Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Bjarni Benediktsson, þá fjármála- og efnahagsráðherra og nú forsætisráðherra þjóðarinnar, hafi brotið jafnréttislög þegar hann valdi karlmann sem starfaði í ráðuneytinu hans í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu opinberra fjármála í ágúst í fyrra. Kona sem taldi sig hæfari kærði skipunina og vísaði auk þess í að það hallaði á konur á meðal skrifstofustjóra ráðuneytisins. Ef jafnhæfir einstaklingar sækja um slíka stöðu ber, samkvæmt lögum, að skipa þann sem er af því kyni sem hallað er á. Það gerði Bjarni, sem tók bæði konuna sem kærði og þann sem var ráðinn í viðtal, ekki. Og braut þar af leiðandi lög.
Bjarni er ekki fyrsti ráðherrann til að brjóta lög. Ögmundur Jónasson gerði það þegar hann var innanríkisráðherra og skipaði sýslumann á Húsavík fyrir fimm árum síðan. Svandís Svavarsdóttir braut lög sem umhverfisráðherra þegar hún synjaði aðalskipulagi Flóahrepps staðfestingar. Og Jóhanna Sigurðardóttir, þá forsætisráðherra, braut gegn sama ákvæði jafnréttislaga og Bjarni gerði, þegar hún skipaði karl í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu og þróunar árið 2011.
Krafðist afsagnar Jóhönnu
Stöldrum aðeins við lögbrot Jóhönnu. Í kjölfar niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála var það mál tekið fyrir í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi. Málshefjandi var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sem þá sat í stjórnarandstöðu. Í ræðu Bjarna kom fram að þrátt fyrir skýringar forsætisráðuneytisins um að mat hafi farið fram á hæfni umsækjenda hafi kærunefndin komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðunin hafi verið röng og í bága við jafnréttislög. Alþekkt væri að Jóhanna hafi verið fremst í flokki þeirra sem annars vegar hefðu talað fyrir mikilvægi jafnréttislaga í landinu og því að þeim sé fylgt og svo hins vegar því að menn myndu axla pólitíska ábyrgð og að á þinginu ætti að setja strangari reglur um það hvernig mætti koma ábyrgð yfir ráðherra þegar þeir gerðust brotlegir í starfi.
Viðbrögð Jóhönnu við niðurstöðu kærunefndarinnar hafi hins vegar verið þannig að forsætisráðherrann þáverandi teldi þessar reglur ekki eina við um sig og sérstaklega ekki um þetta tilvik.
Síðan sagði Bjarni: „Staðreynd málsins er hins vegar sú að það blasir við allri þjóðinni að forsætisráðherra hlýtur að vera að íhuga afsögn vegna þessa máls og fyrstu viðbrögð hennar við niðurstöðu kærunefndarinnar ganga algerlega í berhögg við einn megintilgang þess frumvarps sem varð að jafnréttislögum fyrir fáum árum, t.d. um að úrskurðir kærunefndarinnar væru bindandi.
Nú ber ég það upp við hæstvirtan forsætisráðherra hvort hún sé ekki örugglega alvarlega að íhuga afsögn. Er það ekki eina leiðin fyrir ráðherrann til að standa undir þeim stóru orðum sem hafa fallið bæði um jafnréttislöggjöfina og um ráðherraábyrgð í gegnum árin? Hins vegar, sé hún ekki að fara að segja af sér, hvort ætlar hún að fara í dómsmál eða greiða skaðabætur vegna þessa máls?“
Jóhanna taldi engin efni til að segja af sér og að fyllilega faglega hefði verið staðið að ráðningunni, þrátt fyrir að hún hafi verið ólögleg. Sá sem kærði hafi verið metinn fimmti hæfastur og sá sem metinn var hæfastur hafi verið ráðinn. Það hefði hins vegar komið vel til greina að segja af sér ef hún hefði ráðið pólitískt í stöðuna, líkt og sjálfstæðismenn hefðu iðulega staðið fyrir. „Hvað hefðu menn sagt ef forsætisráðherra hefði skipað flokkssystur sína í þetta embætti sem var fimmta í röðinni í hæfnismati sérfróðra aðila sem fóru yfir þetta?“
Teitur Björn Einarsson, núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna, ver formann sinn og nýlega upplýst lögbrot hans í Facebook-færslu á fimmtudag. Þar segir hann að ábyrgð ráðherrans sé að ráða hæfasta einstaklinginn og að á bak við „lokaákvörðun liggur mat ráðherrans sjálfs, sem hann ber ábyrgð á, um hvor sé hæfastur.“ Hann beitir sem sagt sömu málsvörn og Jóhanna beitti árið 2011. Það er í lagi að brjóta lög ef ráðherra telur þann sem var hæfastur hafa verið ráðinn í starfið.
Að vera samkvæmur sjálfum sér
Eftir að Jóhanna hafði sagt að hún ætlaði ekki að segja af sér kom Bjarni aftur í pontu og sagði ekki standa stein yfir steini í málflutningi hennar. „Pólitísk ábyrgð er ráðherrans. Ráðherrann getur ekki bent á einhvern sérfræðing sem hún fékk sér til aðstoðar við að komast að niðurstöðu í málinu. Hafi viðkomandi sérfræðingur, alveg sama hversu margar prófgráður viðkomandi hefur haft, komist að rangri niðurstöðu er ábyrgðin ráðherrans og það gengur ekki fyrir hæstvirtan forsætisráðherra að tína það til sem einhver rök í þessu máli að það sé í lagi að ganga gegn niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála vegna þess að sérfræðingur sem kom að málinu hafi komist að annarri niðurstöðu. Þetta stenst enga skoðun. Ábyrgðin er ráðherrans. Ráðherrann á að meta umsækjendur á grundvelli jafnréttislaga. Hann verður að leggja sjálfstætt mat á málið á grundvelli laganna og taka sjálfstæða afstöðu til þess hvort sérfræðingurinn hafi komist að réttri niðurstöðu eða ekki. Hann getur ekki tekið niðurstöðu sérfræðinganna athugasemdalaust án allra fyrirvara og lagt hana til grundvallar niðurstöðu í ráðningarferli eins og þessu og skotið sér síðan á bak við slíka niðurstöðu þegar spurt er um pólitíska ábyrgð.“
Bjarni komst sem sagt að þeirri niðurstöðu að Jóhanna ætti að meta umsækjendur á grundvelli jafnréttislaga og að hún bæri alltaf ábyrgð á þeirri niðurstöðu sem það mat leiddi að sér. Hún ætti að axla þá ábyrgð og segja af sér. Enda braut hún lög. Mat Bjarna var rétt. Jóhanna hefði átt að segja af sér. Og hinir ráðherrarnir sem brutu jafnréttislög líka. Það er nefnilega alls ekki í lagi að brjóta lög og það verður alltaf að hafa afleiðingar. Líka fyrir ráðherra.
Ef Bjarni er samkvæmur sjálfum sér þá mun hann ekki benda á einhvern sérfræðing í hæfisnefnd og kenna honum um lögbrot sitt. Hann mun gangast við því að hafa ekki metið umsækjendur á grundvelli jafnréttislaga, enda lá skýrt fyrir að þau lög segja að það verði að ráða umsækjanda af því kyni sem á hallaði á meðal skrifstofustjóra ráðuneytisins. Mjög einfaldur hugarreikningur hefði skilað honum þeirri niðurstöðu, enda fimm karlar og þrjár konur á meðal skrifstofustjóra ráðuneytisins og þar af ein kona sem var sett tímabundið í forföllum karlkyns skrifstofustjóra.
Ráðherrar mega ekki brjóta lög
En Bjarni mun auðvitað ekki segja af sér, frekar en hinir ráðherrarnir sem brutu lög. Þótt hann hafi farið fram á að Jóhanna axlaði pólitíska ábyrgð á nákvæmlega sama broti þá á það ekki við um hann. Það væri auðvitað fjarstæðukennt.
Það verður reyndar áhugavert að sjá hvernig samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, sem eru við það að þurrkast út af þingi samkvæmt könnunum, taka á þessu lögbroti forsætisráðherra. Flagskipsmál Viðreisnar á þessu þingi hefur verið lögleiðing jafnlaunavottunar, sem er reyndar teflt í tvísýnu vegna þess að ansi margir þingmenn Sjálfstæðisflokks eru á móti henni. Bæði Viðreisn og Björt framtíð lögðu ríka áherslu á að jafnréttismálum yrði gert hátt undir höfði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þegar hún var samin. Þar er sérstakur kafli sem heitir „Jafnrétti og fjölskyldumál“. Til að undirstrika þessa áherslu var Þorsteinn Víglundsson gerður að félags- og jafnréttismálaráðherra. Jafnrétti yrði sett í forgang. Þ.e. þar til forsætisráðherra braut jafnréttislög. Þá skiptir það ekki lengur neinu máli.
Það er ekki algengt að ráðherrar segi af sér á íslandi. Vanalega þarf eitthvað stórkostlegt til, eins og lekamálið eða Wintris. Það dugar ekki að brjóta lög. Lög sem ráðherrar eiga auðvitað að framfylgja, og passa, ásamt undirstofnunum sínum, að allir aðrir framfylgi. Stjórnmálamenn eru líka í þeirri einstöku aðstöðu að geta beitt sér fyrir breytingu á lögunum ef þeir eru ósáttir við þau. Það er þeirra leið til að takast á við slíka stöðu. Þeir hafa hins vegar enga heilaga heimild til að brjóta þau.
Það sem við stöndum frammi fyrir er samtrygging stjórnmálamanna alls staðar af hinum pólitíska skala um að þeir þurfi ekki að axla pólitíska ábyrgð ef þeir brjóta lög. Jóhanna, Ögmundur og Svandís þurftu ekki að gera það þegar þau gerðust lögbrjótar. Þess vegna þarf Bjarni, sem vildi ásamt samflokksmönnum sínum að Jóhanna segði af sér fyrir sama brot og hann framdi, ekki að víkja.
Og þess vegna treystir einungis rúmlega fimmtungur þjóðarinnar Alþingi og íslenskum stjórnmálamönnum.