Ég er ekki fyrsti maðurinn í sögunni til að velta því fyrir sér hvað framtíðin ber í skauti sér. Og ég ætla ekki heldur að segja að það séu blikur á lofti. Heimur versnandi fer og allt það. Í raun fer hann batnandi eins og gögn* sýna. Við getum hins vegar alltaf gert betur. En það er ekki pæling dagsins hjá mér. Ég velti fyrir mér hvaða hæfileika íslenskt samfélag þarf að búa yfir á næstu áratugum til að halda áfram að vera í hæsta gæðaflokki á alþjóðlegan mælikvarða.
* a) Singularityhub-grein, b) Grein Hans Rosling á bbc.com og c) Hans Rosling á TED Talk.
Hvert tímabili í sögunni felur í sér breytingar. Framþróun og tæknibreytingar hafa áhrif á líf okkar allra. Iðnbyltingin breytti heiminum varanlega, framleiðslubyltingin í upphafi 20. aldar gerði það líka. Þessi stóru kraftar hafa áhrif á samfélög, gerð starfa og hvernig venjulegt fólk framfleytir sér. Internetið hefur umbreytt því hvernig við nýtum og neytum upplýsinga. Snjallsímar, þessi stórkostlegu tæki eru órjúfanlegur hluti af veruleika fólks um allan heim. Það er satt best að segja erfitt að ímynda sér heiminn án þeirra. Og tækninni mun halda áfram að fleyja fram. Flestum, ef ekki öllum, til góða.
Áhrifin verða margvísleg. Ný störf verða til og önnur munu heyra sögunni til. Ég vel fjögur atriði til sögunnar sem munu líklega keyra þessa þróun áfram.
IoT (Internet of Things)
Staða og framtíðarhorfur: Æ meiri fjöldi tækja verður tengdur við internetið og verður sá fjöldi talinn í milljörðum innan fárra ára. Við þekkjum sögu síma, spjaldtalva, úra og annarra smátækja. Fyrirtæki sem fremst eru í framleiðslu tækja (General Electric, Samsung, Apple, o.s.frv) keppast um að tengja tæki í þeim tilgangi að veita betri þjónustu og auðvelda fólki og fyrirtækjum lífið, allt frá heimilistækjum til fatnaðar. Allir nýir bílar frá og með árinu 2018 í Evrópu verða með innbyggt SIM-kort. Í dag er hægt að stýra einföldum heimilistækjum í gegnum snjallsíma úr fjarlægð.
Áhrif: Upplýsingar um hegðun og neyslu einstaklinga og fyrirtækja munu gera fyrirtækjum auðveldara að þróa lausnir sem neytendur kjósa. Æ betri skynjaratækni mun auka gæði upplýsinga um notkun og hegðun, hvort heldur eru hreyflar, vélar eða hugbúnaður. Fyrirtæki sem áður byggðu rekstur sinn á t.d. vélbúnaði geta og munu sérhæfa sig í gagnaupplýsingum. Þessi þróun mun þannig hafa áhrif á viðskiptamódel margra starfandi fyrirtækja í dag og enn önnur munu spretta upp með gögn og meðhöndlun þeirra sem sérstöðu.
- Hvað er þetta IoT?
- Átta atriði um hvernig IoT mun hafa áhrif á líf fólks (entrepreneur.com)
- Þrjú atriði um hvernig IoT hefur áhrif á fyrirtæki (Forbes)
Sjálfkeyrandi bílar
Staða og framtíðarhorfur: Flestir hafa heyrt um tilraunir Google og Tesla um sjálfkeyrandi bíla. Fyrir um tíu (jafnvel bara fimm) árum virtist þessi hugmynd fjarstæðukennd. Miðað við fréttir úr þessum heimi virðist ekki langt þar til að fyrstu sjálfkeyrandi bílarnir koma á markað. Tæknin er í prófun og lofar góðu. Farartækin eru sínettengd, hafa allar helstu upplýsingar um umferð og næmir skynjarar stjórna ferðinni.
Áhrif: Það þarf vart að lýsa áhrifunum. Akstur leigubíla, vöru- og farþegaflutninga er risastór atvinnugrein um allan heim. Á næstu 20 árum mun þessi atvinnugrein verða fyrir stórfelldum breytingum þar sem minni þörf verður fyrir mannlega þáttinn í umferðinni. Umhverfisáhrifin eru jafnframt líkleg til að verða þó nokkrar þar sem t.d. vöruflutningabifreiðar geta ferðast saman og sparað orku vegna minni loftmótstöðu. Þeir bílar geta verið í notkun allan sólarhringinn sem minnkar umferð fyrir aðra bíla. Kostnaður fyrirtækja og einstaklinga við vöruflutninga mun jafnframt minnka enda er stærsti kostnaður geirans fjárfesting í tækjum sem nú verða betur nýtt og launakostnaður bílstjóra. Einstaklingar sem eiga slíka bíla geta ennfremur nýtt þau betur með þvi að leigja bílana út á daginn. Meðalbíllinn er einungis í notkun 5% af deginum. Hinn tímann stendur hann kyrr á bílastæði. Deilihagkerfið mun að öllum líkindum sjá til þess að einstaklingar munu geta bæði nýtt fjárfestingu sína betur og minnkað umferðina á götunum og fengið samtímis greitt fyrir að eiga bílinn. Stjórnvöldum er fyrst og fremst umhugað um öryggi og það er næsta víst að engin leyfi verða gefin út fyrir sjálfkeyrandi farartækjum fyrr en ásættanlegum öryggiskröfum verður mætt
Vélmenni
Staða og framtíðarhorfur: Framleiðsla og landbúnaður eru mannfrekur iðnaður. Á heimsvísu eru þetta að jafnaði láglaunastörf. Einn stærsti kostnaðarliður þessara geira er þó mannshöndin. Sjálfvirknivæðing ýmiss konar hefur verið í samfelldri þróun frá upphafi iðnbyltingarinnar. Færibandið (Henry Ford) gerði það að verkum að kostnaður við framleiðslu bifreiða lækkaði það mikið að venjulegt fólk hafði efni á því að kaupa bíl. Við stöndum frammi fyrir sambærilegri þróun. Hátæknifyrirtæki hafa náð góðum árangri í samsetningu og lækkað þannig kostnað sinn. Vélmenni sem búin eru skynjurum og keyrð áfram af gervigreind munu koma í stað fyrir mannshöndina, ekki bara í dýrri framleiðslu, heldur líka í þeim atvinnugreinum sem krefjast takmarkaðrar sérþekkingar.
Áhrif: Flokkun af ýmsum toga, niðursetning, upptaka, samsetning, pökkun og dreifing verða ekki óhult fyrir þessari þróun. Dæmi um störf eru áðurnefnd hefðbundin láglaunastörf í framleiðslu og landbúnaði.
Gagnagreining og gervigreind
Ein afleiðing af þessari þróun er að gríðarlegt gagnamagn verður til. Fyrirtæki eru að verða til sem sérhæfa sig í að greina notendahegðun út frá notkun tækjanna, staðsetningu notenda, hegðun á internetinu. Netverksáhrifin af því að neytendur tengi saman þjónustur við hverja aðra og jafnvel við samfélagsmiðla gerir það að verkum að fyrirtækin sem búa yfir upplýsingum um notkun og hegðun læra að þekkja okkur, jafnvel betur en við sjálf. Við nálgumst heim þar sem við sem einstaklingar höfum val um að veita þessum þjónustuaðilum upplýsingar um flesta hegðun okkar í raunheimum. Ekki einum eða fáum aðilum, heldur mörgum. Einhverjum kann að finnast þetta svört framtíðarsýn, aðrir horfa á þessa þróun sem jákvæða og leið til að nýta betur tæknina og fá betri þjónustu, jafnvel að einfalda lífið.
Það er einfalt að grípa í svartsýnisspána og segja: „Hvað á þá þetta fólk sem starfar innan ört minnkandi atvinnugreina að gera? Hvers eiga láglaunahópar að gjalda?“ Í sögulegu tilliti leyfi ég mér að fullyrða að þessi þróun mun leiða af sér nýjar atvinnugreinar sem hentar öllum þjóðfélagshópum, bæði sérhæfðum og minna sérhæfðum. Ég veigra mér við að spá fyrir um hvaða og hvernig störf verða til á næstu 15-30 árum. Það eina sem víst er að fjölmörg störf sem við þekkjum í dag munu hverfa en önnur koma í staðinn.
Tækni- og framfarasinnuð hagkerfi óska eftir tölvunarfræðingum, verkfræðingum og gagnagreinendum
Sílikon dalur í Kaliforníu er það svæði í heiminum sem er hvað framfarasinnaðast í heiminum í dag. Hvaða störfum er einna helst óskað þar eftir í dag? Það kemur ekki á óvart að tæknitengd störf eru þar efst á lista. Atvinnuauglýsingasíðan Monster gerði greiningu á þeim störfum sem eru mest eftirsótt af atvinnuveitendum árið 2016:
- Software Developers, Applications
- Marketing Managers
- Web Developers
- Network and Computer Systems Administrators
- Registered Nurses, RNs
Sambærilega ráðningarsíða, hired.com, setur „Data Scientist“ í eitt af fimm efstu sætunum. Það kemur ekki á óvart miðað við þörfina á því að setja greind á bak við þær upplýsingar sem tölvukerfi safna saman um neytendur.
Að lokum
Ég vísa svo í tæknispá Hjálmars Gíslasonar (Qlik) um hvað verði heitt á árinu 2016.
Áhrifa ofangreindra atriða í þessari færslu mun gæta á allra næstu árum, ekki bara á árinu 2016. Nútímasamfélag mun þannig taka gríðarlegum breytingum á næstu misserum.
Það er jafnframt áhugavert að velta fyrir sér hver áhrifin verða á samfélög út frá tekjum, menntun og samfélagsgerð. Ég læt mér nægja að vísa í athyglisverða grein Jeffrey Sachs, prófessor í hagfræði við Columbia háskólann í NY, um efnið.
Við búum á afar áhugaverðum tímum þar sem tækni og samfélag munu þróast hönd í hönd. Það er okkar að fara vel með þá þróun, mannkyni og jörð til heilla. Hvaða hlutverki Ísland gegnir og möguleikar okkar sem þjóð kallar á aðra færslu. Nánar um það síðar.
Höfundur forsvarsmaður nýsköpunar hjá Arion banka.