Skip kemur að landi með afla. Honum er landað. Hann fer til vinnslu. Honum er pakkað - eftir fjölbreytta úrvinnslu - og hann sendur á markaði erlendis með flugi eða skipum.
Líkur standa til þess að í þessari virðiskeðju íslensks sjávarútvegs muni enn færri starfa en nú, þegar fram í sækir. Tækniframfarir, einkum á sviði gervigreindar, gagnaúrvinnslu og sjálfvirknibúnaðar tækja, eru ástæðan fyrir mikilli hröðun þessarar þróunar.
Þátttaka í alþjóðavæddum heimi
Spurningar um færslu aflaheimilda og vinnslu milli byggðarlaga, kjaramál, kvótakerfið, arðgreiðslur, pólitíska stefnu og eignarhald eru léttvægar í þessum samanburði, þó vissulega séu þær mikilvægar og tapi ekki gildi sínu (og ekki ætlunin að gera sérstaklega að umtalsefni í þessari grein). Á meðan heldur óhjákvæmileg þróun áfram, sem miklu skiptir að huga að. Tíminn líður hratt og hinn alþjóðavæddi heimur bíður ekki eftir neinum.
Þegar allt kemur til alls, þá er það þekkingariðnaðurinn í alþjóðavæddum heimi sem mun færa Íslandi farsæld framtíðarinnar.
Verkefnið framundan snýst um hvernig megi halda áfram þessi fyrmyndarþróun sem átt hefur sér stað í íslenskum sjávarútvegi. Uppbygging hans og hliðarþekkingar, meðal annars á sviði iðntækni, er stærsta og merkilegasta framlag íslensks atvinnulífs til hins alþjóðavædda heims viðskipta og efnahagslífs. Þetta er mat fræðimanna, meðal annars Þráins Eggertssonar, prófessors í hagfræði.
Höfum sögu að segja
Það er hollt að horfa til þess núna að stærsta íslenska fyrirtækið á skráðum markaði, Marel (250 milljarðar að virði) á einmitt rætur í þeirri þekkingu sem myndaðist við tilraunir sjávarútvegsfyrirtækja við að hámarka nýtingu afla.
Fyrirtækið er alveg kristaltært dæmi um mikilvægi samstarfs hins opinbera (stefna, fjárframlög til rannsóknar og þróunar), háskóla (framkvæmd tilrauna, akademísk vinna) og fyrirtækja (fjárfesting í rannsókn og þróun, nýsköpun).
Fróðleg skýrsla sem Aton vann fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi - Næsta bylting í sjávarútvegi - dregur fram þær miklu áskoranir sem íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir. Huginn Freyr Þorsteinsson, doktor í vísindaheimspeki, fjallaði um þessi mál á fundi á dögunum og þær áskoranir sem framundan væru, bæði tækifæri og ógnanir.
Fækkun og fjölgun
Á undanförnum tveimur áratugum hefur beinum störfum í íslenskum sjávarútvegi fækkað úr 16 þúsund í ríflega átta þúsund. En á sama tíma hefur sóknin og sköpun nýrra starfa verið miklu meiri en sem nemur horfnum störfum. Virðisaukinn í greininni, sem almenningur finnur fyrir beint og óbeint, birtist mun frekar í hliðarstarfsemi og frumkvöðlastarfsemi. Má nefna fyrirtæki eins og Skagann einnig, og ýmsa vöruþróun innan fyrirtækja sömuleiðis. Hjá Marel fer 6 prósent af öllum tekjum í rannsóknir og nýsköpunarstarf, og svipuð viðmið - jafnvel hærri - eru algengt viðmið hjá útgerðarfyrirtækjunum sjálfum.
Við Íslendingar eigum þessa sjávarútvegssögu, sem þegar er orðin að veruleika, sem sýnir hversu mikil áhrif ný tækni getur haft á einstaka hluta hagkerfisins. Eins og dæmin sanna, þá er þetta ekki saga sem þarf að hræðast. En inntakið í henni er þekkt úr atvinnusögunni. Virðiskeðjan verður ekki slitin í sundur og ef kæruleysi er sýnt, við að bæta hana stöðugt, þá eyðilegst hún. Svo einfalt er það.