Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var pirraður, nánast reiður, þegar hann var beðinn um að útskýra í sjónvarpsviðtali af hverju hann hefði ekki birt skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum þegar henni hafði verið skilað. Hann sagði af og frá að skýrslunni hefði verið haldið leyndri. Allt slíkt tal væri „þvættingur, fyrirsláttur og ekkert nema pólitík.“
Bjarni sagði einnig að ekkert í skýrslunni væri þess eðlis að nauðsynlegt hefði verið að það kæmi fram nokkrum vikum fyrr. Aðspurður um af hverju skýrslan hafi ekki verið birt þegar hún lá fyrir sagði Bjarni að hann hafi ákveðið að bíða fram yfir kosningar með birtingu hennar svo að ný ríkisstjórn og ný efnahags- og viðskiptanefnd gæti tekið hana til umfjöllunar: „Skýrslan er ekki komin til okkar, í endanlegri mynd, fyrr en þing er farið heim.“
Þingi var slitið 13. október 2016. Skýrslu starfshópsins var skilað til fjármála- og efnahagsráðuneytisins 13. september, einum mánuði fyrr, og hún kynnt sérstaklega fyrir Bjarna 5. október. Efnahags- og viðskiptanefnd fundaði fjórum sinnum frá þeim tíma og fram að þinglokum. Þetta eru staðreyndir.
Þegar þær lágu fyrir opinberlega viðurkenndi Bjarni að tímalínan hans hefði verið ónákvæm. Honum hafi liðið eins og þingið hefði verið farið heim þegar hann fékk kynningu á skýrslunni, átta dögum áður en að það fór heim. Hann baðst því afsökunar á því að tímalínan hans hefði ekki verið nákvæm. Bjarni baðst hins vegar ekki afsökunar á því að hafa ekki birt skýrsluna þegar hún kom út né á því að hafa logið í viðtali um hvenær hann hefði fengið hana afhenta.
Hvað á erindi við almenning?
Það er rétt sem Bjarni hefur haldið fram, að skýrslan var unnin að hans frumkvæði. Og það er líka rétt að fáir, ef einhverjir ráðherrar hafi beitt sér jafn mikið gegn skattaundanskotum og hann hefur gert á undanförnum árum. Hluti af þeirri ástæðu er sú að íslenskt lagaumhverfi beinlínis heimilaði skattasniðgöngu og bauð upp á umfangsmikil skattsvik. Til viðbótar hefur stjórnsýslan verið svo slök að engum almennilegum gögnum hefur verið safnað saman um skattsvik. Mikil bragabót hefur verið gerð á þessu umhverfi á allra síðustu misserum, meðal annars í kjölfar þess að forsætisráðherra þurfti að segja af sér vegna eignar sinnar á aflandsfélagi. Og þar hefur Bjarni beitt sér.
En það breytir ekki þeirri staðreynd að Bjarni á ekki umrædda skýrslu persónulega og hún var ekki unnin fyrir hann, heldur vinnuveitendur hans, almenning. Það var ekki Bjarna að velja hvenær skýrslan kæmi fyrir augu hans. Það er meðal annars staðfest í siðareglum ráðherra þar sem segir: „Ráðherra leynir ekki upplýsingum sem varða almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjist þess að öðru leyti. Ráðherra ber að hafa frumkvæði að birtingu slíkra upplýsinga sé hún í almannaþágu.“
Svo er það túlkunum undirorpið hvort þær upplýsingar sem eru í skýrslunni séu í almannaþágu. Bjarni sjálfur sagðist ekki sjá að það „sé neitt í þessari skýrslu sem hægt er að benda á að hefði nauðsynlega þurft að koma fram einhverjum vikum fyrr.“ Þessu er mjög auðvelt að vera ósammála.
Í skýrslunni er, í fyrsta sinn, greint af sérfræðingum hvert umfang aflandseigna Íslendinga er. Það er greint, í fyrsta sinn, hvert áætlað tap ríkissjóðs á þeim ólöglegu skattaundanskotum, og löglegu skattasniðgöngu sem fyrirhrunsríkisstjórnir lögleiddu, er. Því eru upplýsingarnar einstakar, mynda grundvöll fyrir vitræna umræðu um gríðarlega alvarlegt mál sem klýfur þjóðina í herðar niður og er líkast til helsta orsök þess vantrausts sem ríkir gagnvart helstu stofnunum landsins. Þ.e. að lítil yfirstétt hafi hagnast ævintýralega vegna aðgengis síns að tækifærum, upplýsingum og fjármagni annarra, feli hluta þess fjármagns (um 580 milljarða króna) í aflandsfélögum og komi sér viljandi undan því að borga skatta til samneyslunnar (56 milljarðar króna frá 2006-2014 og nokkrir milljarðar bætast við á hverju ári).
Líkt og Bjarni hefur bent á var töluvert rætt um aflandsfélög í aðdraganda kosninga. En sú umræða byggði ekki á neinu nema tilfinningu og upphrópunum, m.a. vegna þess að Bjarni ákvað að birta ekki skýrsluna sem gat verið grunnurinn að efnislegri umræðu fyrr en síðastliðinn föstudag.
Forsætisráðherra má ekki ljúga
Það er hrokafullt og ómálefnalegt hjá Bjarna að stilla því upp að umræða um aflandseignaskýrsluna snúist um að pólitískir andstæðingar séu að gera sér mat úr málinu. Það er eðlilegt að fjölmiðlar fjalli um bæði formið og efnið í máli eins og þessu. Enn og aftur hafa þeir sýnt mikilvægi aðhaldshlutverks síns með því að opinbera hvenær skýrslan hafi verið tilbúin, hvenær Bjarni fékk kynningu á henni og hvað stóðst ekki í upphaflegum skýringum hans. Til viðbótar hefur verið fjallað ítarlega um innihaldið, enda loksins kominn grunnur til að fjalla um þessi mál efnislega.
Eina sem er þvættingur, fyrirsláttur og pólitík í þessum máli eru þær skýringar sem verðandi forsætisráðherra hefur borið á borð í málinu. Það er ekki hægt að slá því föstu að Bjarni hafi ætlað sér að fela skýrsluna í pólitískum tilgangi. Það er heldur ekki hægt að draga neinar vitrænar ályktanir um hvort og þá hvaða áhrif birting skýrslunnar hefði haft á útkomu kosninganna 29. október. En það er hægt að fullyrða að skýrslan á brýnt erindi við almenning og að Bjarni Benediktsson laug um hvenær hann hafi fengið hana í hendur.
Málið hefði líklega ekki getað komið upp á erfiðari tíma fyrir þá ríkisstjórn sem nú hefur verið mynduð. Viðreisn og Björt framtíð keyrðu að hluta til sína kosningabaráttu á siðvæðingu, gegnsæi og breyttum vinnubrögðum. Í grunnstefnu Viðreisnar segir t.d.: „Opin, upplýst og málefnaleg umræða er nauðsynleg til að unnt sé að taka réttar ákvarðanir. Greiður aðgangur að upplýsingum er forsenda þekkingar. Upplýsingaskyldu opinberra aðila gagnvart almenningi ber að efla.“ Í stefnu Bjartrar framtíðar segir: „Tölum saman, segjum satt. [...]Upplýsingar eru gull. Björt framtíð þorir að leiða hin stærstu og erfiðustu deilumál til lykta með gögnum, rannsóknum, opnu samtali og lýðræðislegum aðferðum.“ Augljóst er að athæfi Bjarna, að halda upplýsingum fá almenningi og segja síðan ósatt um það, er í algjörri andstöðu við það sem verðandi samstarfsflokkar telja sem sín grunngildi. Formaður Bjartrar framtíðar viðurkennir enda að það hefði verið skemmtilegra ef Bjarni hefði skilað skýrslunni á réttum tíma og formanni Viðreisnar finnst Bjarni hafa sýnt af sér klaufaskap og slaka dómgreind, en efast um ásetning.
Hver og einn verður að meta hvað honum finnst um þær skýringar. En eitt er á hreinu. Bjarni Benediktsson er að verða næsti forsætisráðherra Íslands. Sem slíkur verður hann að vera forsætisráðherra allra Íslendinga, ekki bara þeirra sem kusu hann. Og forsætisráðherrar eiga ekki að ljúga.