Í áramótaskaupinu árið 2006 var gegnumgangandi brandari þar sem sem ólukkulegur maður var ítrekað spurður af hverju hann væri ekki, eða gerði ekki, eins og Hannes Smárason. Á þeim tíma var Hannes, þá forstjóri hins gríðarlega umsvifamikla fjárfestingafélags FL Group, nokkurs konar hálfguð í huga hluta þjóðar á eyðslufylleríi með lánaða þýska sparisjóðapeninga. Hann virtist ekki geta gert neitt rangt og allt sem þessi snjalli fjárfestir snerti virtist verða að gulli.
Í umfjöllun Markaðarins, fylgiblaðs Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, þegar Hannes var valinn maður ársins 2006, sagði m.a.: „Hann fór inn í þetta ár með ýmsar hrakspár á bakinu og efasemdir um stefnu, en kemur út úr því með innleystan hagnað fyrir á fimmta tug milljarða og með öflugasta fjárfestingafélag Evrópu sem getur fjárfest fyrir 200 milljarða króna.“
Þar sagði Hannes að „við viljum helst ekki skrifa tékka sem er minni en fimm til tíu milljarðar í einstakri fjárfestingu.[...]Við erum rétt að verða þekkt í alþjóðlegum fjárfestingaheimi, en það á algjörlega eftir að nýta þann möguleika að gera Ísland að spennandi fyrirtæki fyrir fjármálafyrirtæki og banka.“
Tæpu ári eftir að viðtalið var tekið hætti Hannes sem forstjóri FL Group eftir að hafa ekki haft fjárhagslega burði til að taka þátt í hlutafjáraukningu sem átti að bjarga félaginu. Það gekk ekki betur en að það fór í greiðslustöðvun nokkrum dögum áður en að Geir H. Haarde bað guð að blessa Ísland og kröfuhafar þess eru enn að vinda ofan af veislunni í dag, átta árum síðar. Þúsundir hluthafa sáu eign sína í félaginu verða að engu.
Peningar til Panama
Hannes var líkt, og margir aðrir samferðamenn hans í skýjaborgum fjármálasteypunnar sem átti sér stað fyrir hrun, til rannsóknar hjá alls kyns embættum. Tvö mál vöktu þar mesta athygli: hin svokallaða Pace-flétta og millifærsla á fé almenningshlutafélagsins FL Group inn á bankareikning fjárfestingafélagsins Fons til að kaupa danska flugfélagið Sterling. Erfiðlega gekk þó að nálgast gögn og þeir aðilar máls sem höfðu upplýsingar um þau sem gætu varpað ljósi á málin kusu margir hverjir að varpa engu slíku ljósi.
Pace-málið er á meðal þekktustu íslensku hrunmálanna. Alls hafa verið sagðar um hundrað fréttar af því frá byrjun árs 2010. Það kom fyrst upp á yfirborðið þegar slitabú Fons, eignarhaldsfélags sem stýrt var af fjárfestinum Pálma Haraldssyni en var þá orðið gjaldþrota, fór að rannsaka hvað hefði orðið um þrjá milljarða króna sem millifærðir höfðu verið af reikningum félagsins í apríl 2007 inn á bankareikning í eigu panamska félagsins Pace Associates. Enginn virtist vita hver ætti félagið sem tók við þessum miklu fjármunum.
Það vakti líka athygli að millifærslan var ekki færð endanlega í bókhald Fons fyrr en rúmu ári eftir að hún átti sér stað, eða í júlí 2008. Þá var gjörningurinn færður inn sem lán og það lán afskrifað samhliða án útskýringa.
Skiptastóri bús Fons kærði málið til embættis sérstaks saksóknara, sem nú heitir héraðssaksóknari, í nóvember 2010. Skömmu síðar hófst formleg rannsókn. Að hans mati áttu milljarðarnir þrír að fara til kröfuhafa Fons, sem þá var verulega gjaldþrota, og ljóst að lítið sem ekkert myndi fást upp í tugmilljarða króna kröfur.
Þetta má
Í Panamaskjölunum kom fram að Hannes Smárason var með prókúru í Pace og stýrði því félaginu. Nokkrum dögum eftir að sú frétt var sögð, í maí síðastliðnum, var tilkynnt að ekki yrði ákært í málinu. Ástæðan var sú að tveir hæstaréttardómarar hefðu fallist á í niðurstöðu sinni í öðrum málum tengdum félaginu að Fons hefði verið gjaldfært og með góða eiginfjárstöðu allt fram að efnahagshruninu. Því mat embætti héraðssaksóknara að minni líkur væru á því en meiri að sakfelling myndi fást í málinu.
Í rökstuðningi sem héraðssaksóknari veitti skiptastjóra Fons, og Kjarninn hefur undir höndum, er Pace málið hins vegar skýrt. Þar kemur fram að Hannes Smárason hafi ráðstafað þeim þremur milljörðum króna sem Fons lánaði til Pace. 900 milljónir króna fóru inn á reikning aflandsfélags fjárfestisins Magnúsar Ármann vegna þátttöku Hannesar í fasteignaverkefni í Indlandi en að öðru leyti var fjármununum ráðstafað „að stærstum hluta til hlutabréfaviðskipta erlendis fyrir reikning Pace eða annars með öðrum hætti í eigin þágu, annað hvort þá með greiðslu persónulegra skuldbindinga eða beinum greiðslum til hans eða náinna tengslamanna eða hins vegar með beinum greiðslum til innlendra og erlendra félaga á hans vegum.“
Það lá sem sagt fyrir að Fons mátti millifæra þrjá milljarða króna inn á aflandsfélag í eigu viðskiptafélaga annars eiganda þess, færa þá upphæð síðan í reikning ári síðar sem lán, afskrifa það strax án afleiðinga og fara síðan í tugmilljarða þrot innan við ári síðar. Allt vegna þess að Hæstaréttardómarar töldu hókus-pókus efnahagsreikning félagsins sýna góða stöðu þegar raunveruleikinn staðfesti að svo var augljóslega ekki.
Millifærsla úr almenningshlutafélagi
Ef Pace-málið var eitt mest umtalaða hrunmálið þá var Sterling-málið eitt frægasta fyrirhrunsmálið. Í mjög stuttu máli snerist það um að Hannes Smáráson lét millifæra þrjá milljarða króna sumarið 2005 af reikningum FL Group, félags sem hann var þá stjórnarformaður í, inn á nýjan bankareikning FL Group hjá Kaupþingi í Lúxemborg sem Hannes hafði látið stofna fimm dögum áður. Samkvæmt sérstöku umboði hafði Hannes fullt og ótakmarkað umboð til ráðstafana á fjármunum félagsins á þeim bankareikning. Fjármunirnir voru sama dag færðir frá nýja bankareikningnum yfir á bankareikning Fons eignarhaldsfélags. Sama Fons og lánaði/gaf Pace þrjá milljarða króna sumarið 2007. Þar var fjárhæðinni skipt í danskar krónur og í kjölfarið lagðar inn á félagið Fred. Olsen & Co., þáverandi eiganda flugfélagsins Sterling Airlines, sem Fons var að kaupa. Milljarðarnir þrír mynduðu stóran hluta af þeim fjórum milljörðum króna sem Fons greiddi fyrir kaup á Sterling á þessum tíma.
Hannes neitaði árum saman að millifærslan hafi átt sér stað. Hann mætti t.d. í Kastljós viðtal í október 2005 og sagði ávirðingarnar vera „þvælu“.
Hvorki þáverandi forstjóri, fjármálastjóri eða stjórn FL Group höfðu hugmynd um að þetta ætti sér stað né höfðu haft aðkomu að ákvörðun um millifærsluna. Forstjórinn hætti í kjölfarið og stjórnin sagði af sér. Hannes tók sjálfur við sem forstjóri. FL Group var á þessum tíma almenningshlutafélag í eigu rúmlega fjögur þúsund aðila.
Eftir mikinn þrýsting frá forstjóra og stjórn skiluðu fjármunirnir sér til baka, en ekki frá Fons heldur var um lán frá Kaupþingi í Lúxemborg að ræða. Hannes og Jón Ásgeir Jóhannesson, sem átti líka stóran hlut í FL Group, gengust samkvæmt ákæru í málinu í persónulegar ábyrgðir fyrir endurgreiðslu lánsins.
Málarekstur Sterling-málsins hefur tekið ótrúlega langan tíma. Hið meinta brot var framið sumarið 2005, rannsókn hófst fyrst árið 2008 og málinu var vísað frá einu sinni áður en það fékk efnislega meðferð fyrir héraðsdómi í upphafi árs 2015. Þar var Hannes sýknaður en þeirri niðurstöðu áfrýjað til Hæstaréttar.
Hann tilkynnti í lok síðustu viku að málið hefði verið fellt niður. Ástæðan: ríkissaksóknari sem sá um áfrýjun málsins skilaði ekki greinargerð í málinu fyrr en eftir að frestur til þess var liðinn. Samt höfðu verið veittir aukafrestir til að skila greinargerðinni.
Skiptir máli að draga línu í sandinn
Rannsóknir og eftir atvikum ákærur í málum vegna gjörninga sem áttu sér stað fyrir og í aðdraganda hrunsins eru mjög mikilvægar. Um er að ræða atvik sem mörg hver eru fordæmalaus og því er áríðandi að Hæstiréttur skili niðurstöðu í þeim.
Ekki til að svala einhverjum hefndarþorsta eða vegna friðþægingarraka, heldur til að fá á hreint hvað má og hvað má ekki í íslensku viðskiptalífi. Mörg málanna eru enda, í besta falli, á gráu svæði. Ef það sem var gert í þeim er ekki ólöglegt þá ætti það að vera það, og löggjafinn ætti að breyta lögunum. Annars er hætt við að galna hegðunin sem sigldi okkur í strand haustið 2008 fari að gera aftur vart við sig og valdir aðilar komist upp með að kaupa sér stöðu ofar réttarríkinu.
Þess vegna er svo alvarlegt að ótrúlegt klúður ríkissaksóknara verði til þess að mikilvægt mál sem snertir hvað má gera með fjármuni almenningshlutafélaga sé ekki tekið til efnislegrar meðferðar. Það nægir ekkert að bera fyrir sig manneklu og að verkferlum hafi verið breytt í kjölfarið. Mistökin eru það alvarleg að trúverðugleiki embættis ríkissaksóknara er undir. Einhver verður að bera ábyrgð.
En þangað til er ekki hægt að draga aðra ályktun að þeir gjörningar sem lýst er hér að ofan sé eitthvað sem má. Íslenska réttarkerfið hefur að minnsta kosti ekki ráðið við að sýna fram á annað. Það er þá gott að vita það.
Kannski ættum við eftir allt saman bara öll að vera meira eins og Hannes Smárason. Það yrði áhugavert samfélag sem úr yrði.