Svo virðist sem flokkarnir fimm, sem hafa nú lokið tveimur umræðulotum um myndun ríkisstjórnar, telji sig alla hafa fengið mikið út úr viðræðunum. Það sama verður ekki sagt um almenning, sem bíður enn á hliðarlínunni eftir ríkisstjórn.
Af þeim viðræðulotum sem þegar hafa átt sér stað er þetta sú sem var með fyrirsjáanlegustu niðurstöðuna. Flokkarnir fimm höfðu áður reynt að ná saman og þá kom skýrt fram hjá lykilfólki innan bæði Viðreisnar og Vinstri grænna að nær engar líkur væru á því að nást myndi saman.
Viðreisn, Björt framtíð, Samfylking og Píratar ákváðu síðan að hefja óformlegar viðræður til að mynda mótvægi við það ástand sem skapaðist þegar Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur ræddu stuttlega saman fyrr í þessum mánuði. Tilgangurinn var að stilla Vinstri grænum upp við vegg með skýra valkosti fyrir framan sig: annað hvort umbótastjórn eða íhaldsstjórn.
Þegar upp úr viðræðum Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks slitnaði fengu Píratar stjórnarmyndunarumboð, sem var nokkuð óvænt, og reynt var aftur við fimm flokka stjórn frá miðju til vinstri.
Leikur um hver sæti uppi með sökina
Kjarninn greindi frá því á fimmtudag í síðustu viku að það væru engar líkur á því að flokkarnir fimm myndu hefja formlegar viðræður um myndun ríkisstjórnar. Ástæðan væri sú að mjög langt væri á milli andstæðra póla, sérstaklega Viðreisnar og Vinstri grænna, um hvernig ætti að haga tekjuöflun og hvernig ætti að taka á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Viðmælendur Kjarnans innan Vinstri grænna og miðjubandalags Viðreisnar og Bjartrar framtíðar töldu þá þegar afar ólíklegt, og nánast útilokað, að formlegar viðræður verði teknar upp.
Yfirlýsingar Pírata um að 90 prósent líkur væru á því að nást myndi að mynda regnbogaríkisstjórnina, og skömmu síðar um að ekki væri annað sjáanlegt að myndun hennar myndi ganga, fór ekki vel í marga innan Vinstri grænna. Samstaða hafði náðst hjá flokkunum fjórum á miðjunni í mörgum lykilmálum og því fannst eina vinstriflokknum í samræðunum eins og verið væri að stilla þeim upp til að berar sökina þegar viðræðunum yrði slitið.
Þegar tilkynningar fóru að berast um helgina að þingflokkar Pírata og Samfylkingar hefðu samþykkt að hefja formlegar viðræður ágerðist þessi tilfinning, í ljósi þess að Vinstri græn voru alls ekki á sama stað. Yfirlýsingar Bjartrar Ólafsdóttur, þingkonu Bjartrar framtíðar, í gærmorgun um að allir flokkarnir nema Vinstri græn væru „samstíga og framsýnir“ trufluðu líka mjög.
Viðræðunum var svo loks slitið í gær og mikil hjaðningavíg hófust á samfélagsmiðlum þar sem Vinstri græn virtust hafa tapað í stólaleiknum. Þeim var kennt um hvernig fór. Síðast hélt Viðreisn á þeim kaleik og þar áður var búr Óttarrs Proppé hrist vegna þátttöku hans flokks með því að reyna að mynda ríkisstjórn með frændunum Benedikt Jóhannessyni og Bjarna Benediktssyni. Á meðan sitja flokkarnir sem kunna þann leik að komast að völdum best rólegir á hliðarlínunni, borða harðfisk og horfa á andstæðinga sína tortíma sér innan frá.
Ein meirihlutastjórn á borðinu
Staðan nú er þannig að einungis ein meirihlutastjórn virðist vera möguleg, stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Flokkarnir þrír eru þegar búnir að ræða sig niður á niðurstöðu í tvígang, en í bæði skiptin hefur Sjálfstæðisflokkurinn hætt við á síðustu stundu. Opinberlega hefur það verið gert með vísun til þess að meirihlutinn – einn þingmaður – sé ekki nægur til að takast á við þær erfiðu áskoranir sem eru fram undan á Íslandi, sérstaklega á vinnumarkaði og í hagstjórninni. Samkvæmt einkasamtölum er þó ljóst að þetta snýst líka um fisk, Evrópusamband og óþol ákveðinna afla innan Sjálfstæðisflokksins gagnvart Viðreisn, sem litið er á sem svikara.
Þegar síðasta umræðulota flokkanna þriggja fór fram í lok nóvember töldu margir innan frjálslynda miðjubandalagsins að niðurstaða hefði legið fyrir sem allir gátu sætt sig við. Búist var við því að það yrði jafnvel gert formlegt mánudaginn 28. nóvember. Þess í stað bauð Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokknum, Viðreisn að koma í ríkisstjórn með sér og Framsóknarflokknum. Því tilboði var hafnað. Á sama tíma var Bjartri framtíð gert tilboð um að slíta samstarfi sínu við Viðreisn og reyna að mynda ríkisstjórn með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki. Því tilboði var líka hafnað.
Bjarni endurtók þó vilja sinn til að reyna á ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð þegar hann mætti á fund formanna stjórnmálaflokka fyrir átta dögum síðan. Sé sá vilji raunverulegur reynir á hvort að sjálfsvirðing hinna flokkanna leyfi einn dans í viðbót við Bjarna og Sjálfstæðisflokkinn.
Íhaldsstjórnin verður aldrei að veruleika
Draumur íhaldsmanna um þriggja flokka stjórn Sjálfstæðismanna, Framsóknarflokks og Vinstri grænna er ekki að fara að verða að veruleika. Fyrir því eru tvær mjög skýrar ástæður. Ef Vinstri græn náðu ekki saman við miðjuflokkanna fjóra um ríkisfjármál vegna þess að hækka þyrfti skatta of mikið, þá eru þau alls ekki að fara að ná saman við Sjálfstæðisflokkinn um slíkar hækkanir. Þar fer flokkur sem vill mun frekar lækka skatta.
Hin ástæðan er sú að það yrði pólitískur koss dauðans fyrir Vinstri græn í þéttbýli, og fyrir Katrínu Jakobsdóttur sem stjórnmálamann, að verða þriðja hjólið undir vagninum hjá þeirri feikilega umdeildu og óvinsælu ríkisstjórn sem sat á síðasta kjörtímabili. Þetta veit lykilfólk í Vinstri grænum mæta vel. Þéttbýlisfylgið er sótt til fólks sem dregst að flokknum vegna róttækni og vonar um umbætur, ekki vegna þess að það taldi sig vera að kjósa kerfisvarnarflokk.
Þetta má raunar segja um alla flokka. Það er enginn þeirra að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki sama hvað hinir frekustu kvarta yfir þeirri afstöðu. Líklega er engin ákvörðun í íslenskum stjórnmálum jafn óhagganleg. Auk þess hræðast allir ástandið innan Framsóknarflokksins, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er einangraður sem stendur en virðist ætla sér forystuhlutverk í flokknum að nýju. Í ljósi þess að hann er mjög óvenjulegur stjórnmálamaður, sem hefur áður náð að storka hinu mögulega, þá er alls ekki loku fyrir það skotið að honum takist það markmið sitt. Og þá vill enginn flokkur vera búinn að læsa sig inni í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum.
Hvað nú?
Forseti Ísland segir stöðuna sem sé uppi vera alvarlega og hvetur stjórnmálamenn til að skoða minnihlutastjórnir. Í ljósi þeirra verkefna sem fram undan eru þegar hagsveiflutoppnum lýkur, og okkar hefðbundni niðurtúr verðbólgu, gengis- og kaupmáttarlækkunar fer af stað, þá verður að teljast líklegt að slík lausn yrði einungis til skamms tíma og að kosið yrði aftur innan skamms.
Verði það niðurstaðan, hvað tökum við þá út úr öllu þessu brölti? Hverju skiluðu fjölmennustu mótmælum Íslandssögunnar sem knúðu á kosningar sem leiddu til fjölbreyttasta Alþingi þar sem mismunandi áherslur sífellt ólíkari þjóðar endurspeglast betur en nokkru sinni áður?
Ekkert sérstaklega miklu. Traust á stjórnmál er enn þá afleitt og frammistaða stjórnmálamannanna á síðustu vikum hefur ekki gert neitt að auka það. Alls óvíst er að nýjar kosningar geri það heldur.
Það má stilla stöðunni í íslenskum stjórnmálum þannig upp að á öðrum kantinum séu fjórir miðjuflokkar sem eru með umbætur og breytingar á stefnuskránni. Þessir flokkar sækja styrk sinn helst í þéttbýli. Þeir fengu 37,9 prósent fylgi í síðustu kosningum. Hinum megin íhaldsblokk Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokks um að mestu óbreytt stjórnkerfi sem fékk 41,9 prósent atkvæða. Á milli eru svo Vinstri græn með sín 15,9 prósent sem er blanda af báðu. Flokkur sem spilar á íhaldsstrengi og litlar breytingar fyrir landsbyggðarfylgjendur sína, en á róttækni og umbætur í höfuðborginni.
Eitthvað segir manni að nýjar kosningar muni ekki breyta þessum valdahlutföllum að neinu ráði. Fólk sem kýs miðjuflokkanna er ólíklegt að fara yfir til íhaldsblokkarinnar, og öfugt. Eina sem gæti virkilega breyst er að forystu Framsóknarflokksins tækist að losna við Sigmund Davíð til að gera sig stjórntækan á ný. Þá stendur bara eftir hvað óumflýjanlegu sérframboði hans tækist að ná í mikið fylgi.