Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ákvað í byrjun viku að fara ekki eftir tillögu dómnefndar um skipun dómara í Landsrétt. Sigríður taldi að fleiri en þeir 15 sem dómnefnd mælti með í stöðurnar 15 væru hæfir. Hún taldi auk þess að dómarareynslu hefði ekki verið gert nægilega hátt undir höfði og því ákvað ráðherrann að skipta út fjórum þeirra sem dómnefnd hafði metið hæfa og setja aðra fjóra inn. Öll þau sem Sigríður mælir með eru héraðsdómarar.
Með þessu útspili leysti Sigríður úr þeirri klemmu sem upp var komin varðandi jafnari kynjaskiptingu á meðal dómara hins nýja dómstigs. Í stað þess að tíu karlar og fimm konur settust í réttinn verða þar sjö konur og átta karlar, samkvæmt tillögu ráðherra. En það eru augljós vandkvæði.
Einn þeirra var metinn númer 30 af 33 í hæfisröðinni af dómnefnd. Annar var í sæti 23. Einn þeirra sem metinn var á meðal 15 hæfustu af dómnefnd, en ýtt til hliðar af ráðherra, er hæstaréttarlögmaðurinn Ástráður Haraldsson. Hann skrifaði forseta Alþingis bréf á mánudag þar sem hann segir að þau frávik sem ráðherra geri á tillögu dómnefndarinnar uppfylli á engan hátt kröfur sem gera verði varðandi skipan dómara og sem umboðsmaður Alþingis og dómstólar hafi lagt til grundvallar. Því sé frávik Sigríðar „tilraun til ólögmætrar embættisfærslu“. Nær öruggt má telja, í ljósi þessa, að skaðabótamál blasi við ef ekki verði farið eftir niðurstöðu dómnefndarinnar.
Þegar grunur skapast um hagsmunaárekstur
Það er þó fleira sem fundið er að breytingunum sem ráðherrann gerði. Ein þeirra sem dómnefndin mat ekki á meðal hæfustu umsækjenda, en ráðherrann vill skipa í dómaraembætti, er Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari. Ástæða þess að skipan hennar hefur verið gerð að umtalsefni er sú að Arnfríður er eiginkona Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þeirrar nefndar sem fjallar um tillögur ráðherrans um dómaraskipan. Brynjar hefur þegar lýst því yfir að hann sé vanhæfur til að taka þátt í þeirri vinnu.
Nú skal það fram tekið að innan lögmannastéttarinnar virðist það nær einróma skoðun að Arnfríður sé ákaflega hæfur og eldklár dómari. Ekki er efast um að hún sé fullfær um að takast á við það starf sem ráðherrann hefur ákveðið að velja hana í. Hún var auk þess í 18. sæti á lista dómnefndar um hæfni umsækjenda.
Það er hins vegar þannig að þegar rætt verður um skipun hennar þá verður það sett í samhengi við að Arnfríður hafi ekki verið metin á meðal þeirra hæfustu af dómnefnd, en ráðherrann hafi svo ákveðið að skipa eiginkonu flokksbróður síns þrátt fyrir það.
Traustið tapast ekki á samfélagsmiðlum
Brynjar Níelsson var einn þeirra þingmanna sem var valinn til að taka þátt í eldhúsdagsumræðum fyrir hönd flokks síns á mánudagskvöld. Þar ræddi hann meðal annars um traust, og hvernig þingmenn gætu lagað þá litlu tiltrú sem almenningur hefur á þeim. Orðrétt sagði hann: „Ég hef mikið velt því fyrir mér af hverju það er, eins æðisleg og við erum. Og hvernig lögum við það? Ég veit það ekki, en ég er alveg viss um að við lögum það ekki með því að fara á samfélagsmiðlana og heyra hvað þeir háværustu segja þar. Ég held að við lögum það með því að hafa góðar hugmyndir, vel ígrundaðar, rökstuddar hugmyndir og ekki er verra að hafa einhverja framtíðarsýn. Við þurfum að hafa sjálfstraust til að koma þessum hugmyndum á framfæri, vera sannfærandi, leiða, og takast á um þetta. Við þurfum að hafa skoðanir jafnvel þó að einhver rísi upp á afturfæturna og jafnvel þó að sagt sé við okkur ef við höfum skoðanir: Þið eruð svo umdeild, þú ert umdeildur. Ég held að fólk geri ekki almennt þá kröfu að vera sammála okkur um allt. Ég held að við getum notið trausts hjá fólki sem er ekki sammála okkur.“
Að mati Brynjars er það því annars vegar síendurtekin upphlaup á eftir almenningsálitinu sem birtist á samfélagsmiðlum og hins vegar skortur á góðri framsetningu hugmynda sem gerir það að verkum að traust og álit almennings á stjórnmálum og -mönnum er eins lítið og það er.
Ég ætla að bæta við einni ástæðu. Almenningur treystir því ekki að stjórnmálamenn séu að vinna að almannaheill, heldur sækist eftir sínum embættum til að fóðra sérhagsmuni.
Strokusamfélagið og afleiðingar þess
Það er mín upplifun að mjög stór hluti almennings telur marga stjórnmálamenn ekki vera heiðarlega og að þeir séu fyrst og síðast að skara eld að sinni eigin eða sinna köku. Að vera þeirra í stjórnmálum hafi einhvern annan tilgang en yfirlýstan, sem sé að ganga erinda og tryggja ítök í samfélaginu. Raunar staðfesta traustmælingar þetta. Einungis um fimmti hver landsmaður treystir Alþingi.
Það er líka mín upplifun að í langflestum tilfellum, þó ekki öllum, er þetta alls ekkert satt. Flestir fara í stjórnmál til að reyna að gera vel.
Ísland er hins vegar sögulegt strokusamfélag. Í því felst að alltaf hefur verið reynt að styrkja valdakerfi í sessi með því að raða hliðhollum aðilum á sem flestar jötur, og færa „réttum aðilum“ tækifæri. Þetta hefur því miður sést allt of oft. Í fljótu bragði má rifja upp t.d. skipun Þorsteins Davíðssonar, sonar Davíðs Oddssonar, í embætti héraðsdómara án þess að hann hafi verið talinn nálægt því hæfastur umsækjenda. Það má líka rifja upp skipan Ólafs Barkar Þorvaldssonar, náfrænda Davíðs, í embætti Hæstaréttardómara þrátt fyrir að þrír umsækjendur hafi verið taldir hæfari.
Það má nefna ráðningu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sem forstöðumanns samfélags- og dægurmálasviðs Ríkisútvarpsins, sem hafði enga starfsreynslu úr fjölmiðlum, og að þrír umsækjendur hafi verið metnir hæfari en hún. Það má nefna skipan Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í stöðu lektors við Háskóla Íslands þrátt fyrir að hæfisnefnd hefði talið tvo aðra umsækjendur hæfari í stöðuna. Þá má auðvitað líka rifja upp skipun Auðuns Georgs Ólafssonar sem fréttastjóra Ríkisútvarpsins þrátt fyrir að nær allir aðrir umsækjendur um starfið hafi verið bersýnilega miklu hæfari. Þá á alveg eftir að fara yfir það þegar fyrrverandi forystufólk úr stjórnmálum, á borð við Davíð Oddsson og Finn Ingólfsson, var valið til að verða seðlabankastjórar. Svo fátt eitt sé nefnt.
Samspil viðskipta og stjórnmála
Hin hliðin á þeirri ástæðu að almenningur vantreystir stjórnmálamönnum er hið sífellda samspil viðskipta og stjórnmála sem hefur alltaf verið allt of ríkt hérlendis. Nægir þar að nefna einkavæðingar á borð við sölu á ríkisbönkunum og einkavæðingu Íslenskra aðalverktaka frá fyrri árum. Eða sú hlífðarhendi sem haldið er yfir sjávarútvegskerfi sem færir þröngum hópi hundruð milljarða króna fyrir að nýta þjóðareign, sem á móti notar það fé til að tryggja sér völd og ítök í atvinnulífi og stjórnmálum. Eða yfir landbúnaðarkerfi sem er undanþegið samkeppnislögum og fjandsamlegt neytendum. Og svo auðvitað ævintýralegt magn af kjördæmapoti þar sem almannahagsmunir réðu sannarlega ekki för við ákvörðunartöku.
Að undanförnu hefur kastljós þeirrar tortryggni fyrst og síðast verið á Bjarna Benediktssyni, nú forsætisráðherra, í ljósi umfangsmikillar þátttöku hans í viðskiptum á árum áður og mikilla umsvifa nánustu ættingja hans og fyrrverandi samstarfsmanna í viðskiptum. Sérstaklega hefur verið gerð tortyggileg þátttaka þeirra að hóp sem keypti hlut ríkisbankans í Borgun á smánarlegu verði þar sem Landsbankinn telur nú að upplýsingum hafi verið leynt og hann plataður. Önnur viðskipti sem hafa verið mikið til umræðu er eign fjölskyldu Bjarna á einu stærsta rútufyrirtæki landsins sem hagnast stórkostlega á að ferja ferðamenn frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur, og kaup félags í meirihlutaeigu föður og föðurbróður Bjarna á fyrirtækinu ISS, sem fær mörg hundruð milljónir króna á ári frá ríkinu fyrir að sinna þrifum á opinberum byggingum og rekstri mötuneyta í þeim.
Stjórnmálamenn verða að forðast hagsmunaárekstra
Ég tel ekki að Sigríður Á. Andersen vilji skipa eiginkonu Brynjars Níelssonar í dómaraembætti vegna tengsla við eiginmann hennar. Ég tel ekki að Bjarni Benediktsson hafi hlutast með neinum hætti til um söluna á hlut Landsbankans í Borgun. Eða að hann sé að beita sér með öðrum hætti en almennum gagnvart því lagaumhverfi sem rútu- og bílaleigurisi fjölskyldu hans starfar á. Og ég er ekkert nema sannfærður um að forsætisráðherra mun ekki vera með lúkurnar í því hvernig verði samið við ISS um ræstingar opinberra bygginga.
Ég hef hins vegar þá skoðun að stjórnmálamaður þurfi að passa upp á af öllum mætti að það komi ekki til hagsmunaárekstra af neinu tagi í starfi hans. Þeir mega hvorki vera raunverulegir né mega skapast aðstæður þar sem grunur ríkir um slíka. Ef vísir er til staðar að sýnilegum hagsmunaárekstri er alltaf til fullt af fólki sem mun halda að hann hafi átt sér stað. Þá skiptir engu máli hversu reiður viðkomandi stjórnmálamaður er vegna þeirra ávirðinga. Skaðinn verður þegar skeður.
Niðurstaðan er sú að traust tapast og tortryggni eykst. Ég er þeirrar skoðunar að þegar einstaklingur býður sig fram til að starfa fyrir þjóð sína – og hvað þá leiða hana – þá nái sú krafa líka til þeirra sem standa viðkomandi næst. Það er val að vinna í stjórnmálum og því vali fylgja fórnir. Þær kunna að virðast ósanngjarnar í einhverjum tilfellum, en þær eru líka valkvæðar. Ef bakland stjórnmálamanns er ekki tilbúið að færa slíkar fórnir þá getur viðkomandi einfaldlega sleppt því að vinna í stjórnmálum. Réttur nánustu ættingja til framgangs og viðskipta þrátt fyrir stjórnmálaþátttöku er ekki mikilvægari en traust almennings á helstu stofnunum landsins.
Traust þarf að sækja, það kemur ekki bara
Það er engin spurning um að samkurl viðskipta og stjórnmála, stöðuveitinga og flokka og almenns framgangs í íslensku samfélagi hefur sögulega verið mjög mikið. Og það er engin spurning um að það spilar stóra rullu í því að einungis 22 prósent treysta Alþingi og 43 prósent dómskerfinu. Til að endurheimta traust á stjórnsýsluna þurfa stjórnmálamennirnir okkar að sýna það í verki að þessi tími sé liðinn. Það þýðir ekki að kenna látunum á samfélagsmiðlum eða karpi úr ræðustól Alþingis um. Það þýðir ekki alltaf að horfa út á við en sleppa því að horfa inn á við. Vanalega er viðgerðin nærtækari.
Og það er hægt að endurheimta traust ansi hratt. Við sáum það til að mynda þegar forseti sem setið hafði í 20 ár, og mjög margir töldu að væri ekki með hagsmuni almennings að leiðarljósi, hætti síðasta sumar. Sá hafði verið verulega umdeildur og ánægja með störf hans mælst á bilinu 45-64 prósent. Nýr forseti kom úr allt annarri átt, ekki hefur verið efast um hvaða erinda hann gangi og ekki er talið líklegt að hann rati í nokkra sýnilega hagsmunaárekstra í starfi sínu. Niðurstaðan er sú að 85 prósent landsmanna eru ánægðir með nýja forsetann, en einungis 2,8 prósent óánægðir.
Til þess að þetta gerist þurfa stjórnmálamennirnir einfaldlega að forgangsraða. Horfa aðeins inn á við. Og setja traust almennings í fyrsta sætið, en sjálfa sig og hagsmuni sína í sætin þar á eftir.