Úrskurður kjararáðs um laun ráðherra, forseta Íslands og alþingismanna felur í sér afar þýðingarmikil skilaboð fyrir komandi viðræður á vinnumarkaði.
Ráðið skipar fólk með misjafnlega mikla reynslu, en formaðurinn er Jónas Þór Guðmundsson lögfræðingur og trúnaðarmaður Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Hann er einnig formaður stjórnar Landsvirkjunar í umboði Bjarna og formaður yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi.
Í ráðinu eru einnig Svanhildur Kaaber, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl., Hulda Árnardóttir og Óskar Bergsson.
Eins og kunnugt var á vef kjararáðs í dag, þá ákvað ráðið að hittast á kjördag, 29. október, og hækka laun ráðamanna um tugi prósenta, og að meðaltali um sem nemur 340 þúsund á mánuði.
Ákvörðunin, nákvæmlega fram sett, er sú að frá og með 1. nóvember 2016 skulu laun forseta Íslands vera 2.985.000 krónur á mánuði. Þingfararkaup skal vera 1.101.194 krónur á mánuði. Laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi skulu vera 2.021.825 krónur á mánuði. Laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi skulu vera 1.826.273 krónur á mánuði.
Ákvörðunin er nú þegar orðin að fyrsta vandamáli komandi ríkisstjórnar. Hvaða áhrif mun hún hafa á rökræðurnar sem framundan eru hjá kennurum og sveitarfélögum, sjómönnum og útgerðum, starfsfólki á gólfinu og vinnuveitendum? Og síðan öðrum stéttum hjá hinu opinbera sem vafalítið munu horfa í eigin barm og spyrja sig að því, hvort ráðamenn eigi þetta skilið.
Kjarninn í rökstuðningi kjararáðs er þessi: „Afar mikilvægt er að þjóðkjörnir fulltrúar séu fjárhagslega sjálfstæðir og engum háðir. Störf þeirra eiga sér ekki skýra hliðstæðu á vinnumarkaði enda eru þeir kjörnir til starfa í almennum kosningum og þurfa að endurnýja umboð sitt að minnsta kosti á fjögurra ára fresti. Forseta Íslands, ráðherrum og þingmönnum hafa ekki verið ákvarðaðar sérstakar greiðslur fyrir vinnu utan hefðbundins dagvinnutíma, þrátt fyrir að störf þeirra fari að hluta til fram utan hans.“
Þetta er einfeldnisleg nálgun. Það er vissulega rétt að mikilvægt sé að þjóðkjörnir fulltrúar séu fjárhagslega sjálfstæðir og engum háðir. En það má segja það sama um margar stéttir í íslensku samfélagi. Lækna, kennara, sérfræðinga Lyfjastofnunar, veðurfræðinga, unga vísindamenn við háskólana, og fleiri. Best er auðvitað ef allir geta verið fjárhagslega sjálfstæðir og engum háðir.
Kjararáð getur aldrei tryggt fjárhagslegt sjálfstæði fólks sem ræður sínum persónulegu fjármunum sjálft, og í grunninn er starf stjórnmálamannsins hugsjónarstarf, byggt á lýðræðislegu umboði. Í því liggur sérstaða þess, og fólk sem býður sig fram í starfið veit þetta.
Í Bandaríkjunum er forsetinn með 400 þúsund Bandaríkjadali í laun á ári, eða sem nemur 45,2 milljónum á ári, um 3,7 milljónum á mánuði. Það er um 700 þúsund krónum meira en forseti Íslands. Á hann meira skilið? Tryggir þetta fjárhagslegt sjálfstæði hans gagnvart þeim hagsmunum sem hann er að vinna með, vega á hverjum tíma, og taka tillit til? Nei, launin gera það ekki. Þau er vitaskuld lág í samanburði við ábyrgð og umfang. En hin pólitíska staða, í gegnum kosningar og lýðræðislegan framgang, verður ekki metin til fjár. Einmitt í ljósi þessa, ætti að fylgja hófsamri og skynsamri leiðsögn þegar línurnar eru lagðar í launaþróun ráðamanna og kjörinna fulltrúa. Þeir eiga ekki að fá að stunda höfrungahlaup í kjaramálum á sama tíma og þeir margítreka sjálfir að óæskilegt sé að stunda höfrungahlaupið.
Í litlu samfélagi eins og Íslandi, þar sem vinnumarkaðurinn er aðeins 195 þúsund manns, þá skiptir máli hvernig efnahagsmálum er stýrt og hvaða skilaboð koma frá hinu opinbera. Í lotunni sem framundan er á vinnumarkaði er nú komið stórt og mikið vopn í hendur þeirra sem krefjast hærri og launa. Rök kjararáðs eru veik og matið á hlutfallslegri hækkun, er ekki í samræmi við þær raddir sem komið hafa frá stjórnvöldum, verkalýðshreyfingunni og forsvarsmönnum atvinnurekenda, um hvernig skynsamlegt að horfa á launaþróunina. Framleiðni er ekki að aukast og styrkjast, þó gjaldeyrisinnspýting frá erlendum ferðamönnum, til viðbótar við stöðugleikaframlög slitabúanna, hafi lagt grunninn að sterkri efnahagsstöðu nú um stundir.
Kjararáð hefði átt að rökstyðja sína ákvörðun betur, og með öðrum hætti en léttvægum röksemdum og upptalningu á því hvernig laun ráðamanna hefðu verið lækkuð, eftir að Ísland þurfti að beita neyðarrétti til að bjarga efnahag landsins. Þá lækkaði öll þjóðin meira og minna í launum, flestir um miklu meira en ráðamenn.
Úrskurðurinn hjá kjararáði frá kjördeginum er nú orðinn að þrætuepli í komandi kjaraviðræðum, og mun gera þær erfiðari. Það blasir við.
Fyrst og fremst vegna þess að ekkert bendir til þess að innistæða hafi verið fyrir þessum hækkunum, einkum og sér í lagi ef ekki er hægt að færa viðlíka hækkanir til annarra stétta fljótt og vel.