Að undanförnu hafa bæði RÚV og Stöð 2 fjallað ítarlega um fyrirhugaða stórfellda uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Þetta hefur verið góð umfjöllun, þar sem steinum er velt við og spurninga spurt. Það er mikilvægt að þeir sem eru í forsvari fyrir þessa uppbyggingu, bæði norsku fjárfestarnir, tengiliðir þeirra og innlendir fjárfestar, átti sig á hvaða hagsmunir eru þarna undir.
Hættulegt umhverfinu
Fiskeldi í sjó getur verið hættulegt umhverfinu eins og Landssamband veiðifélaga hefur bent á með skeleggum hætti á undanförnum mánuðum. Vonandi verður fullt tillit tekið til þeirra athugasemda sem hafa komið frá veiðiréttarhöfum og landeigendum, sem skiljanlega vilja ekki að íslensk náttúra njóti ekki vafans, þegar kemur að uppbyggingunni.
Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem talar máli fiskeldisuppbyggingarinnar, er líklegur til að hafa eyrun opin og vonandi taka fullt tillit til sjónarmiða landeigenda og veiðiréttarhafa. Hann hefur orð á sér fyrir heilindi og vonandi sýnir hann öllum sjónarmiðum skilning og virðingu.
En það sem er athyglisverðast við þessi mál er að stjórnvöld á Íslandi hafa ekki áttað sig á því til þessa, að starfsleyfin eru mikil verðmæti. Þau ganga kaupum og sölum fyrir mörg hundruð milljónir króna í alþjóðlegum heimi viðskipta. Á Íslandi voru þau gefin og erlendir fjárfestar hafa stokkið til. Þeir eru tilbúnir að verja þessa stöðu af alefli, eins og gefur að skilja.
Óþolandi vanhæfni
Þetta er á margan hátt óþolandi fyrir almenning í landinu og sýnir vanhæfni hjá hinu opinbera. Það á ekki að gefa verðmæti frá sér með þessum hætti og það er lágmarkaskrafa til stjórnvalda að búa yfir nægilegri þekkingu á hlutunum til að glöggva sig á því hvenær það eru mikil verðmæti til staðar og hvenær ekki.
Gott er að sjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, biðja menn um að stíga varlega til jarðar. En hún verður að gera betur og meira.
Til dæmis að gera fyrirtækjunum það ljóst, að ef það verður umhverfisslys - bara eitt - að þá missi fyrirtækin tafarlaust leyfin, pakki saman og hætti. Það er aðhald sem er eðlilegt, í ljósi þess að leyfin voru gefin og að miklir hagsmunir eru í húfi.
Makrílgjafirnar halda áfram
Í vikunni var svo tilkynnt um að stjórnvöld ætluðu sér að halda áfram að gefa frá sér þau gríðarlegu verðmæti sem felast í því að veiða makríl í íslenskri lögsögu, vinna hann og selja á erlenda markaði. Útflutningstekjur vegna makríls hafa numið á bilinu 13 til 20 milljörðum á ári síðasta tæpa áratuginn, og hafa útgerðarfyrirtæki grætt verulega á þessari tegund. Aflaheimildum í makríl er úthlutað á skip á grundvelli veiðireynslu áranna 2007, 2008 og 2009. Engin markaðsleið er sjáanleg en aukningin nemur um 20 þúsund tonnum, eða sem nemur um 13 prósentum milli ára.
Samkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu fengu skip HB-Granda úthlutað mestum heimildum í fyrra eða ríflega 19 þúsund tonnum sem munu þá aukast um nærri 2.500 tonnum í ár. Samherji fékk úthlutað ríflega 17 þúsund tonnum í fyrra og Síldarvinnslan, sem Samherji á stærsta hlutann í, rúmum 13 þúsund tonnum.
Saga makrílsins við Íslandsstrendur er stórmerkilegur kafli af hagsögu Íslands. Hann kom syndandi inn í lögsöguna svo til á sama tíma og fjármálakerfið hruni, neyðarlögum var beitt til að vernda efnahagslegt sjálfstæði landsins og síðan voru fjármagnshöft sett á í nóvember 2008, og gengi krónunnar stillt af á nýjum stað frá því áður. Nýr efnahagslegur veruleiki byrjaði að teiknast upp og úflutningshliðin tók að blómstra.
Merkileg hagsaga
Sjávarútvegurinn hóf þá sitt mesta blómaskeið í Íslandssögunni, og makríllinn var eins og peningaleg vítamínssprauta beint inn á reikningana hjá fyrirtækjunum, og eigendunum.
Einn hluti sögunnar er sá að stjórnmálamenn gjörsamlega brugðust og náðu ekki að vera með nægilega ígrundað skipulag tilbúið þegar að kom að þessari nýju tegund. Á meðan opinberir sjóðir sveitarfélaga og ríkisins stóðu herfilega og heimili á Íslandi upplifðu það sem stjórnmálamenn kölluðu forsendubrest, þá styrktist staða sjávarútvegsins verulega, dag frá degi.
Þessi verðmæti hafa verið gefin með úthlutun á grundvelli veiðireynslu sem er lítil er.
Talsmenn kvótakerfisins hafa fengið að þaga yfir grundvallaratriðinu í málinu. Sem er þessi spurning: Er heimild til að veiða makríl í íslenskri lögsögu verðmæt? Talsmenn kvótakerfisins ættu að svara þessari spurningu skýrt. Já, kvóti er verðmæti. Og það sama á viði um þá sem tala fyrir öðrum leiðum þegar kemur að skipulagi sjávarútvegsins. Enginn ætti að efast um að heimild til veiða er verðmæt.
Það er hægt að reikna út hvers virði aflaheimildirnar eru. Útflutningsverðmæti mælast í tugmilljörðum á ári.
Þá kemur næsta spurning: Á almenningur að fá eitthvað fyrir þessi verðmæti og hvernig er best að standa að því?
Mikilvægt er að hlusta ekkert á neinn áróður, t.d. um fjárfestingar, veiðigjöld og þess háttar. Það er önnur umræða, sem tengist ekki verðmætamatinu á aflaheimildinni í makríl sérstaklega.
Og það er líka mikilvægt að sjávarútvegurinn sé hafður með í þessari rökræðu svo allt sé skýrt. Þar hefur einfaldlega verið farið eftir þeim lögum og reglum sem stjórnmálamenn hafa mótað.
Spurningarnar eiga hins vegar rétt á sér.
Tvö skýr dæmi
Þorgerður Katrín er tiltölulega nýtekin við í embætti, og hefur sýnt úr hverju hún er gerð, og haldið vel á spilunum í krefjandi aðstæðum.
Viðreisn beitti ýmsum spilum til að komast til valda, meðal annars var tekist á um hvernig ætti að skipuleggja nýtingu auðlinda og hvernig mætti nýta markaðsleið til að tryggja að almenningur fengi eitthvað fyrir verðmæti sín. Þetta var alveg skýr málflutningur, sem er bundinn í stefnu flokksins og var áberandi í kosningabaráttunni. Ekkert sést ennþá í þessa stefnu og þegar kemur að makrílnum - þar sem er augljóst tækifæri til að innleiða breytingar - þá er allt óbreytt.
Þessi skýru dæmi um gjafir stjórnvalda á miklum verðmætum, annars vegar á leyfum til erlendra fjárfesta í fiskeldi og síðan á heimildum til að veiða makríl í íslenskri lögsögu, sýna að umræða um þessi mál hefur engu skilað til þessa. Það er langt í land.