsóknarflokknum, þeir geta bara ekki undir neinum kringumstæðum unnið með stjórnmálamanninum Sigmundi Davíð. Þetta veit Sigmundur Davíð, eða á að minnsta kosti að vita.
Niðurstaða þess farsa sem við okkur blasir nú verður því líklega ekki önnur en sú að Sigmundi Davíð tekst að ganga frá Sigurði Inga Jóhannssyni sem stjórnmálamanni og stuðla að stjórnarslitum. Eina fólkið sem gæti stöðvað þessa atburðarás eru Framsóknarmenn og þeir virðast ekki hafa dug í það. Það gæti raunverulega orðið banabiti flokksins, enda hafa neðri vikmörk í nýlegum skoðanakönnunum sýnt fylgi hans svo lágt að Framsókn næði ekki inn manni á þing.
Enn og aftur verða því persónulegir hagsmunir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar teknir fram yfir hagsmuni flokks hans, ríkisstjórnar og almennings alls, sem neyðist til að horfa á þessa langdregnu pólitísku tragedíu allt til enda. Nánast í rauntíma.