Pólitísk lífsbarátta Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók á sig nýja mynd um helgina þegar Morgunblaðið birti viðtal við eiginkonu hans, Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur. Þótt ekkert sé efnislega nýtt í viðtalinu sem snýr að Wintris-málinu þá var viðtalið athyglisvert. Þar eru endurteknar staðhæfingar sem Sigmundur Davíð, Útvarp Saga, leiðarahöfundar Morgunblaðsins og aðrir forhertir stuðningsmenn forsætisráðherrans fyrrverandi hafa haldið ítrekað á lofti undanfarnar vikur og mánuði.
Morgunblaðinu var síðan dreift frítt í öll hús sama dag og viðtalið birtist og blaðamaðurinn sem tók viðtalið fullyrðir á samfélagsmiðlum að það varpi „ljósi á óvönduð vinnubrögð fjölmiðla.” Í viðtalinu var ekki spurt neinnar gagnrýnar spurningar en í framsetningu er ýtt undir að staðhæfingar viðmælandans séu staðreyndir, þótt þær séu það ekki. Því má vel færa rök fyrir því að viðtalið sjálft, og framsetning þess, séu skólabókardæmi um „óvönduð vinnubrögð fjölmiðla“. Enda tilgangurinn ekki sá að upplýsa heldur að afvegaleiða. Í pólitískum tilgangi.
Hefur ekki svarað lykilspurningum
Tvennt er ráðandi í þeirri söguskýringu sem verið er að reyna að selja okkur í viðtalinu og víðar. Annars vegar er því haldið fram að öllum spurningum um aflandsfélagamál Sigmundar Davíðs og eiginkonu hans hafi verið svarað. Það er einfaldlega ósatt.
Sigmundur Davíð hefur birt alls kyns upplýsingar og svarað ýmsum spurningum sem hann hefur sjálfur spurt sig að. Hann hefur líka birt yfirlýsingu frá endurskoðanda Wintris á Íslandi sem segir að Wintris hafi greitt skatta og hluta úr skattframtölum þeirra hjóna sem sýnir það líka. En forsætisráðherrahjónin fyrrverandi hafa ekki svarað lykilspurningum sem til þeirra hefur verið beint.
Það á við spurningar sem beint var til Sigmundar Davíðs í aðdraganda Kastljóss-þáttarins sem sýndur var 3. apríl. Sigmundur Davíð hefur kosið að svara ekki þeim spurningum né að birta þau gögn sem beðið var um. Og það á við aðrar spurningar sem blaða- og fréttamenn hafa beint til hans síðar.
Þar ber helst að nefna spurningum um hverjar eignir Wintris séu. Það er enda ómögulegt að sjá hvort félagið hafi greitt alla skatta sem það átti að greiða ef það liggur ekki fyrir hverjar eignir þess eru.
Sigmundur Davíð hefur heldur ekki viljað svara því hvenær Wintris keypti skuldabréf útgefin af föllnu íslensku bönkunum upp á rúman hálfan milljarð króna – sem gerðu félagið að kröfuhafa í bú þeirra – og því hefur ekki verið staðfest hvort það hafi verið fyrir eða eftir fall þeirra.
Þótt Sigmundur Davíð og fólkið í kringum hann endurtaki þá fullyrðingu í sífellu að hann hafi skýrt allt þá verður hún ekki sönn fyrir vikið. Það er réttmæt krafa að sá sem er forsætisráðherra geri algjörlega hreint fyrir sínum dyrum þegar upp kemur skiljanleg tortryggni gagnvart því hvort hann hafi greitt rétta skatta og hvort hann hafi setið beggja vegna borðsins í risastóru máli á borð við uppgjör slitabúa föllnu bankanna.
Staðlausar staðhæfingar
Hitt sem er ráðandi í málflutningi Sigmundar Davíðs og ýmissa fleiri sem tjáð hafa sig opinberlega um málið undanfarin misseri er að samsæri hafi fellt forsætisráðherrann fyrrverandi. Í raun sé aflandsfélagaeign hans og kröfuhafastaða eðlilegri en mjólkurglas með miðnæturkexinu.
Það er blæbrigðamunur á því sem haldið er fram en rauði þráðurinn er þessi: erlendir vogunarsjóðir sem áttu kröfur í bú föllnu bankanna á Íslandi, og sérstaklega vogunarsjóðsstjórinn George Soros, ákváðu að losa sig við Sigmund Davíð. Ástæðan er hversu staðfastur hann hafi verið. Vegna þess að hann hafi barist gegn Icesave. Og í sumum tilvikum er því haldið fram að ástæðan sé sú að Sigmundur Davíð hafi komið í veg fyrir að Ísland gengi í Evrópusambandið. Á Útvarpi Sögu hafa blaða- og fréttamenn sem unnu að umfjöllun um málið verið ásakaðir um mútuþægni upp á 800 milljónir króna og sagt að þeir hafi gerst sekir um landráð.
Anna Sigurlaug endurtekur margt úr þessari sögu í viðtalinu við Morgunblaðið. Þar segir hún: „Þetta snerist bara um það að fella forsætisráðherrann. Það sáu auðvitað margir sem vildu ná sér niður á manninum sem hafði þvælst, svo eftir var tekið, fyrir kröfuhöfum bankanna og leyst úr stórum málum sem aðrir stjórnmálamenn höfðu gefist upp á að fást við. Miðað við það hversu ljótur leikur þetta var og hvernig þetta teygði sig út fyrir landsteinana þá kæmi mér ekki á óvart þó einhverjir úr hópi kröfuhafanna hafi ýtt undir þessa umfjöllun og séð sér verulegan hag í því að velta forsætisráðherra landsins úr sessi.“
Allar þessar staðhæfingar eru án stuðnings staðreynda. Engin gögn hafa verið lögð fram til að styðja við þær. Hins vegar hefur víða verið sýnt fram á hversu fjarstæðukenndur málflutningurinn er.
Óhrekjanlegar staðreyndir liggja fyrir
Staðreyndir málsins eru hins vegar þessar: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson átti félag í þekktu skattaskjóli sem geymir gríðarlega fjármuni. Sérfræðingar segja eina tilgang þess að eiga slík félög að fela eignir eða að komast hjá skattgreiðslum.
Með þessari ráðstöfun kaus forsætisráðherra þjóðarinnar að búa í öðrum efnahagslegum veruleika en þorri landsmanna.
Hann seldi helmingseign sína í félaginu til eiginkonu sinnar á einn dal degi áður en ný lög um skattskil íslenskra aflandsfélagaeigenda tóku gildi hérlendis. Hann var þingmaður og formaður Framsóknarflokksins þegar sú sala átti sér stað. Félagið, Wintris, átti kröfur upp á rúman hálfan milljarð króna í bú föllnu bankanna. Það var kröfuhafi og lýsti kröfum sínum á meðan að Sigmundur Davíð var enn helmingseigandi félagsins. Sigmundur Davíð greindi aldrei frá þessu félagi í hagsmunaskráningu eða á öðrum vettvangi. Hann greindi hvorki félögum sínum í Framsóknarflokknum, í ríkisstjórn né á Alþingi frá því að hann og eiginkona hans væru kröfuhafar í bú föllnu bankanna. Hann greindi heldur ekki Seðlabankanum, sem vann að úrlausn mála slitabúanna, né almenningi frá þeim bersýnilegu hagsmunaárekstrum.
Þegar tilurð félagsins Wintris var borin upp á hann í sjónvarpsviðtali þá laug hann og rauk síðan út úr viðtalinu. Þegar staða hans sem forsætisráðherra var í uppnámi hótaði hann að rjúfa þing í Facebook-stöðuuppfærslu og óskaði síðan eftir heimild til þess frá þáverandi forseta Íslands til að nota sem pólitískt vopn í skylmingum við Bjarna Benediktsson.
Framganga hans og ákvarðanir gerðu það að verkum að 26 þúsund manns mættu til að mótmæla spillingu, siðleysi og honum sjálfum í stærstu mótmælum Íslandssögunnar mánudaginn 4. apríl. Þetta er ekki innantóm staðhæfing byggð á tilfinningu, heldur stutt vísindalegum gögnum.
Endasprettur dauðagöngu
Allt það sem fyrir okkur er borið um þessar mundir er birtingarmynd þess að Sigmundur Davíð er á endaspretti dauðagöngu sinnar í stjórnmálum. Því nær endalokunum sem hann kemst því brjálæðislegri verða aðferðirnar og staðhæfingarnar sem settar eru fram til að reyna að rétta hans hlut og blása lífi í pólitískar glæður.
En þetta er tapaður leikur. Í könnunum sem gerðar voru í vor kom fram að 81 prósent landsmanna treysta ekki Sigmundi Davíð og að 78 prósent þeirra vildu að hann segði af sér sem forsætisráðherra. Fylgi Framsóknarflokksins hans mælist um þriðjungur af því sem það var í kosningunum 2013.
Almenningur hefur því fyrir ansi löngu snúið baki við stjórnmálamanninum Sigmundi Davíð. Samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn hefur líka gert það og formaður þess flokks hefur ekki rætt við Sigmund Davíð í tæpa fimm mánuði.
Og nú virðist sem Framsóknarflokkurinn sé loksins kominn með nóg. Gegn vilja Sigmundar Davíðs hefur forsætisráðherra flokksins boðað til kosninga í haust og gegn vilja hans verður haldið flokksþing hjá Framsóknarflokknum í aðdraganda þeirra. Þar verður kosið um nýja forystu.
Framsóknarflokkurinn hefur verið að reyna að hafna formanni sínum blíðlega og vona að hann átti sig á stöðunni. Það virðist ekki ætla að skila árangri og því stefnir í uppgjör á flokksþinginu.
Ef slíkt uppgjör mun ekki eiga sér stað er ljóst að persónulegur metnaður Sigmundar Davíð verður tekinn fram yfir heildarhagsmuni flokksins sem hann stýrir vegna meðvirkni félagsmanna sem þora ekki að benda á að keisarinn er ekki í neinum fötum.
En það breytir engu um þær staðreyndir sem blasa í Wintris-málinu. Þær sýna að það var ekki framið neitt alþjóðlegt samsæri til að koma Sigmundi Davíð frá, heldur er um að ræða fordæmalaus óheilindi stjórnmálamanns sem virðist óhæfur um að líta í eigin barm. Hann hefur grafið sína eigin pólitísku gröf.
Og það er engum nema Sigmundi Davíð að kenna.