Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er fallinn. Nú hefur þjóðin hafnað honum á Austurvelli í mestu mótmælum Íslandssögunnar, samstarfsmenn hans hafnað honum með því að setja hann af sem forsætisráðherra og nú sjálfur Framsóknarflokkurinn með því að kjósa Sigurð Inga Jóhannsson sem formann sinn þrátt fyrir að Sigmundur Davíð væri í framboði.
Sigmundur Davíð er líklega einn umdeildasti, og litríkasti, stjórnmálamaður sem Íslendingar hafa átt. Það eru stór orð þegar haft er í huga að hér hafa deilt og drottnað menn á borð við Jónas frá Hriflu, Davíð Oddsson og Ólaf Ragnar Grímsson. En enginn þeirra kemst nálægt Sigmundi Davíð í því að fara sínar eigin leiðir, sjá heiminn með sínum eigin augum og líta á alla sem eru ósammála eða gagnrýna hans „róttæku skynsemishyggju“ sem andstæðinga eða flugumenn óljósra, en illa meinandi, afla sem vildu hann pólitískt feigan.
Nike-skór og vænisýki
Það eru fáir sem hafa skipt fólki upp í jafn öfgafullar fylkingar. Annars vegar fólk sem gjörsamlega þoldi Sigmund Davíð svo illa að allt sem hann gerði varð ósjálfrátt afleitt í þeirra huga, jafnvel þótt það væri það ekki. Hins vegar var fólk sem var tilbúið að ganga í gegnum steypta veggi fyrir formanninn sinn og leggjast í nánast súrrealískar réttlætingar á gjörðum hans, sem sumar hverjar voru óréttlætanlegar.
Sigmundur Davíð hefur orðið uppvís að ótrúlegri skrýtni á sínum pólitíska ferli. Hann fór í kostulega ferð til Noregs að sníkja risalán, talaði fyrir því að taka upp Kanadadollar, fór á íslenska kúrinn, varaði við því að neysla á veirusýktu erlendu kjöti gæti breytt hegðunarmynstri Íslendinga, fór í einum Nike-skó að hitta Barack Obama og yfirgaf þingsal til að fá sér peruköku.
Hann var líka þekktur fyrir risastór loforð um úrlausn flókinna hluta, að halda hádramatíska viðburði í Hörpu þegar ríkisstjórn hans tók ákvarðanir og fyrir nánast guðlega sjálfsupphafningu sem í fólst að Sigmundur Davíð, og Sigmundur Davíð einn, hafi reist við íslenskt samfélag og efnahag.
Síðustu mánuði hefur hann þó fyrst og síðast verið þekktur fyrir að hafa leynt aflandsfélagatengslum sínum, að hann hafi verið kröfuhafi í bú bankanna og fyrir að ljúga í viðtali sem nær allur heimurinn hefur séð. Í kjölfarið hefur Sigmundur Davíð boðið upp á hlaðborð af vænisýki og samsæriskenningum sem í felast að fjölmiðlar og vogunarsjóðir, og sérstaklega ríkisfyrirtækið RÚV, hafi tekið sig saman til að fella hann.
Tímabundin ráðstöfun
Það er nokkuð ljóst að Sigmundur Davíð átti alls ekki von á því að missa tökin með þeim hætti sem hann gerði, þótt að honum hafi átt að vera það. Nú hefur nefnilega verið upplýst að þingflokkur Framsóknarflokksins ætlaði að setja hann af sem forsætisráðherra í apríl, og lýsti sig því sammála 78 prósentum þjóðarinnar sem vildi hann burt úr þeim stóli og treysti honum ekki lengur eftir opinberun Wintris-málsins.
Sigmundur Davíð leit þó greinilega á þetta sem tímabundna ráðstöfun og að Sigurður Ingi myndi einungis gegna starfi forsætisráðherra tímabundið á meðan að hann kæmist að niðurstöðu um hverjum öðrum en sjálfum sér Wintris-málið væri að kenna. Sigmundur Davíð ætlaði að koma alla leið til baka.
Innsti hringur Sigmundar Davíðs reiknaði ekki með öðru en að leiðtoginn myndi snúa aftur og að skýringar hans á aflandsfélagaeign sinni, hlutverki sínu sem kröfuhafa og lygum myndi á endanum ná í gegn.
Vopnum safnað og áætlun mótuð
Hið mjög sérstaka „fjölmiðlafyrirtæki“ Forysta ehf., sem er einhverskonar undir- og áróðursdeild í markaðs- og ráðgjafarfyrirtækinu Markaðsmenn, var búin að setja upp tvær heimasíður til stuðnings honum sem augljóslega áttu að notast í baráttunni framundan. Önnur, Íslandiallt.is, fjallar um gríðarleg og nánast ofurmannleg afrek Sigmundar Davíðs. Hin, Panamaskjolin.is, útlistaði málsvörn hans í Wintris-málinu í löngu máli.
Forysta rekur líka skráðan fjölmiðil, Veggurinn.is. Þar var lengi vel að finna mikið af áróðri fyrir því að gera langtímasamning um orkusölu við Norðurál á mjög hagstæðum kjörum, enda unnu Markaðsmenn þá fyrir það fyrirtæki. Eftir að Norðurál og Landsvirkjun náðu samningum um nýjan orkusölusamning hefur umfjöllun Veggsins aðallega snúist um jákvæð skrif um Sigmund Davíð, neikvæð skrif um andstæðinga hans og undirtektir með gölnum samsæriskenningum um fjölmiðla.
Þéttur hópur fylgismanna fór líka mikinn á samfélagsmiðlum, í Morgunblaðinu, á Eyjunni og á netinu og hamraði á því að leiðtogi lífs þeirra hefði orðið fyrir ótrúlegri árás. Hann hefði ekki gert neitt rangt utan þess að sjá þá árás ekki fyrir.
Sigmundur Davíð var meira að segja byrjaður að láta skína í nýja peningagjafarloforðið sem hann ætlaði sér að beita í komandi kosningum: að beita lagasetningu á hámarksvexti. Það átti sem sagt að neyða banka í eigu ríkisins og lífeyrissjóði í eigu almennings til að tapa peningum og láta sem að í því fælist með engum hætti að pissa í skóinn heldur yrði um fullnaðarsigur Sigmundar Davíðs á fjármálakerfinu að ræða. Samandregið var Sigmundur Davíð búinn að safna liði og vopnum fyrir stríðið fram undan. Hann var tilbúinn.
Svo tapaðist hver orustan á fætur annarri. Honum tókst ekki að koma í veg fyrir að kosningar yrðu í haust. Svo tókst honum ekki að koma í veg fyrir að flokksþing yrði haldið né að Sigurður Ingi byði sig fram gegn honum. Og lokaósigurinn kom loks í gær þegar hann tapaði formannsstólnum.
Flokkur mannsins, ekki maður flokksins
Það verður seint sagt að það hafi gerst með reisn. Ásakanir voru uppi um að Sigmundur Davíð hafi sýnt af sér einræðistilburði með því að haga dagskrá fundarins sér í hag. Þær ásakanir fengu síðan vængi þegar kom í ljós að tæknimenn hafi verið beðnir um að slökkva á streymi af flokksþinginu eftir að klukkutíma ræðu Sigmundar Davíðs lauk og áður en að korters ræða Sigurðar Inga gat hafist. Þegar ljóst var að Sigurður Ingi hefði sigrað, og Sigmundur Davíð tapað, sat formaðurinn fyrrverandi steinrunninn í bíósætinu sínu líkt og hann hafi ekki trúað því sem var að gerast. Hann stóð ekki upp fyrir nýjum formanni, né þegar Sigurður Ingi bað viðstadda að klappa fyrir Sigmundi Davíð. Þess í stað rauk hann út með fjölmiðlamenn í eftirdragi án þess að svara neinum almennilegum spurningum né að hirða um að hafa sína nánustu með.
Sigmundur Davíð var einn og ráðvilltur fyrir utan Háskólabíó í gær. Hann vissi ekki hvaða stefnu hann ætti að taka, hvorki í þeim aðstæðum sem þá voru nýskapaðar né í stjórnmálalífi sínu almennt.
Það verður þó að teljast ólíklegt að stjórnmálaþátttöku Sigmundar Davíðs sé lokið. Hvort hann haldi áfram að starfa innan Framsóknarflokksins eða hvort hann stofnar sinn eigin „Róttæka skynsemishyggjuflokk“ verður að koma í ljós.
En eitt blasir við. Sigmundur Davíð getur ekki starfað í hefðbundnum lýðræðislegum flokki. Hann getur tekið yfir flokk og látið hann hverfast að öllu leyti um sig og sínar hugmyndir, en um leið og einhver innan eða utan vébanda þess flokks efast um foringjann þá er viðkomandi orðinn andstæðingur.
Þeim sem fylla þann flokk hefur fjölgað ansi hratt á undanförnum mánuðum.