„Hún gerist æ sterkari tilfinningin að vegna manneklu og fjárskorts séu viðkomandi miðlar orðnir lítið annað en skel, umgjörð um starfsemi þar sem hver fer fram á eigin forsendum. Engin stefna, markmið eða skilaboð og þar með nánast enginn tilgangur, annar en sá að vera til staðar fyrir þá sem þar vinna. Þeir skiptast síðan á að grípa gjallarhornið sem fjölmiðillinn er orðinn fyrir þá og dæla út skoðunum yfir samfélagið. Ein í dag - önnur á morgun. Borið út frítt. Hvers vegna ekki bara að opna Facebooksíðu og leyfa öllum að skrifa á vegginn?“
Þessi orð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Facebook í gærkvöldi hafa vakið athygli, eðlilega. Þau sýna algjöra vanvirðingu gagnvart íslenskum fjölmiðlum, og líka skilningsleysi á eðli þeirra yfir höfuð. Að fjármálaráðherra þyki það sér sæmandi að ráðast með þessum hætti að heilli starfsstétt, sem hefur það hlutverk að veita honum og öðrum ráðamönnum aðhald, er merkilegt. Ekki síst þegar hann bætti um betur í svari við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur í dag, og sagði það upplifun sína á fjölmiðlum af þessu tagi að þeir séu ekki markverðir og ekki sé mark á þeim takandi.
Hlutverk, markmið og tilgangur fjölmiðla
Fjölmiðlar hafa það hlutverk að veita hvers kyns aðhald og upplýsa almenning. Það er þeirra stefna, það er þeirra markmið, og það er þeirra tilgangur. Eða þannig á það að minnsta kosti að vera. Fjármálaráðherra ætti líka að vita að fjölmiðlum á Íslandi er skylt að skila inn ritstjórnarstefnum sínum til fjölmiðlanefndar, og þær eru aðgengilegar á vef nefndarinnar.
Sá tími þar sem fjölmiðlar höfðu einhverja ákveðna skoðun er liðinn, reyndar með örfáum undantekningum. Fjölmiðlar eiga einmitt heldur að velta upp ýmsum ólíkum skoðunum, það þjónar einnig þeim tilgangi að upplýsa. Það eru einstaklingarnir sem vinna á fjölmiðlunum sem hafa skoðanir.
Við lifum á tímum upplýsinga, það hefur aldrei verið auðveldara að nálgast eða miðla upplýsingum. Við þurfum ekki flokksblöð með ákveðna skoðun til að segja okkur til eða ákveða hverjir fái að láta skoðun sína heyrast. Vissulega þýðir upplýsingin að allir geta komið sínu á framfæri á Facebook eða öðrum samfélagsmiðlum, en það þýðir ekki að þeir komi í stað fjölmiðla. Fjölmiðlar hafa þvert á móti þurft að aðlaga sitt hlutverk að þessum breytta veruleika, vinna með öðrum hætti og stuðla að upplýstri umræðu, greina kjarnann frá hisminu.
Þessi ummæli Bjarna sýna reyndar vel viðhorfið sem hefur verið ráðandi hjá ýmsum ráðherrum í ríkisstjórninni sem hann tilheyrir, nefnilega að það dugi að skrifa á Facebook eða taka viðtöl við sjálfa sig á sínum eigin vefsíðum, í stað þess að svara fjölmiðlum og þar með almenningi í landinu.
Aðhaldshlutverkið
Bjarni sagði líka í morgun að það væri hans upplifun að fjölmiðlar væru ekki að rækja aðhaldshlutverk sitt í dag. Það eru ekki síður þau ummæli sem fela í sér vanvirðingu og skilningsleysi.
Það má nefnilega auðveldlega færa fyrir því rök að fjölmiðlar hafi á árunum eftir hrun sinnt mikilvægara aðhaldshlutverki en nokkru sinni fyrr við það að upplýsa um hrunið og það sem átti sér hér stað í aðdraganda þess, ekki síður en það hvernig spilað var úr eftir hrun. Þetta gerðist á meðan fjölmiðlar börðust allir í bökkum, sögðu upp fólki og lækkuðu laun.
Og á þessu kjörtímabili, þar sem Bjarni hefur verið annar forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar, eru fjöldamörg dæmi um stór mál, sem vörðuðu almannahagsmuni, sem fjölmiðlar hafa upplýst um. Í fljótu bragði nægir að nefna fjögur mál. Hið fyrsta er lekamálið. Númer tvö er Orku Energy-málið. Númer þrjú er Borgunarmálið og númer fjögur er Wintris-málið og Panamaskjölin öll.
Allt voru stór hneykslismál sem vörðuðu íslensk stjórnvöld og hefðu aldrei komið upp á yfirborðið nema fyrir tilstilli fjölmiðlafólks sem vann vinnuna sína vel.
Og hvað á að gera í þessu?
Bjarni hafði rétt fyrir sér með eitt. Mannekla og fjárskortur eru viðvarandi vandamál á flestum íslenskum fjölmiðlum. Þeir eru reknir af miklum vanefnum, af of fáu fólki sem fær of lítið borgað fyrir vinnuna sem það leggur á sig. Talsverður hluti vinnunnar fer í raun fram í sjálfboðavinnu, enda fáir sem borga yfirvinnu eða álag, en fjölmiðlafólk þarf sífellt að fylgjast með til þess að geta rækt sitt starf. Allt hefur þetta svo veruleg áhrif á það að fáir endast mjög lengi í faginu. Auðvitað gerir þetta fjölmiðlum verulega erfitt fyrir að sinna aðhaldshlutverki sínu almennilega. Þetta hefur öllum sem komið hafa nálægt fjölmiðlum verið ljóst um langt skeið. En stjórnmálamenn hafa aldrei sýnt því minnsta áhuga að gera nokkuð til þess að jafna stöðuna eða styrkja rekstrarumhverfið.
Til dæmis hafði Bjarni Benediktsson þar til í dag ekki talað um stöðu eða rekstrarumhverfi fjölmiðla í eitt einasta skipti á Alþingi frá því í umræðum um breytingar á fjölmiðlalögum árið 2005, þegar fjölmiðlafrumvarpi Davíðs Oddssonar hafði verið synjað staðfestingar af Ólafi Ragnari Grímssyni.
Og Bjarni er alls ekkert einn um það. Mjög lítill áhugi hefur verið meðal stjórnmálamanna á því að gera breytingar til hins betra, nema á tyllidögum þegar talað er um hversu mikilvægir fjölmiðlar séu.
En það má sannarlega líta á björtu hliðarnar á þessum ummælum, því þau hafa skapað langþráða umræðu um fjölmiðla. Bjarni sagði meira að segja sjálfur í þinginu í dag að það mætti velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að treysta betur umgjörð fjölmiðla á landinu með breytingum á lagaumhverfi og jafnvel skattaumhverfi. Það ætti að vera honum og öðru valdamesta fólki landsins í lófa lagið að byrja þá vegferð.
Til dæmis með því að minnka hlutdeild Ríkisútvarpsins á litlum og erfiðum auglýsingamarkaði. Með því að skoða að gera eitthvað í líkingu við það sem öll Norðurlöndin og flest lönd sem við berum okkur saman við gera, og koma á fót einhvers konar styrkjakerfi. Með því að fella niður gjöld eða skatta á litla fjölmiðla. Og með því að viðhafa raunverulegt eftirlit með þeim sem brjóta gegn fjölmiðlalögum með því að upplýsa ekki um eignarhald eða uppruna peninganna sem streyma inn í suma fjölmiðla.
Íslenskir fjölmiðlar eru langt frá því að vera yfir gagnrýni hafnir eða nálægt því að vera fullkomnir. Þeir eru hins vegar um margt betri en umgjörðin sem þeim er sett verðskuldar. Ef Bjarni Benediktsson hefur í raun og veru áhyggjur af stöðu fjölmiðla á Íslandi, þá skora ég á hann að gera eitthvað í málinu fyrir alvöru. Hann er jú eftir allt saman einn af fáum mönnum á Íslandi sem getur gert talsvert meira en bara skrifa Facebook-status um málið.