Það verða að teljast stórtíðindi að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra, og Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður flokksins og ráðherra, séu gengin til liðs við Viðreisn.
Enginn þarf lengur að efast um það að Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn, þó ýmsir kunni að túlka framboð Viðreisnar með öðrum hætti. En flokksstarfið snýst um fólkið sem sinnir því, og það er komin augljós mynd á það hvernig Viðreisn er að stilla upp liði sínu fyrir kosningar. Rætur flokksins eru í forystunni í atvinnulífinu, sem hefur áratugum saman verið helsta vígi Sjálfstæðisflokksins. Breytt staða blasir við.
Eins og mál standa nú, samkvæmt kosningaspá Kjarnans frá 2. september, er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 25,6 prósent fylgi og Píratar koma næstir með 24,9 prósent.
Reyna að ná miðjunni
Ef við líkjum stöðunni við það, hvernig landsliðsþjálfari stýrir liði sínu til sigurs í fótboltaleik, þá ætlar Viðreisn að reyna að vinna miðjuna í komandi kosningum. Þangað á að sækja fylgið, og reyna að stuðla að sátt á hinum kvika pólitíska kvarða íslenskra stjórnmála. Þannig getur Viðreisn komist til valda og haft áhrif.
En þangað eru flestir flokkar að sækja. Horft til gömlu rótgrónu flokkanna, þá finnst mér þeir eiga í erfiðleikum með að skerpa á sérstöðu sinni gagnvart kjósendum.
Samfylkingin, sem er nú víðsfjarri þeirri hugmynd sem lá að baki stofnun hennar árið 2000, sækir líka á miðjuna. Hún átti að vera turn á vinstri vængnum, sem væri mótvægi við turn á þeim hægri, Sjálfstæðisflokkinn. Það er þessi staða sem er gjörbreytt og jarðvegurinn fyrir þessum pólitíska veruleika er ekki til staðar lengur. Óháð öðru, þá held ég að vandræði Samfylkingarinnar, sem hefur að mörgu leyti svipuð stefnumál á oddinum og fólkið í forystu Viðreisnar, megi rekja til þessa breytta landslags. Hvert er erindið, og hvernig tekst að fá fólk til að grípa það og trúa því? Í þessari snörpu baráttu sem er framundan þarf flokkurinn að koma þessu til skila. Oddný Harðardóttir hefur stigið nokkuð afgerandi inn í formannshlutverkið, finnst mér, og virðist vera tilbúin til að láta til sín taka og mynda byr í seglin hjá sínu fólki.
Grasrótarhreyfing...samt ekki
Framsóknarflokkurinn hefur í gegnum áratugi skilgreint sig sem miðjusækið stjórnmálaafl. Samvinnuhugsjónin er miðjuþráðurinn, og hann á fullt erindi nú sem fyrr. En maður sér oft ekki glitta neitt í þessar samvinnuhugmyndir, einkum og sér í lagi þegar kemur að flokksstarfinu á höfuðborgarsvæðinu. Þar er eins og sérhagsmunir fái meira vægi heldur en víða á landsbyggðinni, þar sem sterkastu vígi flokksins eru kvennfélög, ungmennafélög, íþróttafélög og Kiwanisklúbbar, svo eitthvað sé nefnt. Framsóknarflokkurinn er grasrótarhreyfing í þessum skilningi, víða á landsbyggðinni, en önnur atriði ráða ferðinni á höfuðborgarsvæðinu, að því er virðist. Fylgið þar segir sína sögu. Það hefur aldrei verið mikið, og er nú í lægstu lægðum.
Vandamál Framsóknarflokksins eru þekkt, og snúast um trúverðugleika Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formmanns. Deilur innan flokksins snúast um stöðu hans eftir Wintris-málið, og hvernig flokkurinn kemur til dyranna gagnvart kjósendum í komandi kosningum. Stundum getur verið erfitt að greina vandamálin, þegar maður stendur inn í þeim miðjum, en Framsóknarfólk stendur frammi fyrir stórum ákvörðunum þegar kemur að endurnýjun umboðs forystu flokksins. Verður hún traustsins verð og best til þess fallin að leiða samvinnuhugmyndirnar inn í nýja tíma?
Vinstri hreyfing
Vinstri græn finnst mér vera skýrasti valkosturinn fyrir þá sem horfa til vinstri sérstaklega. Katrín Jakobsdóttir hefur mælst með sterka stöðu gagnvart almenningi. Fólk treystir henni. Hún hefur það sem þarf til að fá vinstri menn til að mynd sterka hreyfingu vinstra megin. En Vinstri græn hafa ekki mikið að sækja á miðjuna, með sín stefnumál, og það getur reynst erfitt, t.d. þegar kemur að stjórnarmyndun eftir kosningar.
Þó stefnumálin séu oft vel staðsetjanleg á miðjunni, þá er það nálgunin sem ræður því hvernig flokkar höfða til kjósenda. Vinstri græn koma þessu að í sjálfu nafninu. Þetta er vinstrihreyfing, sem nálgast málin út frá þeirri stöðu. Í stöðunni sem nú er upp komin, er þetta styrkur frekar en veikleiki.
Björt framtíð er að sprikla, og berjast fyrir lífi sínu. Það er erfitt að greina nokkurn byr í segl, jafnvel þó fólkið sem fyrir flokknum fari sé bæði traust og komi vel fyrir. Flokkurinn hefur ekki fundið leiðina að hjarta kjósenda. Svo einfalt er það. Skýringin held ég að liggi í því, að kjósendur kalla eftir víðtækari breytingum, og að þennan fjöldahreyfingarmeðbyr sé ekki að finna hjá Bjartri framtíð.
Kúvendingar aftur og aftur
Sé horft yfir síðustu átta ár, það er frá hruni fjármálakerfisins, þá hafa allar kosningar frá þeim tíma reynst kosningar mikilla breytinga. Lítið traust á stjórnmálamönnum birtist í þessari óþolinmæði, jafnvel þó landið hafi risið hratt upp úr mikilli lægð, og að vel hafi tekist til við tiltektina eftir hrunið.
Í kosningum 2009 varð fyrsta vinstri stjórnin til og hún kolféll síðan 2013, með miklum sigri Framsóknarflokks Sigmundar Davíðs. Í millitíðinni, árið 2010, kom Besti flokkurinn inn í stjórnmálin í Reykjavík og vann sögulegan sigur með Jón Gnarr í broddi fylkingar.
Árið 2014, í sveitarstjórnarkosningum, voru líka miklar breytingar í kortunum, og sást þá glögglega hversu kvikt landslagið væri í stjórnmálunum. Fólk kallaði eftir einhverju nýju.
Það gerir það ennþá. Píratar hafa verið leiðandi í skoðanakönnunum lengst af á undanförnum tólf mánuðum og mælast enn með um fjórðungsfylgi. Þeir eru að koma fram sem breytingarafl, þeir stilla sér upp á móti kerfinu. Þetta er kunnuglegt frá öðrum löndum um þessar mundir, meðal annars hér í Bandaríkjunum, þó stjórnmálaöfl séu innbyrðis ólík eftir löndum og áherslumálum. Stundum greinir maður samt svipaða strauma.
Margir hafa notað frasa um að breyta kerfinu og að standa gegn elítunni. Bernie Sanders var með þetta sem algjört leiðarstef í sinni baráttu fyrir því að verða fulltrúi Demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum.
Þessa dagana heyrist sömu orð frá Donald J. Trump, sem berst við Hillary Clinton, og er þessa dagana að ganga í gegnum erfiðleika í sinni kosningabaráttu, þó fylgið sé enn nokkuð hátt, miðað við fordómafullan málflutning, í það minnsta eins og hlutirnir horfa við mér. Hann fékk meira að segja Nigel Farage, forsprokka Brexit hreyfingarinnar, til að koma og halda ræðu fyrir stuðningsmenn hans, einmitt til að koma þessum skilaboðum skýrt á framfæri.
En hver heldur á kyndlinum?
Það skiptir máli hver það er, sem vill breyta kerfinu og Píratar hafa náð að festa sig niður sem hreyfing sem boðar breytingar. Ef það ætti að staðsetja hana einhvers staðar, þá er það á miðjunni. Þess vegna er hún stór og breið.
Augljóst er á því hvernig Bjarni Benediktsson hefur talað, að hann vilji ná að marka Sjálfstæðisflokknum sterkari stöðu inn á miðjunni. Þar getur hann stækkað, og þar getur hann náð „gömlu“ vopnum sínum aftur. Hann mælist oftar en ekki stærtti í könnunum en reyndin er í kosningum, og því virðist hætta á því að hann sé að einangrast hægra megin. Fylgi í kringum 20 prósent er ekki fjarri í lagi, ef ekkert breytist, en það finnst mörgum vafalítið óásættanleg fyrir þennan burðarstólpa í íslenskum stjórnmálum um áratugaskeið.
Gegn spillingu
Framboð Benedikts Jóhannessonar og félaga í Viðreisn er að mínum dómi merkilegt fyrir þær sakir, að þar er eindregið talað fyrir viðskilnaði frá sérhagsmunagæslu. Flótti fyrrverandi forystufólks úr Sjálfstæðisflokknum sýnir glögglega að lengi hefur verið kraumandi óánægja innan flokksins vegna þessarar stöðu. Það má nota ýmis orð um þessi mál, en eitt þeirra er spilling. Það er að Viðreisn setji það á oddinn að vinna gegn sérhagsmunum, sem aldrei hafa verið langt undan í baklandi Sjálfstæðisflokksins. Áhugi á Evrópusambandsaðild er augljóslega fyrir hendi, en áhuginn virðist þó frekar vera að snúast um að skilgreina það betur hvernig Ísland eigi tengja sig við umheiminn í framtíðinni, bæði efnahagslega og pólitískt, þannig að hér geti þrifist samkeppnishæfur markaðsbúskapur.
Baráttan um völdin í landinu hefur sjaldan verið harðari, og tvísýnni á sama tíma. Fyrrverandi forsætisráðherra sagði af sér, skattaskjólsgögn eru til skoðunar og rannsóknar, og kosningarnar fara fram á sama tíma og síðustu skrefin í umfangsmiklum aðgerðum stjórnvalda og Seðlabanka Íslands, til að losa um fjármagnshöft, eru stigin. Þetta er sögulegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Gegnum miðjuna
Hægri, vinstri, miðja. Þetta eru einfaldar
skilgreiningar á flóknu og síbreytilegu pólitísku landslagi. En ekki er samt
annað að sjá, en að þeir flokkar sem ná að marka sér sterka stöðu á miðjunni, og
um leið halda „breytum kerfinu“ kyndlinum á lofti, muni sigra í kosningunum og
verða með þræðina í hendi sér eftir kosningar. Viðreisn og Píratar eru í þessari stöðu núna, eftir tíðindi síðustu daga. Viðreisn þarf þó að skýra stefnumál sín betur, ekki síst í sjávarútvegsmálum, jafnvel þó talað hafi verið fyrir markaðslausn sem sannarlega yrði stefnubreyting frá núverandi kerfi. Samanlagt fylgi þeirra mælist um 35 prósent. Gamli frasinn um að margt geti breyst á skömmum tíma í pólitík á þó svo sannarlega við þessi misserin.