1. Innkaupalistinn
Þetta var eins og í lélegu áróðursmyndbandi. Hann var ekki á litinn eins og ég. Talaði ekki sama tungumál. Hollenskar gulrætur. Blómkálshaus. Kjúklingabaunir. Fleiri niðursuðudósir. Heildarupphæðin náði 1800 krónum en það var ekki heimild á kortinu. Blómkálshausinn og ein niðursuðudósanna voru dregin frá en aftur ekki heimild.
Á meðan fátæki maðurinn tíndi fleiri vörur upp úr pokanum buðumst við til að borga en hann afþakkaði með brosi – eins og í lélegu áróðursmyndbandi. Loks var upphæðin komin niður í þúsundkall. Aftur fékkst neitun á kortið.
Hann fór tómhentur út.
2. Sykurmassi
Uppskrift (dugar til að hylja 28 cm köku):
- 175 g (1 poki) Haribo sykurpúðar
- 475 g Dan Sukker flórsykur (aðeins meira ef þið litið massann)
- 2-2,5 msk vatn
- 50 gr palmínfeiti eða kókósolía
- Gel-matarlitur
3. „Það er mikill kærleikur í svona köku“
Árið 2013 greiddu íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi 12,8 milljarða í veiðigjöld til ríkisins. Svo völdu Íslendingar sér nýja ríkisstjórn, hana mynduðu lunkinn bakari úr Garðabænum og ofsóttur huldumaður frá Hrafnabjörgum. Þessir ungu milljarðamæringar lækkuðu veiðigjaldið niður í 4,8 milljarða. Þeir lækkuðu það um átta þúsund milljónir.
4. Meira um jöfnuð
Á síðustu sjö árum hafa íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi hagnast um 265 milljarða og greitt eigendum sínum arð upp á sirka 50 milljarða. Fimmtíu þúsund milljónir.
5. Að vera ríkur
Bjarni Ben lét ekki þar staðar numið heldur lagði af auðlegðarskatt. Í nýlegum pistli sýnir Indriði H. Þorláksson hvernig skattbyrði hefur aukist undan farin ár um sjö milljarða hjá 80% samskattaðra en lækkað um átta milljarða hjá tekjuhæstu 20% samskattaðra.
6. Kakan skorin
Ég veit ekki af hverju, en þegar ég tek þetta saman leitar fátæki maðurinn í Bónus á hug minn. Ég hef ekki hugmynd um hver hann er. Kannski flóttamaður. Kannski er hann í þrælahaldi einhverrar starfsmannaleigu, þær hafa hundraðfaldast að stærð á síðustu tveimur árum. Kannski vinnur hann bara á Hótel Adam, ég veit það ekki.
En það sem ég veit er að hópur útlendinga sem leita lágmarks-lífsgæða á Íslandi verður bráðum svo stór að það verður erfitt að fela hann í skugganum af afmæliskökum stjórnmálamanna. Sumir hafa af þessu áhyggjur, telja að við getum ekki tekið á móti fleirum. En kannski eru þeir ekki að telja rétt. Sjá lið fjögur hér að ofan.
7. Að vera raunsær
Í Fréttablaðinu 14. október síðastliðinn sagði fjármálaráðherra að kvótakerfið skilaði „gríðarlegum verðmætum og þá eiginleika verðum við að tryggja áfram.“ En hann talaði ekki af sama innblæstri um málefni flóttamanna, sagði að við þyrftum „að vera raunsæ.“ Loks hélt hann því fram að það væri mikill kærleikur í kökum.
8. Hvaða erindi á Bjarni Ben í pólitík?
Bjarni Ben hagnaðist gríðarlega í viðskiptum fyrir hrun. Hann er flinkur að baka kökur. Og nú gæti hann orðið forsætisráðherra Íslands. Það er greinilegt að Bjarni er vanur að ná þeim markmiðum sem hann setur sér. En hvaða markmið hefur hann í pólitík? Vill hann berjast gegn mannréttindabrotum eins og fóstureyðingabanninu í Póllandi? Vill hann að söluferli ríkiseigna verði opið og gagnsætt? Vill hann breyta kerfi sem gerir suma ofurríka vegna pólitískra tengsla? Vill hann sanngjarnt skattakerfi? Vill hann stöðva undanskot í skattaskjólum? Vill hann að fleiri frekar en færri njóti arðsins af auðlindum þjóðarinnar? Vill hann beita sér gegn fátækt og misskiptingu auðs? Vill hann auka siðferði og gagnsæi í stjórnmálum?
Nú get ég ómögulega vitað hvað Bjarni Ben er að hugsa. En í fljótu bragði virðist svarið við öllum þessum spurningum vera nei. Og þegar ég skoða fyrir hvað hann stendur í pólitík og hvað honum finnst raunsætt að gera og ekki gera, þá velti ég fyrir mér hvort hann sé kannski fátækasti maður á Íslandi.