Eitt af því sem ég er hugsi yfir á Íslandi er hversu mikið umfang hins opinbera er í atvinnulífinu, almennt, en einhvers konar meinloka - hjá sumum að minnsta kosti - virðist vera uppi í einum geira sérstaklega.
Þegar kemur að þeim kima hagkerfisins, sem á alþjóðavísu er sagður standa á hvað mestum tímamótum tæknilega, fjármálageiranum, þá er hið opinbera á Íslandi með meira en fjögur þúsund starfsmenn í fjármálaþjónustu, og markaðshlutdeild er með ólíkindum mikil, eða um og yfir 80 prósent.
Í grófum dráttum er staða mála svona:
Fjármálaþjónusta ríkisins skiptist á Íslandsbanka og Landsbankann - sem eru með sambærilega þjónustu að öllu leyti og stofnanavirki sambærilegt - Íbúðalánasjóð, Byggðastofnun, LÍN, FME, Reiknistofu bankanna (óbeint hið opinbera, að mestu) og Seðlabankann. Sýsluskrifstofur eru síðan með hlutdeild í fjármálaþjónustunni einnig, þegar kemur að þinglýsingu og slíkri vinnu. Augljóslega ætti að vera hægt að gera það rafrænt og eyða dýrmætum tíma í annað en gert er í dag.
Við þetta má bæta fleiri fyrirtækjum, eins og Borgun (63,5 prósent í eigu ríkisins), og óbeinir eignarhlutir í fleiri fyrirtækjum, eins og Arion banka (13 prósent) og dótturfyrirtækjum hans.
Fjármálaþjónustan er aðeins fyrir 200 þúsund manna vinnumarkað á Íslandi og innan við 130 þúsund heimili.
Um nær alveg einangraða þjónustu er að ræða við þennan örmarkað, þó tengingar séu við erlenda markaði.
Engin vaxtartækifæri eru fyrir bankanna. Nema þá helst í því sem mestu skiptir, að því er virðist: hagræða og framþróa starfsemina.
Vonandi er ekki svo komið fyrir Samkeppniseftirlitinu að það trúi því að ríkið - alls staðar við borðið - verði í mikilli samkeppni við sig, þegar fram í sækir.
Stórar spurningar
Margar spurningar vakna, í ljósi þessarar stöðu, sem áhugavert væri að sjá stjórnmálamenn og eftirlitsstofnanir greina betur.
1. Hver er áhætta ríkisins, eins og mál standa nú, þegar kemur að þróun tækni fyrir fjármálaþjónustu á alþjóðavettvangi?
2. Hvaða hlutverki hefur ríkið að gegna og hver verður nálgun ríkisins að fjármálaþjónustu þegar fram í sækir?
3. Hvernig er Ísland tilbúið fyrir þær áskoranir sem framundan eru, meðal annars með tilliti til okkar sjálfstæðu peningastefnu?
4. Er fjármálaþjónusta hins opinbera mögulega stórkostlega ofmönnuð?
Leiðtogar í nýsköpun í heiminum, meðal annars Jeff Bezos, stofnandi og forstjóri Amazon, og Tim Cook, forstjóri Apple, hafa rætt um það um nokkurt skeið, að fjármálaþjónusta sé meðal þeirra þátta þar sem tækni mun umbylta kerfinu á næstu misserum.
Tim Cook lýsti því sjálfur, í erindi fyrir framan fjárfesta 31. janúar síðastlinn, að eitthvað ótrúlegt væri að gerast þegar kæmi að fjármálaþjónustu, því vöxturinn í Apple Pay kerfinu væri „undraverður“. Á síðustu tólf mánuðum hefur vöxturinn verið 450 prósent, stanslaust vöxtur einkennir greiðslur í gegnum síma og kúvending er að verða á þjónustuleiðum fyrirtækja og heimila. Apple hefur þegar kynnt nýjar uppfærslur á leiðum sem eiga að einfalda greiðslur og peningafærslur í gegnum síma og snjallúr.
Annað nærtækt dæmi ná nefna, en það er Norwegian Bankinn norski (að hluta til í eigu Norwegian flugfélagsins), sem hefur náð mikill fótfestu á bankamarkaði í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Hann er einungis á netinu, býður lán til heimila og er með sveigjanleika netsins sem lykil í allri nálgun að viðskiptavinum. Þetta er ekki „alhliða“ banki heldur er hann sniðinn að þörfum venjulegs fólks.
Móttökurnar hafa verið ótrúlegar frá því bankinn tók fyrstu skrefin, í aðdraganda heimskreppunnar. Frá því í nóvember 2007, þegar bankinn var stofnaður, hefur viðskiptavinum fjölgað um tæplega eina milljón og fátt virðist benda til annars en að bankinn sé varanlega búinn að breyta bankalandslaginu á Norðurlöndunum.
Hvernig móttökur ætli bankinn myndi fá hér á landi?
Núna á tíu ára afmæli snjallsímans iPhone - sem hefur gjörbreytt heiminum á margvíslegan hátt - ættu stjórnvöld að velta því fyrir sér hvað sé framundan í fjármálaþjónstunni.
Frjó umræða
Í Bandaríkjunum - þar sem fyrstu mannlausu útibú Bank of America hafa þegar opnað - hefur átt sér stað mikil umræða um miklar breytingar sem fjármálageirinn er þegar byrjaður að ganga í gegnum, og hefur Seðlabanki Bandaríkjanna tekið virkan þátt í henni. Ekki síst um þær áskoranir sem framundan eru þegar kemur að mun mannaflsléttari innviðum en þörf er á gamaldags bankastarfsemi.
Reiknistofa Bankanna hefur verið sá aðili sem hefur verið leiðandi í þessari umræðu hér á landi, meðal annars með ráðstefnuhaldi og opinni umræðu um helstu álitamálin. Það er til fyrirmyndar, enda mikið í húfi. En umræðan er til einskis ef hún er ekki tekin lengra.
Spjótin beinast að lokum að þeim sem móta lög og reglur; stjórnmálastéttinni. Hún stendur frammi fyrir áhugaverðum spurningum, eins og framan er greint. Það er eins gott að hún verði þokkalega undirbúin, með stefnu fyrir framtíðina þegar kemur að fjármálaþjónustu.
Hagstofan áætlar að fjöldi starfsfólks í fjármálaþjónustu sé nú um 6.200 en hann hefur ekkert vaxið í meira en ár. Það er hins vegar allmikill fjöldi, og vel hugsanlegt að hagræða megi um mörg hundruð starfsmenn, jafnvel fleiri en þúsund, með því að hraða nútímavæðingu þjónustunnar.
Hér á landi hefur mikil hreyfing á fólki í fjármálaþjónustu verið sýnileg að undanförnu, en margt reynslumikið fólk hefur verið að hætta störfum í stóru endurreistu bönkunum þremur og hefja störf hjá minni sérhæfðari fyrirtækjum. Það er ekki undarlegt, því hjá þessum minni fyrirtækjum eru mikil vaxtartækifæri, á meðan varnarleikur einkennir hina endurreistu banka. Svipuð þróun hefur átt sér stað víða á alþjóðavettvangi.
Þó Ísland sé lítið þá má ekki gleyma því að landið er „berskjaldað“ fyrir alþjóðlegum breytingum, og það er ekkert nema gott um það að segja. Að undanförnu hefur þetta sést vel, með innreið Netflix, Spotify og Costco á ólíka markaði.
Innviðir fyrir tæknibreytingar eru góðir hér á landi og það ætti að vera kappsmál fyrir okkur, til að styrkja samkeppnishæfni landsins, að byrja að móta nýjan grunn fyrir fjármálaþjónustuna. Ríkið er með yfir 460 milljarða bundna í eigin fé í fjármálafyrirtækjum þessi misserin og því eru miklir hagsmunir í húfi fyrir skattgreiðendur. Mestu hagsmunirnir eru þeir, að hér muni starfa skilvirkt og gott fjármálakerfi sem er samkeppnishæft í alþjóðavæddum heimi, til framtíðar litið. Í komandi breytingum felast bæði tækifæri og ógnanir, sem full ástæða er til að gaumgæfa enn betur en nú hefur verið gert.