Í leiðara Morgunblaðsins á mánudag segir eftirfarandi: „Í blaðinu Áhrifakonur, sérblaði Viðskiptablaðsins sem kom út í liðinni viku, mátti lesa viðtöl við konur úr atvinnulífinu. Bersýnilegt er af þeim lestri að staða kvenna í atvinnulífinu hefur batnað mikið á liðnum árum og telst vera góð. Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, sagði til dæmis þetta um stöðu kvenna: „Það er örugglega hvergi nokkurs staðar í heiminum sem við höfum betri stöðu en hér á Íslandi. Við búum við algjöran lúxus, íslenskar konur í stjórnunarstöðum. Mér finnst skilningur í okkar garð mjög mikill og góður. Karlarnir eru uppfullir af stuðningi.“
Í skrifunum endurspeglast íhaldssamt viðhorf á jafnrétti sem gengur út á að ekki eigi að beita neinu boðvaldi til að knýja á um breytingar á ójafnri stöðu kynjanna. Viðhorf þeirra sem líta á það sem sitt meginmarkmið að samfélagið sem þeir bjuggu til breytist sem minnst. Þeirra sem telja að jafnrétti snúist um að láta hæfileika takast á á markaðstorgi og svo verði sá ofan á sem sé hæfastur. Nema stundum þegar það þarf inngrip ráðamanna til að koma „rétta“, en minna hæfa, fólkinu í opinberar stöður, en það er önnur saga. Einu kringumstæðurnar sem það er heimilt að „kyngja ælunni“ gagnvart því að setja lög sem jafna stöðu kynjanna sé þegar slíkt er hluti af hrossakaupum í valdabandalagi.
En þetta viðhorf sem leiðarahöfundurinn og Katrín, sem er reyndar líka einn eigenda Morgunblaðsins, byggir ekki á neinu nema viljanum. Konur búa ekki við lúxus í íslensku atvinnulífi, þótt þær fái að vera með. Og þótt staða kvenna sé verri víðs vegar í heiminum þá réttlætir það ranglæti ekki mjög skakka stöðu kynjanna í okkar litla samfélagi.
Staðreynd: Karlar ráða nánast öllu
Nú skulum við fara yfir nokkrar staðreyndir. Konur eru 49,3 prósent landsmanna. Ríkisstjórn Íslands er stýrt af þremur körlum, sem eru formenn þeirra flokka sem hana mynda. Það eru fleiri karlráðherrar en konur í ríkisstjórninni. Á þingi sitja fleiri karlar en konur. Seðlabankanum er stýrt af körlum. Konur eru einungis 25,9 prósent allra stjórnarmanna í íslenskum fyrirtækjum. Þrátt fyrir að lög hafi verið sett í september 2013 um að flest öll félög með fleiri en 50 starfsmenn ættu að hafa hlutfall hvors kyns í stjórnum sínum yfir 40 prósent er hlutfall kvenna í stjórnum slíkra fyrirtækja einungis 32,3 prósent.
Konur eru einungis 22,1 prósent framkvæmdastjóra á Íslandi og 23,9 prósent stjórnarformanna eru konur. Þá eru konur 39 prósent forstöðumanna hjá stofnunum ríkisins. Og konur fá allt að 21,5 prósent lægri heildarlaun en karlar, þrátt fyrir að t.d. fleiri konur séu með háskólapróf en karlar.
Í úttekt sem Kjarninn hefur gert árlega allan sinn líftíma á stöðu kvenna á meðal æðstu stjórnenda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, félaga á leið á markað, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og –miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða birtist ömurleg staða varðandi kynjahlutföll hjá þeim sem stýra peningum og fara með völd sem þeim fylgja hérlendis. Niðurstaðan í ár, samkvæmt úttekt sem framkvæmd var í febrúar 2017, er sú að æðstu stjórnendur í ofangreindum fyrirtækjum séu 88 talsins. Af þeim eru 80 karlar en átta konur. Það þýðir að 91 prósent þeirra sem stýra peningum á Íslandi eru karlar en níu prósent konur. Niðurstaðan hefur verið nánast sú sama á hverju ári sem úttektin hefur verið framkvæmd.
Lífeyrissjóðirnir okkar stuðla að óeðlilegu ástandi
Staðan er verst innan lífeyrissjóðakerfisins og viðhengjum þess. Lífeyrissjóðir landsins eiga enda um 3.700 milljarða króna sem þeir fjárfesta til að tryggja okkur áhyggjulaust ævikvöld. Allir sem vinna á Íslandi eru skikkaðir til að borga í lífeyrissjóð og því eru greiðslurnar í þá lítið annað en skattur sem er kallaður eitthvað annað. Það er enda þannig að ef einhver borgar ekki í sjóðina þá hleypur ríkið undir bagga og borgar fyrir þá ævikvöldið.
Lífeyrissjóðir landsins eru stærstu leikendur í íslensku atvinnulífi. Stjórnendur þeirra vilja sjaldnast heyra á það minnst að nota eigi sjóðina sem samfélagslegt hreyfiafl. Þeir eigi bara að græða peninga, upp á gamla mátann, og viðhalda þannig feðraveldiskerfi íslensks atvinnulífs.
Sjóðirnir eiga innlend hlutabréf fyrir 456 milljarða króna og hlutdeildarskírteini í sjóðum sem eiga hlutabréf upp á 135 milljarða króna. Samtals gera það 590,5 milljarðar króna. Samanlagt heildarmarkaðsvirði skráðra félaga hérlendis var 1.067 milljarðar króna í byrjun þessa mánaðar. Lífeyrissjóðirnir eiga því rúmlega helming allra skráðra bréfa. Til viðbótar eiga þeir hlut í innlendum hlutdeildarfyrirtækjum fyrir 118 milljarða króna.
Lífeyrissjóðum landsins er nær einvörðungu stýrt af körlum. Úttekt Kjarnans í febrúar náði til 17 stjórnenda lífeyrissjóða sem sumir hverjir stýra fleiri en einum sjóði. Af þessum 17 eru 15 karlar en tvær konur. Níu stærstu sjóðirnir stýra um 80 prósent af fjármagninu sem er til staðar í íslenska lífeyrissjóðakerfinu. Þeim er öllum stýrt af körlum.
Lífeyrissjóðakerfið er lífæð íslenskra verðbréfafyrirtækja og rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Flestir á þeim markaði hafa þorra tekna sinna upp úr því að rukka lífeyrissjóði um þóknanatekjur fyrir milligöngu í verðbréfakaupum. Af tíu rekstrarfélögum sjóða með starfsleyfi samkvæmt Fjármálaeftirlitinu er engu stýrt af konu. Tíu karlar halda um þræðina í þeim. Og langflestir starfsmanna þeirra eru líka karlar. Tíu verðbréfafyrirtæki eru skráð sem eftirlitsskyld hjá Fjármálaeftirlitinu. Öllum tíu er stýrt af körlum.
Það þarf því ekki að koma mikið á óvart að öllum skráðum fyrirtækjum á Íslandi – en alls 18 félög eru skráð á aðalmarkað – er stýrt af körlum. Þeir sem sjá um fjárfestingar í þeim eru enda að uppistöðu karlar. Auk þess er forstjóri Kauphallarinnar karlinn Páll Harðarson.
Breyta þarf lögum um lífeyrissjóði
Það er ekkert hægt að rífast um það að konur hafa verið settar í aukahlutverk í mannkynssögunni. Líka á Íslandi. Frekir karlar hafa stýrt nær öllu. Til að breyta þessu þarf að standa uppi í hárinu á þeim. Það gerðu konur á Íslandi þegar þeim var tryggður kosningaréttur fyrir 102 árum, það gerði Kvennalistinn á tíunda áratugnum og það gerði R-listinn þegar hann framkvæmdi dagvistunarbyltingu sína á tíunda áratugnum, sem er líklega stærsta kerfisbreyting sem ráðist hefur verið í hérlendis til að auka atvinnufrelsi kvenna. Það gerði Vigdís Finnbogadóttir þegar hún var kosin forseti Íslands og það gerði Jóhanna Sigurðardóttir þegar hún varð ekki bara fyrsti kvennforsætisráðherra Íslands heldur fyrsta opinberlega samkynhneigða konan til að stýra þjóðarskútu. Allt voru þetta sigrar í jafnréttisvegferð sem er hins vegar fjarri því lokið. Orustan stendur sannarlega enn yfir.
Það virðast blessunarlega flestir átta sig á því að þótt staðan hafi batnað sé hún ekki boðleg. Það er t.d. rétt sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði í tilefni af kvennafrídeginum síðastliðinn mánudag. Þar sagði hann að það væri „skaði að því fyrir samfélagið þegar konur njóta ekki jafnréttis hvað varðar völd, áhrif eða laun á Íslandi.“ En það er ekki nóg að tala. Það verður að gera. Ekkert breytist að sjálfu sér og uppsett kerfi munu verja sig fram í rauðan dauðann. Bjarni hefur, ólíkt flestum öðrum, völd til að breyta þessu.
Ein augljós leið er að breyta lögum um lífeyrissjóði á þann hátt að þeir verði að jafna kynjahlutföll á meðal þeirra sem stýra þeim, á meðal þeirra sem starfa við fjárfestingar innan þeirra og á meðal þeirra fyrirtækja sem byggja tilveru sína á þóknanatekjum frá lífeyrissjóðum. Það er hægt að breyta lögunum þannig að lífeyrissjóðir fjárfesti ekki í skráðum fyrirtækjum sem eru ekki með jafnræði á milli kynja í stjórnenda og stjórnarstöðum. Og svo framvegis.
Þetta er hægt og þetta myndi breyta miklu. Hratt. Eina sem þarf er vilji til að standa uppi í hárinu á freka karlinum sem vill halda íslenska, karlæga strokusamfélaginu þar sem lítill hópur karla stýrir öllu í stjórnmálum, viðskiptum og stjórnsýslu við. Það þarf að mæta þeim sem vilja viðhalda þröngri stjórnun á aðgengi að tækifærum, upplýsingum og peningum annarra. Þeir stjórnmálaflokkar sem skilgreina sig sem umbótaöfl, og eru með meirihluta á Alþingi, ættu að sjá mikil tækifæri í svona breytingu og ráðast í hana, þverpólitískt, strax.
Karlar eru ekki hæfileikaríkari
Ég sat í flugvél um daginn og við hliðin á mér sat kona sem sagði mér frá tilraun. Hún gekk út á það að láta konu og karl spila Monopoly og að setja snakk í skál á mitt leikborðið. Karlinn fékk hins vegar helmingi meiri pening en konan til að spila með. Honum gekk eðlilega mun betur í leiknum og vann. Hann var mjög ánægður með það, án þess að vera að velta mikið fyrir sér því forskoti sem aukið fjármagn gaf honum. Og karlinn át allt snakkið í skálinni líka.
Þannig er staða karla og kvenna í íslensku samfélagi í dag. Karlarnir byrja leikinn með ávísun upp á meiri pening og betri tækifæri. Sú vissa smitast út í viðhorf þeirra og þeir hika ekki við að éta snakk samfélagsins líka, í stað þess að deila því með konum eða leyfa þeim bara að borða það allt. Vegna þess að karlar geta það.
Ef við gerum ekkert í þessu, ef við tökum undir með Katrínu í Lýsi og Morgunblaðinu að hin afleita staða kvenna hérlendis sé „lúxus“, þá erum við að segja að konur séu hæfileikalausari en karlar.
Það eru þær ekki. Þvert á móti.