Borgarsvæði eru að stækka og innan þeira á stór hluti nýsköpunar í hagkerfum heimsins sér stað. Það er ekki nýtt, en þróunin hefur verið sú að mikilvægi borgarsvæða hefur verið að aukast. Gert er ráð fyrir því að mikilvægi þeirra muni aukast enn meira á næstu árum og áratugum. Þau verða hjartaslögin í alþjóðvæddum heimi viðskipta.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur bent á þetta ítrekað í skrifum, og það sama má segja um fleiri. Alveg þvert á hið flokkspólitíska landslag.
Samkeppni um hugmyndir
Hér vestanhafs, í Bandaríkjunum, er umræða um þetta alls ekki ný af nálinni. Borgir eiga í mikilli samkeppni um fólk og fyrirtæki, hugmyndir og rannsóknir, nýsköpun og mannlíf. Samkeppnin birtist meðal annars í því hvernig tekst að tengja saman atvinnulífið á borgarsvæðunum, við rannsóknar- og nýsköpunarstarfið annars vegar, og mannlífið og skipulagið hins vegar. Úr verður ein heild; sjálfstætt hagkerfi sem vex síðan áfram, jafnvel í óvæntar áttir.
Meira en þrjú hundruð borgarkjarnar í Bandaríkjunum eru tvöfalt fjölmennari en höfuðborgarsvæðið (202 þúsund íbúar) á Íslandi, og hagkerfin flest stærri en Ísland, þegar allt er talið. Þegar borgarsvæðin eru greind enn meira niður, eru svo einstaka svæði með mun þyngri og stærri efnahagslegan hjartslátt en önnur.
Má nefna Brooklyn í New York (fyrirtæki eins og goTenna og Livestream hafa vaxið þar), miðborgarhluti Portland og útjaðra Seattle-borgar (Amazon og Microsoft), sem dæmi um borgarkjarna sem hafa afar sterkan efnahagslegan grunn.
Þegar horft er til Norðurlanda er miðbærinn í Stokkhólmi annað dæmi.
Þar hafa borgaryfirvöld, í samvinnu við frumkvöðlasamfélagið í borginni og fjárfesta sömuleiðis, lagt mikið upp úr því efla tengsl, og búa til „suðupott“ hugmynda og mannlífs. Ákvörðun Nasdaq um að hafa höfuðstöðvar sínar á Norðurlöndum í Stokkhólmi, og líflegan fjármagnsmarkað fyrir smærri fyrirtæki, hefur ýtt undir sterkt efnahagslíf á svæðinu. Það er ekki tilviljun að Spotify er með glæsilegar höfuðstöðvar sínar á svæðinu, og að Minecraft tölvuleikjasamfélagið hafi orðið til þar (og síðan selt til Microsoft fyrir 2,5 milljarða Bandaríkjadala, um 300 milljarða króna). Svæðið sogar til sín fólk með mikla þekkingu víða að úr heiminum, sem styrkir samfélagið.
Náið samstarf
Í New York hefur borgin lagt sig fram við að skipulegja „suðupotta“ í nánu samstarfi við fyrirtæki og háskólana í borginni. Efnahagur borgarinnar er risavaxinn, og sérstakur sökum þess að hið alþjóðavædda fjármálakerfi á sér heimastöð í borginni.
Hagkerfið í New York er sagt stærra en hagkerfi Kanada og margra annara stórra ríkja, sem segir sína sögu.
Hér á Seattle svæðinu er það keppikefli borgarinnar að vinna með fyrirtækjum sem vilja stækka og eflast á svæðinu. Allt frá fyrstu stigum og fram að hröðu vaxtarskeiði.
Gott umhverfi
Má nefna ótrúlegan vöxt Microsoft og Amazon sem dæmi um þetta, en í tilfellum beggja fyrirtækja hafa borgaryfirvöld unnið náið með fyrirtækjunum að því að tryggja gott umhverfi fyrir fyrirtækin, svo þau ákveðið að vaxa áfram á svæðinu.
Samhliða þessum uppbyggingaráformum fylgjast borgaryfirvöld grannt með hverju skrefi, og reyna að þróa borgina í samræmi við uppbygginguna sem á sér stað í atvinnulífi og háskólastarfi. Þaðan kemur mikið af fólkinu sem býr atvinnulífið til. Gott skipulag getur virkað eins og smurning á vél þegar kemur þessum málum. Og ef allt gengur upp, þá geta kraftaverk gerst. Fyrirtæki fæðast, svæði endurnýjast upp úr hugmyndavinnu þeirra og mannlíf blómstrar.
Þetta er ekki aðeins gert til að fjölga fólki sem fær góð laun, heldur til að ýta undir sjálfbærni á svæðinu til lengdar og skapa aðstæður fyrir „endurtekningu“, þegar þörf er á. Fyrirtæki geta komið og farið, en ef aðstæður eru byggðar upp með þeim hætti að jarðvegurinn er „dínamískur“, þá er líklegra en ekki að svæðin endurnýji sig sífellt.
Þessi atriði eru vafalítið ekkert ný af nálinni, fyrir þeim sem hafa fylgst með umræðu um borgarmál á Íslandi og víðar, en það er engu að síður mikilvægt að fara í gegnum þau, aftur og aftur.
Þróun eina borgarsvæðis landsins mun hafa mikið um það að segja hvernig íslenskt samfélag verður í framtíðinni. Það hefur þanist út á undanförnum áratugum, og út frá skipulagsmálum hefur þróunin verið umdeilanleg, svo ekki sé meira sagt.
Besta tækifærið í uppbyggingu á landsbyggðinni getur falist í efla höfuðborgarsvæðið, og þróa það í rétta átt. Það verður til góðs fyrir landið allt, sérstaklega í örríki eins og Íslandi sem er með allra smæstu ríkjum veraldar. Mikilvægi starfsemi á landsbyggðinni er vel þekkt, ekki síst þegar kemur að sjávarútvegi, og með tilkomu ferðaþjónustunnar sem máttarstólpa í hagkerfinu eru þegar farin að opnast fjölmörg tækifæri. Fyrir mér er augljóst, að uppbygging í Vatnsmýrinni er efnahagslega mikilvægt mál fyrir Ísland, vegna þess sem að ofan er lýst. Þar er kjörsvæði fyrir myndun suðupotts sem getur virkað eins og endurnýjunarvél fyrir hagkerfið til framtíðar litið.
Mér finnst ábendingar Róberts Guðfinnssonar fjárfestis, um þessi mál, vera hárréttar, þó hann horfi á Vatnsmýrina í grein sinni út frá sjónarhóli ferðaþjónustunnar.
En mat hans, um að hagfelld þróun höfuðborgarsvæðisins til lengdar litið, sé mikilvægt mál fyrir allt landið, er hárrétt. Og þetta er stórmál.
Þetta er hægt
Mannlíf sem tengir saman helstu nýsköpunarsvæði á Íslandi, í
Háskólanum í Reykavík og í Háskóla Íslands – sem eru í náttúrlegri nálægð við
sprota- og rannsóknarstarfsemina í landinu – getur myndað suðupottana sem borgir
víða um heima keppast um að skapa. Það er hægt að gera þetta á Íslandi og þau skref sem þegar hafa verið stigin, með starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar, háskólana, og til framtíðar CCP og Alvogen, eru svo sannarlega í rétta átt. En það er hægt að ganga lengra, stíga stærri skref, búa til kjöraðstæður fyrir framþróun á alþjóðlegum þekkingariðnaði.
Tækifærið er fyrir framan okkur, að því er mér finnst. Það er óþarfi að umræða um þessi mál, það er þróun höfuðborgarsvæðisins í samhengi
við efnahagslegt mikilvægi þess fyrir landið í heild, skuli vera látin snúast
alfarið um flug þegar horft er til Vatnsmýrarinnar. Það eru fleiri hliðar á svæðinu en flugvöllurinn, og þó margendurtekið hafi verið kafað ofan í kostina þegar kemur að flugþjónustu í landinu, þá hefur minna farið fyrir umræðu um suðupottinn og mikilvægi hans.