Það gera kannski ekki allir sér grein fyrir því að aðskilnaður hvítra og svartra var ekki bannaður með lögum í Bandaríkjunum fyrr en 1964. Það þýðir að þegar foreldrar mínir fæddust mátti enn mismuna svörtum Bandaríkjamönnum og tryggja hvítum löndum þeirra gæði umfram aðra kynþætti. Vegna þess að þeir voru hvítir.
Í aðdraganda þess að mannréttindalögin (e. Civil Rights Act) tóku gildi í Bandaríkjunum var hart tekist á. Andstæðingar afnáms aðskilnaðar börðust þar hatrammlega gegn mannréttindahreyfingunni. Meðal annars undir fánum Ku Klux Klan, samtaka sem trúa á yfirburði hvíta kynþáttarins, eru á móti bættum mannréttindum minnihlutahópa og fylgjandi aðskilnaði kynþátta með lögum og reglum. Liðsmenn Ku Klux Klan drápu fjölda svartra (meðal annars börn), mannréttindafrömuði og stunduðu skilgreinda hryðjuverkastarfsemi á þessum árum.
Það er því skiljanlegt þegar Bandaríkjamenn skynja aukin uppgang samtaka kynþáttahatara, aðskilnaðarsinna og þjóðernisöfgamanna líkt og þeirra sem hópuðust til Charlotteville um helgina til að bera kyndla, halda á lofti kynþáttahyggju og mótmæla því að stytta af Robert E. Lee, hershöfðingja Suðurríkjanna í Þrælastríðinu, sem barðist gegn afnámi þrælahalds í stríðinu verði fjarlægð.
Kynþáttahatarar tengja við boðskap Trump
Þess vegna mótmælti fjöldi fólks, meðal annars íbúar Charlotteville, því að kynþáttahatarar væru að koma til borgarinnar til að dreifa hatri sínu og fordómum. Reiðir hvítir karlar (þetta eru að langmestu leyti karlar) með kyndla minntu enda óþægilega mikið á þá tíma sem þjóðin upplifði á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Og hún vonaði að væri að baki.
Það hefur varla farið framhjá neinum hvað gerðist síðan. Kynþáttahatari keyrði bifreið sinni inn í hóp fólks sem varð til þess að ein kona lést og fjöldi manns slasaðist.
Neitar að fordæma hvítan hryðjuverkamann sértækt
Donald Trump hefur neitað að fordæma árásina sértækt. Þ.e. hann hefur ekki viljað fordæma þá hópa sem stóðu að atburðinum í Charlotteville og maðurinn sem framdi ódæðið tilheyrir. Hópa sem trúa á yfirburði hvíta mannsins og dásama nasisma og aðskilnaðarstefnu. Forsetinn hefur heldur ekki kallað atburðinn hryðjuverk, þrátt fyrir að hafa ekki hikað við að gera slíkt þegar islamskir hryðjuverkamenn hafa beitt sömu aðferðum til að fremja sín voðaverk. T.d. í London fyrr á þessu ári. Niðurlag stöðuuppfærslu hans á Twitter um atburðinn var þetta: „Virgina. So sad!“.
Trump birti þess í stað yfirlýsingu þar sem hann fordæmdi voðaverk almennt. Hann dró engan sérstakan til ábyrgar og vitnaði ekki til voðaverksins sem hryðjuverks. Og þrátt fyrir mikinn opinberan þrýsting, ekki síst innan úr Repúblikanaflokknum, þá hefur hann ekki gert það þegar þessi orð eru skrifuð.
Það á ekki að koma á óvart. Trump hefur áður vikið sér undan því að afneita áðurnefndum David Duke þegar hann lýsti yfir stuðningi við forsetann í kosningabaráttunni í fyrra. Helstu áherslumál Trump eru líka með kynþáttahyggju-undirtóni. Hann rak kosningabaráttu sína á gífuryrðum um að byggja vegg til að halda Mexíkóum frá Bandaríkjunum. Um að herða þyrfti landamæraeftirlit og banna múslimum að koma til Bandaríkjanna, að minnsta kosti tímabundið. Og til að undirstrika þessar áherslur hefur hann ráðið þjóðernissinna sem aðhyllast kynþáttahyggju – menn eins og Steve Bannon og Stephen Miller – sem ráðgjafa til að koma að stefnumótun lykilmála í ríkisstjórn hans.
Trump hefur spilað mjög á rasíska strengi til að afla sér fylgis á meðal þeirra hópa sem eru móttækilegir fyrir þeirri tónlist. Það er að minnsta kosti túlkun kynþáttarhatara á borð við Duke, og þá sem stóðu að göngunni í Charlotteville, að í slagorði Trump, „Make America Great Again“, felist aukin uppgangur hvítra Bandaríkjamanna á kostnað annarra þjóðfélagshópa. Og Trump hefur ekkert gert til að leiðrétta þessa skoðun.
Það má vel vera að Donald Trump sé fyrst og síðast sjálfhverfur reiður gamall maður sem vill fyrst og síðast sigra í öllum orustum lífsins. Að hann hafi í raun engar hugsjónir, enga stefnu og taki ákvarðanir til að reyna að höfða til þeirra sem geti hjálpað honum að ná því markmiði að líta vel út. En það fríar hann ekki af ábyrgð á þeim sem hann valdeflir.
Það liggur fyrir hvernig forseti Trump er
Í þessu samhengi var athyglisvert að hlusta á Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra Íslands í Helgarútgáfunni á Rás 2 í gær. Þar lagði ráðherrann sig fram við að gagnrýna ekkert sem Donald Trump hefur gert. Hann karpaði við þáttarstjórnanda um að Barack Obama hefði í reynd mælst óvinsælasti forseti allra tíma. Sem er reyndar rangt. Samkvæmt mælingum FiveThirtyEight á skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið á stuðningi og óánægju með síðustu 13 forseta Bandaríkjanna kemur í ljós að Obama var aldrei með jafn lítinn stuðning og Trump mælist með, og náði aldrei því að meiri en helmingur þjóðarinnar væri óánægt með störf hans. Samkvæmt mælingum FiveThirtyEight segjast 56,5 prósent Bandaríkjamanna vera óánægðir með störf Trump eftir rúmlega 200 daga í starfi, og einungis 37,6 prósent segjast ánægðir með hann.
Guðlaugur Þór sagði í viðtalinu að Trump hefði bara verið í starfi í um 200 daga. „Það á alveg eftir að koma í ljós hvernig forseti hann mun verða. Og hvernig stjórnin hans mun verða í framtíðinni.“
Það er nokkuð auðvelt að hafna þeirri staðhæfingu með rökum að óvissa ríki um hvernig forseti Trump verði. Forseti sem hefur gert grín að fötluðum, sýnt konum vanvirðingu og hefur reynt að hafa lífsviðurværið af þúsundum transfólks með því að reyna að banna þeim að gegna herþjónustu í gegnum stöðuuppfærslu á Twitter. Forseti sem ræðst af ofsa gegn fjölmiðlum fyrir að segja réttar fréttir byggðar á staðreyndum, sem hefur reynt að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna, vill byggja vegg til að halda ákveðnum þjóðernum frá landinu og er að beita sér fyrir því að jákvæð mismunum verði afnumin í háskólum svo að hvítum verði ekki „mismunað“. Forseti sem rak forstjóra FBI vegna þess að hann var óánægður með rannsókn á sjálfum sér og ýjaði að kjarnnorkuvopnaárás á Norður Kóreu ef landið hætti ekki að hóta Bandaríkjunum. Svo fátt eitt sé nefnt.
Það liggur því að minnsta kosti ansi margt fyrir um hvernig forseti Donald Trump hefur verið hingað til. Hann er forseti sem vill skerða grundvallarmannréttindi fjölmargra samfélagshópa. Hann er forseti sem hikar ekki við að að ráðast sértækt að einstaklingum, fyrirtækjum, löndum eða trúarhópum ef það þjónar tilgangi hans. Sem fordæmdi til dæmis verslunarkeðjuna Nordstrom fyrir að hætta að selja föt frá fyrirtæki dóttur hans. Sem réðst gegn foreldrum sem misstu barnið sitt í stríði, vegna þess að þeir komu fram á samkomu á vegum Demókrataflokksins. Sem réðst að leikkonunni Rosie O’Donnell fyrir að vera í yfirvigt. En hann er ekki forseti sem getur fordæmt hvíta kynþáttarhatara með kyndla, jafnvel eftir að þeir fremja hryðjuverk.
Það er því erfitt að skilja hvernig íslenski utanríkisráðherrann, eftir að hafa varið Trump og sagt að hann þurfi tíma, gat sagt síðar í sama viðtali að til þeirra landa þar sem grundvallarmannréttindi væru ekki virt þyrftum við „auðvitað að gefa þau skilaboð og kynna hversu mikilvægt það er. Því að allir jarðarbúar eiga það skilið að búa við mannréttindi.“
Það hlýtur þá að gilda um öll lönd nema Bandaríkin.