Mikill stormur hefur geisað undanfarna daga vegna þess að opinberað var að nokkrir hæstaréttardómarar ættu hlutabréf. Aðallega hefur sú opinberun snúist um að Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, hafi erft hlutabréf eftir móður sína, selt þau hlutabréf og sett afrakstur þeirrar sölu í eignastýringu hjá Glitni banka. Upphaflega var því haldið fram að Markús hefði ekki tilkynnt um þessa eign sína með réttum hætti til nefndar um dómarastörf, líkt og lög gera ráð fyrir.
Það hefur nú verið slegið út af borðinu þar sem tilkynningar Markúsar til nefndarinnar fundust. Eftir stendur tvennt í málinu: gerir hlutabréfaeign Markúsar hann vanhæfan til að dæma í málum tengdum Glitni og bar honum að tilkynna um það þegar fjármunir í eignastýringu hjá Glitni voru fjárfestir í verðbréfasjóðum?
Hér varð víst hrun
Áður en komið er að efnisatriðum þessa máls er gott að spóla aðeins til baka og endurtaka oftast sögðu setningu síðustu átta ára; hér varð hrun. Í aðdraganda þess voru framkvæmdir gjörningar sem voru ekki framkvæmdir með samfélagslega hagsmuni að leiðarljósi, heldur persónulega. Þá þurfti að rannsaka, og eftir atvikum ákæra fyrir, svo ljóst lægi fyrir hvað mætti og hvað mætti ekki í íslensku samfélagi.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, lýsti þessari stöðu ágætlega í grein hér á Kjarnanum í byrjun apríl. Þar sagði hann meðal annars að mjög vafasamir starfshættir hafi viðgengist fyrir hrun. „Alvarleg lögbrot voru framin. Afleitir viðskiptahættir kostuðu gríðarlega fjármuni og mikla þjáningu. Stórkostleg markaðsmisnotkun átti sér stað. Trú á markaðshagkerfið og hið frjálsa framtak hefur beðið hnekki.“
Vegna þessa voru málin rannsökuð, ákært í sumum þeirra og bankamenn hafa hlotið þunga dóma í flestum þeim málum sem lokið er.
Það er flókið að ákæra ríka
Aðstæðurnar eru einstakar. Flest efnahagsbrotamálin eru af þeirri stærðargráðu að þau eiga sér ekki fordæmi. Aldrei áður hafði verið skrifuð mörg þúsund blaðsíðna rannsóknarskýrsla af nefnd sem sett var upp til að rannsaka þennan eina atburð, hrunið. Og aldrei áður hafði verið sett upp sérstakt embætti til að rannsaka, og eftir atvikum saksækja, fjölda mismunandi mála tengdum einum atburði.
En það var fleira sem var án hliðstæðu. Til dæmis voru þeir aðilar sem nú settust á sakamannabekk margir vel menntaðir, sumir ágætlega gefnir og nær allir moldríkir. Þeir voru ekkert líkir hefðbundnum glæpamönnum sem við höfum vanist að sé refsað. Sjaldan áður hafði íslenskt dómskerfi, sem er viðkvæmt sökum smæðar landsins og nálægðar innan samfélagsins, tekist á við þannig fólk. Þeir sem til þekktu erlendis frá vöruðu við því að ákæruvaldið og dómstólarnir þyrftu að eiga von á viðspyrnu sem yrði mun öflugri en allt annað sem stofnanirnar hefðu upplifað áður. Þeir höfðu rétt fyrir sér.
Gefum Páli aftur orðið. Í grein sinni í apríl skrifaði hann líka um að traustið í samfélaginu væri horfið og sagði: „Hrunið fellur ekki svo glatt í gleymskunnar dá. Þær efnahagslegu hremmingar sem þjóðin gekk í gegnum voru svo gríðarlegar að þær munu lifa í huga fólks um ókomin ár [...]Umræða um þá dóma sem fallið hafa í málum tengdum hruninu einkennist af harðri gagnrýni á ákæruvaldið og dómstóla af hálfu þeirra sem hafa verið sakfelldir. Fæstir, ef nokkrir, virðast telja sig hafa gert nokkuð rangt.“
Sparkað í stoðir íslensks réttarkerfis
Sú umræða sem hefur fylgt ákærum í hrunmálum hefur verið óvægin. Í henni hefur hópur lögmanna, almannatengsla og annarra sem starfa fyrir dæmda bankamenn eða þá sem sitja enn á sakamannabekk einsett sér að sparka í stoðir íslensks réttarríkis í þeirri von að það hrikti nægilega mikið í þeim svo hinir dæmdu fái uppreist æru og þeir sem eru enn í ákæruferli sleppi við það ömurlega hlutskipti að vera refsað.
Valdir fjölmiðlar hafa tekið virkan þátt í þessum aðförum. Sérstaklega þeir sem eru reknir fyrir fjármagn frá aðilum sem eru andlag hrunmála. Fréttir sem skrifaðar hafa verið hjá þessum einkafjölmiðlum til höfuðs sérstökum saksóknara, nafngreindum héraðdómsdómara og nú Hæstarétti bera þess mjög skýrt merki að tilgangurinn sé ekki að upplýsa lesendur, heldur að afvegaleiða þá grímulaust að þeirri hugmynd að réttarkerfið sé rotið og hafi brotið gróflega á mannréttindum manna sem dæmdir hafa verið sekir. Til að botna frægt niðurlag þá hafa fjölmiðlarnir sannarlega tekið við.
Til viðbótar hafa verið settar upp allskyns vefsíður – sumar hlægilega lélegar – sem hafa þann eina tilgang að dreifa út einhliða áróðri sem passar við hagsmuni þeirra sem borga fyrir. Fólk í innsta kjarna hinna dæmdu brotamanna hefur síðan verið duglegt að skrifa greinar til að styðja við þetta allt saman. Áhersla er lögð á að treysta því að lesendur þekki ekki málin vel heldur taki yfirborðskennda afstöðu til þeirra sem falli að tilgangi áróðursins.
Kostnaðurinn við þessa atlögu að íslensku réttarkerfi hleypur á hundruðum milljóna króna. En það er ekki vandamál þegar vasarnir sem borga eru botnlausir.
Þótt að upplýsingar um hlutabréfaeign dómara hafi átt fullt erindi við almenning, og þar af leiðandi hafi verið eðlilegt að þeir fjölmiðlar sem fengu gögnin hafi fjallað um þau, þá er líka ljóst að upplýsingunum var lekið til að hafa áhrif á störf dómara, skapa tortryggni um störf þeirra og trufla meðferð mála. Tímasetningin er ekki tilviljun heldur skipulögð. Gögnin hafa verið lengi í umferð og voru meðal annars boðin til sölu í fyrrasumar.
Og þessi atlaga er að virka. Hinir djúpu vasar dæmdra manna eru að vinna. Vantraustið á dómskerfið er að aukast. Traustið fór til að mynda úr 43 prósentum í fyrra í 32 prósent í ár. Traust á dómskerfið hefur reyndar áður farið niður í svipaðar tölur. Það var á hápunkti síðasta góðæris og í kjölfar Baugsmálsins, þar sem lögfræðingum, almannatenglum og fjölmiðlum var líka beitt miskunnarlaust fyrir þá sem þar sátu á sakamannabekk.
Yfirstéttin líka sek um að skapa vantraust
Þótt að það sé ömurlegt að þessi niðurrifsherferð dæmdra glæpamanna, sem ollu gríðarlegum samfélagslegum skaða, sé að draga niður dómskerfið er ekki þar með sagt að innan þess sé ekki pottur brotinn. Og að ábyrgðin á traustleysinu liggi ekki víðar. Fréttir síðustu daga varpa skýru ljósi á margt sem þar er að.
Það virðist liggja fyrir að hæstaréttardómarar mega eiga hlutabréf. Það liggur fyrir að það eru reglur til staðar um hvernig þeir eiga að tilkynna um þá eign og það liggur fyrir að Markús Sigurbjörnsson fylgdi þeim reglum. Þótt að reynt hafi verið að láta að því liggja í skökkum fréttaflutningi að Markús hafi tapað stórfé á hlutabréfunum sem hann erfði eftir móður sína þá er það fjarstæðukennd túlkun. Maðurinn mokgræddi á þessum arfi í ljósi þeirra hækkana sem urðu á bréfunum á meðan að hann átti þau.
En það liggur líka fyrir að hroki yfirstéttar íslenskra dómstóla hefur lagt sitt að mörkum til að draga úr trúverðugleika kerfisins. Reglur um hagsmunaskráningu dómara eru svo óljósar að óumflýjanlegt er að þær leiði til vantrausts almennings, sérstaklega þar sem nefndin sem á að sjá um framfylgd þeirra virðist hvorki ráða við að halda utan um tilkynningar né vera með skýra afstöðu gagnvart því hvað þarf að tilkynna og hvað ekki. Ótrúlegt er að ekki hafi átt sér stað umræða innan Hæstaréttar um hæfi dómara til að taka á þessum hrunmálum áður en að þau komu fyrir réttinn, í ljósi þess að um fordæmalaus mál var að ræða og ákaflega nauðsynlegt var samfélagslega að niðurstaða þeirra yrði hafin yfir allan vafa.
Sú umræða átti sér ekki stað og þess vegna sitjum við uppi með það að trúverðugleiki Hæstaréttar, trúverðugleiki dóma í hrunmálum og trúverðugleiki Markúsar Sigurbjörnssonar til að dæma í fleiri slíkum málum hefur beðið hnekki.
Tvö lið kallast á um hæfi
Að því sögðu þá treysti ég mér ekki til að skera úr um hæfi Markúsar Sigurbjörnssonar, eða annarra dómara sem átt hafa hlutabréf, til að dæma í málum sem snerta banka eða fyrrverandi starfsmenn hans út frá þeim reglum sem eru til staðar. Skoðanir Ragnars H. Hall (Fyrrverandi verjandi Ólafs Ólafssonar sem Hæstiréttur dæmdi í réttarfarssekt og áður meðeigandi á lögmannsstofunni sem hagnast mest á því að verja sakborninga í hrunmálum) og Jóns Steinars Gunnlaugssonar (sem vann m.a. greinargerð fyrir Ólaf Ólafsson þar sem Al Thani-dómurinn var rengdur og er sérstakur áhugamaður um að þola ekki Markús Sigurbjörnsson) um vanhæfi hans hjálpa mér ekkert nær slíkri niðurstöðu. Það gera skoðanir Sigurðar Tómasar Magnússonar (sem var settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu og ráðgjafi sérstaks saksóknara) eða Skúla Magnússonar, formanns Dómarafélags Íslands, um hæfi Markúsar ekki heldur. Þar eru tvö lið innan lögfræði- og dómarastéttarinnar að kallast á. Aðrir innan stéttanna stilla sér upp með öðru hvoru liðinu. Á milli stendur almenningur og klórar sér í hausnum.
Fyrir liggur þó að það er galið að dómurum sé í sjálfsvald sett að ákveða hæfi sitt í viðkvæmu, brothættu örsamfélagi eins og því íslenska þar sem tengslin eru svo mikil að fundið var upp smáforrit (e. app) til að koma í veg fyrir að blóðsystkin hefðu óvart mök. Og þær reglur sem þó til eru um hagsmunaskráningu dómara eru afleitar, allt of takmarkaðar og ekki til þess fallnar að skapa traust.
Okkar ógeðslega þjóðfélag
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins sem þekkir innviði íslenskrar leyndarhyggju frá fyrstu hendi, sagði fyrir rannsóknarnefnd Alþingis haustið 2009: „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“
Orð Styrmis hitta beint í mark. Og þetta ógeðslega þjóðfélag opinberast mjög í þeirri aðför að réttarríkinu sem fámennur en moldríkur hópur dæmdra manna stendur nú fyrir sökum eigin hagsmuna. Við því er lítið annað að gera en að taka á móti þegar við á og opinbera aðfarirnar fyrir það sem þær eru.
En það opinberast líka í hroka yfirstéttarinnar í íslensku dómstólakerfi sem neitar að stíga nægjanlega stór skref til að tryggja að það njóti nægjanlegs trausts. Það opinberaðist í Wintris-málinu þegar forsætisráðherra þjóðarinnar taldi að það kæmi engum við að hann ætti milljarða í aflandsfélagi eða væri kröfuhafi í bú bankanna. Það opinberast í afstöðu Seðlabankans og stjórnarráðsins gagnvart kröfum um gagnsæi aðgerða þeirra og það opinberast í því að eftirlitsstofnanir á borð við Matvælastofnun komist að því að eggjaframleiðendur séu að blekkja neytendur stórkostlega en ákveði að segja engum frá því árum saman.
Það hefur ríkt nær algjört vantraust á allar mikilvægustu stofnanir samfélagsins eftir hrunið. Ekkert sem hefur verið gert síðan þá hefur lagað þá stöðu. Samkvæmt síðustu mælingum treysta 17 prósent landsmanna Alþingi, 32 prósent dómskerfinu, ellefu prósent fjölmiðlum og 6,6 prósent bankakerfinu.
Líkt og forseti lýðveldisins, Guðni Th. Jóhannesson, sagði við þingsetningu í vikunni þá er endurheimt trausts á Íslandi í senn möguleg og brýn. Það þurfa allir að taka þau skilaboð til sín. Dómskerfið, fjölmiðlar, stjórnmálin og atvinnulífið. Það eina sem skapar traust í þjóðfélagi eins og okkar er opin stjórnsýsla og fullkomið gagnsæi hjá öllum helstu stofnunum landsins. Það þarf að afnema leyndarhyggjuna sem er svo inngróin í íslenskt valdakerfi og heimilar þjóðfélaginu okkar að vera svona ógeðslegt.
Við þurfum að breyta þessu fljótt, áður en að það verður of seint. Það vinnur nefnilega enginn í svona aðstæðum til langs tíma, þótt þeir sem berji nú á stoðum réttarkerfisins upplifi skammtímasigra. Ónýtt kerfi er tap okkar allra.