Borgun er íslenskt færsluhirðingarfyrirtæki sem hefur aukið umsvif sín alþjóðlega á undanförnum árum. Sá vöxtur hefur helst verið í Bretlandi, Ungverjalandi og Tékklandi. Nú hefur komið í ljós, samkvæmt upplýsingum Kjarnans, að vöxturinn er meðal annars fólgin í því að Borgun hefur verið í viðskiptasambandi við fyrirtæki sem selja klám, fjárhættuspil og lyf á netinu. Um er að ræða viðskiptavini sem flest önnur færsluhirðingarfyrirtæki hafa ekki viljað vera í viðskiptum við.
Valitor, hitt stóra færsluhirðingarfyrirtæki landsins, átti í sambærilegu viðskiptasambandi við erlenda klámvefi á árum áður. Öryggisráð Feministafélags Íslands kærði forstjóra og stjórn fyrirtækisins vegna þessa til lögreglu árið 2007. Valitor hætti viðskiptunum síðar og setti sér sérstakar viðskiptasiðareglur árið 2011 sem hafa að geyma siðferðisgildi og siðareglur. Í stjórnháttaryfirlýsingu Valitor er einnig kafli um gildi fyrirtækisins og samfélagslega ábyrgð. Þar segir að „dýrmætasta eign fjármálafyrirtækja er traust og trúverðugleiki sem aftur ræðst af siðferði starfsmanna þeirra. Valitor hf. leggur áherslu á að tryggja traust og trúverðugleika félagsins og starfsmanna þess gagnvart hluthöfum, viðskiptavinum og samfélaginu.“ Í viðskiptaskilmálum Valitor segir enn fremur að söluaðila sé „óheimilt að móttaka kort sem greiðslu fyrir klám, vændi, eiturlyf, eða hvers konar ólöglega starfsemi.“
En Borgun hefur ekki vílað fyrir sér að taka að sér þannig viðskipti. Og Borgun er í 63,5 prósent eigu Íslandsbanka sem er í 100 prósent eigu íslenska ríkisins. Íslandsbanki hagnaðist um 20,2 milljarða króna í fyrra. Af þeirri upphæð var 6,2 milljarðar króna vegna söluhagnaðar Borgunar vegna sölu á Visa Europe. Auk þess hefur bankinn fengið samtals 4,9 milljarða króna í arðgreiðslur frá Borgun á þremur árum og hluti af markaðsvirði Íslandsbanka er vegna Borgunar. Í tilkynningu frá Borgun vegna arðgreiðslu sem er fyrirhuguð á þessu ári sagði: „hagnaður af reglulegri starfsemi reyndist rúmlega 1,6 milljarður króna.“ Þar er fyrst og síðast um vöxt á erlendum mörkuðum að ræða. Vöxt sem er meðal annars vegna færsluhirðingar vegna sölu á klámi, veðlánastarfsemi eða sölu á lyfjum á netinu.
Grunur um saknæmt athæfi
Á föstudaginn var greint frá því að Fjármálaeftirlitið hefði komist að þeirri niðurstöðu, eftir athugun sem stóð í um níu mánuði, að framkvæmd, verklag og eftirlit Borgunar í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna færsluhirðingar félagsins erlendis uppfylli ekki með viðunandi hætti þær megin kröfur sem gerðar eru í lögum. Borgun voru gefnir tveir mánuðir til að ljúka úrbótum vegna athugasemda eftirlitsins.
Fjármálaeftirlitið kannaði 16 viðskiptamenn á alþjóðasviði Borgunar. Í tilviki 13 af 16 viðskiptamanna var ekki framkvæmd könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamennina samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Á meðan að á athugun Fjármálaeftirlitsins stóð sleit Borgun viðskiptasambandi við þrjá þessara viðskiptamanna. Auk þess gerði FME athugasemd við að í tilviki fimm af 16 viðskiptavina Borgunar sem voru kannaðir hafi Borgun ekki greitt fyrstu greiðslu á grundvelli samnings um færsluhirðingu inn á reikning viðskiptamannsins, eins og lög segja til um. „Í öllum tilvikum var um að ræða viðskiptamenn sem eru eingöngu í starfsemi erlendis og voru ekki á staðnum til að sanna deili á sér við upphaf viðskipta. Þá voru ekki fyrirliggjandi samningar um að Borgun hf. hefði útvistað framkvæmd áreiðanleikakannanna til þriðja aðila sem staddur væri á sama stað og viðskiptamaðurinn og þannig tryggt að viðskiptamaðurinn teldist vera á staðnum til að sanna á sér deili við framkvæmd áreiðanleikakönnunar.“
Málið er svo alvarlegt að því var á mánudag vísað til embættis héraðssaksóknara þar sem það er rannsakað vegna gruns um að saknæmt athæfi hafi átt sér stað. Saknæmt athæfi sem við liggur fangelsisrefsing.
Landsbankinn óttaðist um orðspor sitt
Annar ríkisbanki, Landsbankinn, hefur með réttu legið undir ámæli fyrir að hafa selt hlut sinn í Borgun bak við luktar dyr til hóps einkafjárfesta, sem tengjast meðal annars núverandi forsætisráðherra landsins fjölskylduböndum, á mjög lágu verði. Í nýlegri samantekt Kjarnans kemur fram að líklega hafi ríkisbankinn orðið af að minnsta kosti sex milljörðum króna vegna sölunnar.
Í janúar í fyrra birti Landsbankinn spurningar og svör um söluna á Borgun, sem hluta af málsvörn sinni gagnvart almenningi vegna málsins. Þar segir m.a. að Landsbankanum hafi verið kunnugt um „að Borgun hugðist auka verulega færsluhirðingu fyrir seljendur í erlendum netviðskiptum. Að mati bankans fylgdi þeirri starfsemi veruleg áhætta og líkur voru taldar á að hún gæti leitt til tjóns hjá félaginu og skaðað orðspor Landsbankans. Bankinn byggði þetta mat sitt m.a. á fyrri útrásarsögu íslenskra kortafyrirtækja.“
Sú orðsporsáhætta sem Landsbankinn taldi sig geta orðið fyrir var vegna þess að þeir viðskiptavinir sem Borgun hugðist sækja voru m.a. aðilar sem seldu aðgang að klámi, fjárhættuspilum eða lyfjum á netinu.
Það liggur því ljóst fyrir að vitneskja um þá markaði sem Borgun hugðist sækja á lá fyrir innan ríkisfyrirtækja í eigendahópi fyrirtækjanna fyrir nokkrum árum síðan.
Tvöfalt siðgæði
Borgun er dótturfélag Íslandsbanka. Þar sem ríkið á allt hlutafé í bankanum liggur ljóst fyrir að íslenska ríkið er að hagnast á því að færsluhirða fyrir aðila sem selja meðal annars klám. Samkvæmt 210. grein almennra hegningarlaga segir að það varði allt að sex mánaða fangelsi að birta klám hérlendis og sama refsing liggur við því að búa til klám. Íslenska ríkið er líka að hagnast á því að selja stoðþjónustu fyrir fjárhættuspil. Slík eru ólögleg á Íslandi, að undanskildum þeim fjárhættuspilum sem Háskóli Íslands, Rauði krossinn eða Íslensk Getspá standa fyrir. Og íslenska ríkið er að hagnast vegna þess að dótturfélag ríkisbanka er að taka á móti greiðslum vegna sölu lyfja á netinu. Það er auðvitað kolólöglegt hérlendis að selja lyf á netinu þar sem ríkar gæðakröfur eru gerðar til framleiðenda lyfja samkvæmt kröfum yfirvalda um neytendavernd.
Þannig að íslenska ríkið bannar alla þessa hluti. En finnst í lagi að hagnast á þeim í öðrum löndum. Það, vægast sagt, tvöfalt siðgæði í verki. Ráðamenn geta ekki skýlt sér á bak við það að um sé að ræða fyrirtæki í eigu fyrirtækis í eigu ríkisins. Ríkið er alltaf endanlegur eigandi. Og ber þar af leiðandi ábyrgð.