Lögmenn gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Frá því fjármálakerfið hrundi eins og spilaborg, dagana 7. til 9. október 2008 hafa fjölmörg mál, sem varða starfsemi Kaupþings, Glitnis og Landsbankans, komið til kasta dómstóla. Málin eru mikilvæg fyrir komandi kynslóðir, þar sem þau draga línu í sandinn um það sem er löglegt og ólöglegt þegar kemur að viðskiptum.
Þrír punktar fylgja hér á eftir, sem ég kalla litla sneið til lögmanna. Fyrst og fremst hugsað sem innlegg í umræðu um hrun-málin sem fjölmiðlar fjalla um reglulega, og hvort það geti verið að lögmannastéttin – eða þeir lögmenn sem hafa verið í forsvari í hrunmálunum – þurfi horfa í eigin barm, og spyrja hvort þeir séu á réttri leið.
1. Ég hef oftar en einu sinni heyrt lögmenn ákærðu í málunum, eyða tíma og orku í að segja dómurum, að málin séu „flókin“ og erfitt sé að skilja viðskiptaflétturnar. Ég fæ ekki séð að þetta standist skoðun og þjóni nokkrum tilgangi í dómsal. Yfirleitt liggja til grundvallar frumgögn um viðskiptin og óumdeilt að atburðir gerðust, sem síðan er deilt um hvort standist lög.
Eftir að hafa séð spennuþrungnar aðalmeðferðir í ofbeldismálum, þar sem oft eru engin vitni og deilt um það frammi fyrir dómara hvort atburðir hafi átt sér stað eða ekki, og hvað þá hvernig atburðarásin var, þá eru bankamálin frekar skýr og einföld í samanburði. Þau fyrrnefndu eru raunverulega flókin mál, þar sem engin frumgögn liggja fyrir, og hagsmunirnir engu minni, þó þeir séu ólíkir.
Málin eru mikilvæg, og dómarnir líka. En bankamálin eru ekkert flóknari heldur en mörg önnur mál sem dómarar þurfa að dæma í. Mér finnst þetta vera of áberandi í orðræðu um þessi mál (kannski þurfum við fjölmiðlamenn að hugsa þetta betur, útiloka það ekki). Fátt bendir til þess að bankamálin séu flóknari en önnur, þegar upp er staðið, og óþarfi að teikna þau þannig upp fyrir almenning.
2. Lögmannafélag Íslands er með siðareglur þar sem segir meðal annars, í 3. grein. „Lögmaður skal vera óháður í starfi og standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar. Lögmaður skal ekki láta óviðkomandi hagsmuni, hvort heldur eigin eða annarra, hafa áhrif á ráðgjöf sína, meðferð máls fyrir stjórnvaldi eða dómi eða á annað það, sem lögmaður vinnur í þágu skjólstæðings síns. Lögmaður ræður því sjálfur, hvort hann tekur að sér verk eða ekki, nema lög bjóði annað.“
Í hrunmálunum hafa fjölmargir lögmenn komið að störfum fyrir þá sem eru ákærðir, þá einkum æðstu stjórnendur. Eitt sem ég hef stundum velt fyrir mér, er hvort lögmenn ákærðu séu með nægilega fjarlægð í málunum svo þeir geti talist vera óháðir í störfum sínum og geti staðið vörð um sjálfstæðið. Ástæðan er meðal annars sú, að á Íslandi varð svo til einstakt kerfishrun, þar sem margir samverkandi þættir eru ástæða fyrir því hvernig fór. Undir í málunum eru meðal annars innviðir bankanna og hvort þeir hafi verið byggðir upp lögum samkvæmt, með ábyrgð alveg frá stjórn og niður úr.
Lögmenn hafa í ræðum minnst á þessa atburði fyrir dómi, í munnlegum málflutningi, og minnast stundum á þetta stóra samhengi. Einstakt hrun, og að ákærðu séu búnir að missa mannorðið vegna heiftugrar umræðu, og þá um þetta stóra samhengi hlutanna; að Ísland hafi hrunið.
Helgi Sigurðsson hrl. var aðallögfræðingur Kaupþings á starfstíma bankans, en hann hefur verið nokkuð áberandi í umræðum og í lögmannsstörfum fyrir starfsmenn í bankakerfinu sem saksóknari telur að hafi brotið lög. Hann hefur auk þess komið að störfum í málum, þar sem starfshættir Kaupþings eru undir.
Er Helgi óháður í sínum lögmannsstörfum? Mér finnst sanngjarnt að spyrja þessu.
Sama má segja um fleiri lögmenn sem hafa varið ákærðu. Hörður Felix Harðarson hrl. er lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, en hann var áður aðallögfræðingur Glitnis. Í ljósi þess sem áður segir, um hið einstaka kerfishrun, þá vaknar aftur spurningin um hvort hann sé óháður í störfum sínum og geti nálgast verkefnið þannig.
Fleiri dæmi mætti nefna. Sama má segja um Sigurð G. Guðjónsson hrl., lögmann Sigurjóns Þ. Árnasonar, en hann var í stjórn Glitnis fyrir hrunið. Þórólfur Jónsson hrl., sem gegnt hefur lögmannsstörfum fyrir Ólaf Ólafsson, sem var einn stærsti hluthafi Kaupþings og hlaut fangelsisdóm í Al-Thani málinu, var áður framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings og hefur nafn hans komið við sögu í rannsóknum mála, í hleruðum símtölum meðal annars.
Eitt af því sem nefnt hefur verið veikasta hliðin á íslenska bankakerfinu fyrir hrunið, var gríðarlega mikil áhætta á milli bankanna þriggja. Einn skuldaði öðrum, beint og óbeint, mikla peninga eða fjármagnaði félög og fjárfesta sem áttu hlutabréf í öðrum íslenskum banka. Mikil tengd áhætta myndaðist milli bankanna. Niðurstaðan er þekkt: Þrjú af fimm stærstu gjaldþrotum mannkynssögunnar eru fall Kaupþings, Glitnis og Landsbankans, á þessum þremur dögum í október.
Þó málin séu misjöfn að eðli, og öll mál einstök, þá ætti lögmannastéttin á Íslandi að velta því fyrir sér hvort lögmenn sem hafa sinnt þessum störfum fyrir ákærðu (einkum æðstu stjórnendur), séu með nægilega fjarlægð á þau, séu óháðir, þegar um þau er deilt fyrir dómi. Þetta er ekki algilt, en samt má velta því fyrir sér, hvort þetta sé til fyrirmyndar í lögmannsstörfum yfirleitt þegar mál eru til lykta leidd fyrir dómstólum, og hvort dómarar séu hugsanlega með það bak við eyrað.
Þetta er snúið, vegna þess að lögin heimila fólki að hafa verjendur, sem geta haft hagsmuna að gæta í heildarsamhengi málanna. Í ljósi þess, ætti lögmannastéttin að ræða þetta út frá siðareglunum og hvaða leiðsögn þær eiga að veita.
3. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki við að miðla upplýsingum, og reiða sig oft á upplýsingar frá lögmönnum í sínum störfum. Mér finnst að lögmenn og lögfræðimenntað fólk, t.d. í háskólunum, megi gera meira af því að fjalla um dómsniðurstöðurnar í hrunumálunum og hvað þær þýða fyrir almenning. Krafan er sú umræðan sé leidd af fólki sem hefur engra hagsmuna að gæta. Það fólk er til, og líklega þurfum við fjölmiðlamenn að leggja meira á okkur í þeim efnum. Yfirleitt eru samskipti við lögmenn ljómandi fín (talandi út frá eigin reynslu) en kannski mættu lögmenn vera óhræddari við að leggja til mat sitt á dómunum að eigin frumkvæði.