Það er kosningatitringur í samfélaginu. Hann birtist meðal annars í ótrúlega langsóttum ályktunum ýmissa sem eru ekki að ná því fylgi sem þeir höfðu vonast eftir. Liðnir dagar hafa einkennst af slíkum ályktunum og vanstilltum samsæriskenningum um tilgang frétta af neyðarláni sem Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi 6. október 2008.
Fréttaflutningurinn, sem er sannur, lögmætur og á sannarlega erindi við almenning, byggði á vitnaskýrslu yfir Sturlu Pálssyni, lykilstarfsmanni Seðlabankans, hjá sérstökum saksóknara 2012. Í skýrslunni lýsir Sturla því að Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans, hafi tekið símtalið við Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, þar sem neyðarlánið var ákveðið í sinn síma, sem Davíð vissi að væri hljóðritaður. Sturla greindi einnig frá því að hann hefði verið viðstaddur símtalið.
Í vitnaskýrslunni er birt endurrit úr símtalinu fræga. Þar er haft eftir Davíð: „Í dag getum við skrapað saman 500 milljónir evra og erum þá náttúrulega komnir inn að beini. Getum þá hjálpað Kaupþingi í einhverja fjóra fimm daga en þá getum við ekki hjálpað Landsbankanum líka sko.“
Við yfirheyrslur lýsti Sturla því að Davíð Oddsson hefði sagt við Geir H. Haarde að „þeir fengju þennan pening ekki til baka og að ákvörðunin hafi í raun verið GHH.“
Það er val að upplýsa ekki
Enn er fjölmörgum spurningum varðandi neyðarlánaveitinguna ósvarað. Það er val þeirra sem að henni komu að svara ekki þeim spurningum, þ.e. Davíðs og Geirs. Þeir hafa í hendi sér að birta upptökuna sem er til að símtali þeirra og varpa þar með ljósi á heildarmynd þeirrar ákvörðunar sem tekin var þegar Kaupþingi voru lánaðar 500 milljónir evra sama dag og lög voru sett sem allir hefðu átt að sjá að myndu fella bankann. Þeir hafa hins vegar valið að skýra málið ekki opinberlega heldur þess í stað skipst á að kenna hvor öðrum um að hafa borið ábyrgð á lánveitingunni, þótt fyrir liggi að einungis Seðlabanki Íslands, sjálfstæð stofnun, geti tekið slíka ákvörðun samkvæmt lögum.
Þess vegna voru þær upplýsingar sem fram komu í vitnaskýrslu Sturlu mjög fréttnæmar. Um var að ræða nýjar upplýsingar um ákvörðun sem hafði gríðarleg samfélagsleg áhrif, enda var verið að lána allan nettó gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans, sem var á pari við eigin fé hans. Það hefur aldrei áður komið fram að Davíð hafi vísvitandi látið hljóðrita samtal við forsætisráðherra, það hefur aldrei áður verið birt endurrit úr símtalinu og það hefur aldrei áður komið fram að seðlabankastjórinn sem veitti lánið hafi talið að það myndi ekki endurgreiðast áður en að hann heimilaði útgreiðslu þess.
Og enn er á huldu hvað peningarnir fóru nákvæmlega í.
Að hengja sig í aukaatriðin
Af umræðunni að dæma mætti halda að ekkert ofangreint hafi komið fram. Þess í stað fjallar hún annað hvort um form eða galnar samsæriskenningar sem eru ekki studdar neinum rökum.
Formumræðan er orðin nokkuð þekkt hjá völdum kreðsum hérlendis. Hún snýst um að hengja sig í aukaatriði máls til að forðast að ræða aðalatriði þess. Í samhengi við Kaupþingslánið eru spunameistararnir sem notast við hana m.a. að spyrja af hverju það sé ekki frekar verið að fjalla um hvernig vitnaskýrslan hafi lekið frá sérstökum saksóknara, sem í dag heitir héraðssaksóknari?
Í fyrsta lagi liggur ekkert fyrir um að gögn hafi lekið frá sérstökum saksóknara. Fimm menn höfðu réttarstöðu grunaðs í því máli sem verið var að rannsaka þegar Sturla var yfirheyrður. Kjarninn hefur fengið staðfest að lögmenn þeirra hafi fengið afhent gögn málsins, meðal annars yfirheyrslur yfir vitnum, líkt og eðlilegt er í réttarríki. Það er því mun stærri hópur en bara héraðssaksóknari sem er með umrædda skýrslu og fráleitt að álykta án rökstuðnings eða sannanna að embætti héraðsaksóknara hafi lekið umræddri skýrslu.
Í öðru lagi skiptir það engu máli fyrir fjölmiðla hvaðan gögnum er lekið, ef efni þeirra er fréttnæmt og á erindi við almenning. Og það er rangt sem haldið hefur verið fram af löglærða alþingismanninum Vigdísi Hauksdóttur að það sé lögbrot þegar fjölmiðill birtir trúnaðargögn. Fjölmiðill, sem viðtakandi gagnanna, getur aldrei brotið trúnað, einungis sá sem afhendir þau. Og heimildarmenn fjölmiðla njóta verndar í lögum.
Samsæri?
Hitt sem er einkennandi í umræðunni eru órökstuddar ávirðingar um að fréttaflutningur fréttastofu Stöðvar 2 og Kastljóss, sem sögðu fyrst frá vitnaskýrslunni, sé þáttur í einhverju ægilegu samsæri gegn ákveðnum stjórnmálaflokkum eða -mönnum.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og einn valdamesti maður landsins, hefur farið þar framarlega í flokki. Hann sagði í útvarpsþætti á fimmtudag að honum finnist „nú nokkuð augljóst að menn hafi setið á þessu og plantað inn í miðja kosningabaráttuna til að rugla menn í ríminu og setja anda hrunsins yfir síðustu daga fyrir kosningar.“
Bjarni bætti síðan við að ekkert nýtt hafi komið fram í umfjöllun Kastljóss um vitnaskýrsluna, sem er beinlínis rangt líkt og rakið er ítarlega hér að ofan.
Fyrir rúmum tveimur mánuðum opinberaði Bjarni skoðun sína á fjölmiðlum nútímans. Þá skrifaði hann á Facebook-síðu sína: „Hún gerist æ sterkari tilfinningin að vegna manneklu og fjárskorts séu viðkomandi miðlar orðnir lítið annað en skel, umgjörð um starfsemi þar sem hver fer fram á eigin forsendum. Engin stefna, markmið eða skilaboð og þar með nánast enginn tilgangur, annar en sá að vera til staðar fyrir þá sem þar vinna. Þeir skiptast síðan á að grípa gjallarhornið sem fjölmiðillinn er orðinn fyrir þá og dæla út skoðunum yfir samfélagið. Ein í dag - önnur á morgun. Borið út frítt. Hvers vegna ekki bara að opna Facebooksíðu og leyfa öllum að skrifa á vegginn?“
Orð Bjarna þá sýndu algjöra vanvirðingu gagnvart íslenskum fjölmiðlum og fullkomið skilningsleysi á eðli þeirra. Orð hans nú festa það mat í sessi.
Afleikur Bjarna
Líklega verður þessi bræði Bjarna vegna umfjöllunar fjölmiðla um nýjar upplýsingar í samfélagslega mikilvægu máli síðar dæmd sem einn mesti afleikur sem leikinn var í aðdraganda komandi kosninga.
Það hafði nefnilega enginn almennilegur fjölmiðill haldið því fram að umfjöllunin tengist með nokkrum hætti stjórnmálum dagsins í dag eða þeim sem nú leiða flokka. Það er Bjarni sjálfur sem setur málið í það samhengi í viðtalinu og bregst síðan við fullur af heilagri bræði yfir því hvað það sé ósvífið. Þar skýtur hann sig fast í fótinn. Fyrir utan hversu sjálflægt það er að taka alla umfjöllun beint til sín með þessum hætti. Það eru stundum sagðar fréttir sem tengjast ekki Bjarna Benediktssyni.
Þá má bæta við að ásakanir um að þessum fréttum hafi verið „plantað“ vegna kosninga sýna gríðarlega vanþekkingu á eðli fjölmiðla. Allir, allir, sem koma upplýsingum á fjölmiðla hafa eitthvað „agenda“. Það getur verið allt frá því að vera sterk réttlætiskennd til þess að reyna að hafa áhrif á einhverja framvindu sem er að eiga sér stað. Það á jafnt við um upplýsingafulltrúa á vegum ríkisstjórnar í aðdraganda kosninga og lögmenn sem sitja á vitnaskýrslum. Enginn gerir neitt að ástæðulausu.
Hlutverk fjölmiðla er að taka við þessum upplýsingum, meta fréttagildi þeirra og segja síðan frá þeim ef það mat skilar þeirri niðurstöðu að þær eigi erindi við almenning. Það skiptir engu máli fyrir fjölmiðla hvenær slíkar upplýsingar berast. Vítavert hefði verið ef fréttastofa Stöðvar 2 eða Kastljós hefðu ákveðið að geyma umfjöllun um vitnaskýrslu Sturlu fram yfir kosningar vegna þess að einhverjum þætti að hún gæti mögulega verið túlkuð með pólitísku nefi nákvæmlega núna. Þá fyrst væru fjölmiðlarnir komnir á hálan ís.
Beint lýðræði umræðunnar
Sú upplýsinga- og tækniöld sem við lifum á hefur breytt öllu. Fjölmiðlaumhverfið virkar ekki lengur þannig að handfylli hliðvarða í ritstjórastólum með rík pólitísk tengsl geti stýrt því hvað verðskuldi umræðu og hvað ekki. Með tilkomu samfélagsmiðla, internetsins og snjallsíma eru allir sem vilja þátttakendur í umræðunni og geta nálgast upplýsingar til að móta sér skoðanir sjálfir, í stað þess að vera fóðraðir af slíkum af gömlu hliðvörðunum og stjórnmálamönnum.
Sá tími er því liðinn að almenningur þurfi að framselja alla ákvörðunartöku skilyrðislaust til valinna manna í jakkafötum sem flestir eru steyptir í sama mótið bara vegna þess að þeir hafa haft betra aðgengi að upplýsingum og þar af leiðandi getað tekið til sín vald. Að því leytinu er hið beina lýðræði, sem margir þrá svo mjög, þegar komið á þegar kemur að umræðu og þátttöku í henni. Hliðvörðunum hefur verið eytt og dyrnar galopnaðar. Stjórnmálamenn verða að aðlagast þeim veruleika eða velja sér annan starfsvettvang, því „gömlu góðu dagarnir“ þegar Morgunblaðið sagði og þagði allar fréttir eru ekkert að fara að koma til baka.
Hlutverk fjölmiðla er að miðla upplýsingum til almennings svo hann geti myndað sér skoðun á samfélaginu sínu, dregið rökstuddar ályktanir eða tekið upplýstar lýðræðislegar ákvarðanir. Og innan þess hlutverks rúmast sannarlega að segja framvindufréttir um neyðarlánaveitingu úr Seðlabanka allra landsmanna sem leiddi til tugmilljarða króna taps.
Það að vera alltaf að básúna einhverjar illa grundaðar samsæriskenningar um að fjölmiðlarnir séu að vinna gegn völdum stjórnmálamönnum er orðið ansi þreytt. Sigmundur Davið Gunnlaugsson og Donald Trump eru búnir að ganga af þeim samkvæmisleik dauðum.
Þeir sem ætla sér að leika hann áfram ættu að taka nýleg orð David Axelrod, sem stýrði forsetakosningabaráttum Barack Obama, til sín. Hann tísti í vikunni að hann hafi sagt pólitískum skjólstæðingum sínum: „Ef þú ert farinn að kvarta yfir fjölmiðlum, þá ertu líklega að tapa.“