Umfjöllun Kastljóss um fyrirtækið Brúnegg hefur eðlilega vakið mikla athygli. Fyrir liggur að Brúnegg blekkti neytendur stórkostlega með því að nota merkingar á vörur sínar sem héldu því fram að eggjaframleiðsla fyrirtækisins væri vistvæn, að hænur þess væru „frjálsar“ og að þær fái ást og umhyggju. „Atlætið skilar sér í hollri og góðri afurð,“ sagði á heimasíðu Brúneggja áður en henni var lokað. Vegna þessa rukkaði fyrirtækið 40 prósent meira fyrir eggin. Það myndefni og þær upplýsingar sem komu fram í Kastljósinu sýndu annan veruleika.
Í umfjölluninni kom einnig fram að Matvælastofnun hafi í tæpan áratug haft upplýsingar um að Brúnegg uppfyllti ekki skilyrði sem sett voru fyrir því að merkja vörur sem vistvænar. Atvinnuvegaráðuneytið hafði líka þessar upplýsingar, en gerði ekkert með þær. Þrátt fyrir að stjórnvald og eftirlitsstofnun þess hefði upplýsingar um umfangsmiklar blekkingar gagnvart neytendum þá þótti ekkert tilefni til að upplýsa um þær.
Vitneskja um athæfi Brúneggja, og þöggun eftirlitsstofnunar og ráðuneytis um það, kom einungis fram vegna þess að fjölmiðill ýtti á að fá umræddar upplýsingar. Framan af var reynt af öllu afli að koma í veg fyrir það.
Í þessu dæmi endurspeglast ótrúlegt viðhorf íslenskrar stjórnsýslu gagnvart því að upplýsa almenning. Brúneggin eru nefnilega víða. Þótt að á Íslandi sé í gildi umfangsmikið regluverk sem krefjist eftirlits, og þótt við eyðum háum fjárhæðum í eftirlitsstofnanir, þá er það þannig að í mörgum tilfellum er eftirfylgni eftirlitsins lítil sem engin. Og í mörgum tilvikum fá stofnanir og/eða fyrirtæki einfaldlega að hafa eftirlit með sjálfum sér. Það sást til að mynda bersýnilega fyrir bankahrun, þegar risabankar gengu nánast sjálfala um íslenskt efnahagskerfi án þess að Fjármálaeftirlitið beitti sér af einhverju viti til að hemja stórhættulega, og oft á tíðum glæpsamlega, hegðun þeirra.
Erlendar eignir ráðamanna koma okkur ekki við
Ein af grunnforsendunum í ritstjórnarstefnu Kjarnans er að styðja við fréttaflutning okkar með vísun í staðreyndir. Blaðamenn okkar eru því stanslaust að reyna að nálgast upplýsingar og kalla eftir gögnum. Það er ótrúlegt hversu oft við komum að lokuðum dyrum. Hér á eftir koma nokkur dæmi.
Hinn 15. mars 2015, rúmu ári áður en Panamaskjölin voru opinberuð, sendi Kjarninn fyrirspurn til upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, eða fjölskyldur þeirra, eigi eignir erlendis. Í ljósi þess að fjármagnshöft voru í gildi í landinu, og ríkisstjórnin var að taka risastórar ákvarðanir varðandi losun hafta fannst okkur blasa við að þessar upplýsingar ættu erindi við almenning. Auk þess eiga kjósendur einnig rétt á því að vita hvort að ráðamennirnir sem skikka þá til að búa við rússibanareið íslensku krónunnar kjósi að búa í sama efnahagslega veruleika og við hin.
Fyrirspurnin var ítrekuð í nokkur skipti, eftir að eftirgrennslan ritstjórnar benti til þess að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands ættu hugsanlega eignir erlendis, sem hvergi hefði verið greint frá. Fyrirspurnir Kjarnans báru ekki árangur. Stjórnarráðið neitaði að svara þeim.
Í Panamaskjölunum var síðan opinberað að þrír ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hefðu átt aflandsfélög.
Leynd Seðlabankans
Seðlabanki Íslands er stofnun sem hefur gríðarleg áhrif á líf okkar allra. Á árunum eftir hrun hefur hann leikið lykilhlutverk í efnahagskerfinu með stefnumótun, og -framkvæmd, í átt að losun hafta, eftirliti og með ótrúlega umfangsmikilli eignasölu.
Bankinn stýrði t.d. fjárfestingaleiðinni svokölluðu, þar sem eigendur gjaldeyris gátu keypt íslenskar krónur með 23,6 prósent virðisaukningu. Þessar krónur var svo hægt að nota til að kaupa upp eignir á Íslandi. Samanlögð virðisaukning sem þessi sérvaldi hópur fékk fyrir að skipta útlenskum peningum í íslenska í gegnum Seðlabankann var 48,7 milljarðar króna. Alls nýttu 794 innlendir aðilar sér þessa leið. Sumir þeirra hafa hlotið refsidóma fyrir efnahagsbrot. Afslátturinn sem Íslendingarnir fengu á eignum sem þeir hafa keypt sér hérlendis umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarða króna.
Seðlabankinn neitar að upplýsa um hverjir það voru sem komu með peninga inn í landið í gegnum þessa leið.
Kjarninn greindi frá því í voru að félög sem Jón Ásgeir Jóhannesson, dæmdur hvítflibbaafbrotamaður sem hefur einungis greitt brotabrot af þeim skuldum sem félög hans söfnuðu upp fyrir hrunið, hafi gert samkomulag við slitastjórn Glitnis. Í því skuldauppgjöri var panömsku félagi, stýrðu af Jóni Ásgeiri og eiginkonu hans, veitt heimild frá Seðlabanka Íslands til að greiða hluta af skuldum félaga sem Jón Ásgeir stýrði með skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði. Panamska félagið, Guru Invest, fékk fullt verð fyrir umrædd bréf í skuldauppgjörinu. Með skuldauppgjörinu var komið í veg fyrir að hægt væri að setja hin skuldugu félög í þrot og þar með skapaðist rými til að færa til eignir þeirra. Ekki er vitað til þess að nokkur annar erlendur aðili - því panamskt skattaskjólsfélag er sannarlega erlendur aðili – hafi fengið þessa þjónustu hjá Seðlabanka Íslands.
Ákvörðun um að heimila þessa notkun var tekin innan Seðlabankans. En Seðlabanki Íslands neitar að upplýsa um hver það var sem tók hana, hvaða rök hafi verið fyrir því að taka hana né hvort einhverjir aðrir hafi fengið sömu þjónustu.
Má ekki segja hverjir fá greitt
Í byrjun nóvember greindi Kjarninn frá því að Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ), eignarhaldsfélag sem heldur utan um mörg hundruð milljarða króna fullnustueignir Seðlabankans eftir hrunið, hefði greitt 885,4 milljónir króna fyrir veitta sérfræðiþjónustu á árunum 2013-2015. Þegar send var fyrirspurn um hverjir það voru sem fengu þessar greiðslur neitaði Seðlabankinn að svara því og bar fyrir sig þagnarskyldu. Félag í eigu Seðlabankans, sem hefur það hlutverk að selja eignir sem bankinn sat uppi með eftir hrunið, neitar að upplýsa um hverjum það er að borga fyrir sérfræðiþjónustu.
Við má bæta að ESÍ hefur ekki boðið út að minnsta kosti hluta þeirra verkefna sem sérfræðingar hafa sinnt fyrir félagið. Aðilar hafa verið handvaldir til að sinna þeim. Sömu sögu er að segja um ýmsar eignasölur. Þær hafa átt sér stað bak við luktar dyr og ekki hafa fengist upplýsingar um þær í gegnum árin.
Þá er ótalið að hvorki stjórnsýslan né Seðlabankinn hafa viljað opinbera gögn og upplýsingar um vinnu þeirra hópa sem unnu að losun hafta. Sú vinna, og það sem fór fram í henni, kemur okkur ekki við að þeirra mati.
Réttur almennings til að vita trompar rétt geranda til að leyna
Dæmin um það þegar stjórnvald stendur í vegi fyrir aðgengi fjölmiðla, og þar með almennings, að upplýsingum eru miklu fleiri. Og ómögulegt að fara yfir þau öll hér. En ofangreint sýnir okkur svart á hvítu hversu víðfeðmt vandamálið er. Það er einfaldlega innbyggt í stjórnkerfið okkar að flest sem þar er gert komi okkur ekki við.
Besta eftirlitið, og aðhaldið, er upplýsing. Ef þeir sem taka ákvarðanir fyrir hönd stjórnvalds vita að almenningur og fjölmiðlar munu geta grandskoðað þá ákvörðun þá vanda þeir sig betur. Ef fyrirtæki eins og Brúnegg vita að skýrslur Matvælastofnunar um neytendablekkingar þeirra verði samstundis opinber gögn þá myndi þeim ekki detta í hug að reyna slíkar blekkingar.
Ný ríkisstjórn, hver svo sem mun skipa hana, ætti að gera það að sínu fyrsta verki að tryggja algjört aðgengi að öllum upplýsingum sem varða almannahag og ógna ekki öryggi ríkisins. Hún á að taka þá afstöðu í verki, sýna frumkvæði í birtingu gagna og beita sér markvisst fyrir því að réttur kjósenda og fjölmiðla til að fá að vita trompi alltaf rétt geranda til leyndar.
Og þá, kannski þá, mun traust milli almennings og stofnana samfélagsins aukast á ný.