Utanríkisþjónustan er mikilvægur hluti af almannaþjónustu íslenska ríkisins. Oft hefur hún fengið á sig gagnrýni fyrir bruðl, en þegar öllu er á botninn hvolft þá held ég að sé óhætt að segja að hún eigi ekki við mikil rök að styðjast.
Gott og reynslumikið fólk er í leiðtogastörfum innan utanríkisþjónustunnar og eru verkefnin fjölbreytt og áhugaverð. Allt frá því að vera mannúðarstörf fyrir Íslendinga í vandræðum til þess að vera hluti af mikilvægri keðju alþjóðastofnanna.
Mikilvæg endurskipulagning
Ítarleg skýrsla starfshóps Guðlaugs Þór Þórðarsonar utanríkisráðherra, undir stjórn Sturlu Sigurjónssonar, sem nú hefur verið skipaður ráðuneytisstjóri, sýnir glögglega að mikil þörf er á endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar
Skýrslan inniheldur vel á annað hundrað tillögur um betrumbætur og í henni er utanríkisþjónustan enn fremur sett í samhengi við þær miklu samfélagsbreytingar sem eiga sér nú stað í heiminum.
Tvennt finnst mér standa upp úr, eftir lestur skýrslunnar:
Í fyrsta lagi þarf Ísland að marka veginn inn á nýja markaði og tengja efnahagslega hagsmuni landsins betur við þá. Helst eru það markaðir sem standa utan við hinn vestræna heim. Í skýrslunni kemur fram að miklar og hraðar breytingar eru að verða á auðsöfnun í heiminum, þar sem vægi Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu er að minnka.
Árið 2000 var vægi Bandaríkjanna í fjármunaeign í heiminum 35 prósent og Vestur-Evrópu 34 prósent. Samtals er það 69 prósent af heildarkökunni, en talið er að staðan verði orðin gjörbreytt árið 2020. Bandaríkin verði þá komin niður í 24 prósent og Vestur-Evrópa 22 prósent. Hlutfallið fellur úr 69 í 46 prósent á einungis tíu árum.
Vægi nýmarkaðsríkja, ekki síst í Asíu, er að sama skapi að vaxa stöðugt, en efnahagslegar tengingar Íslands við þessi svæði eru ennþá alltof lítil. Ástæða er til að hafa áhyggjur af hversu illa íslenskum fyrirtækjum hefur gengið að tengjast þessum vaxandi mörkuðum, þó vissulega séu á því vegamiklar undantekningar. En almennt á litið þarf að efla þessar tengingar og þar gegnir utanríkisþjónustan miklu hlutverki.
Samstarf og aukin skilvirkni
Í öðru lagi virðist vera mikið svigrúm til að efla starf Íslands innan alþjóðastofnanna með skilvirkara og meira samstarfi. Þetta á við um alþjóðastofnanir eins og NATO og ESB. Eflaust er meiningarmunur innan utanríkisþjónustunnar um hvernig er best að standa að þessu, en það verður finna góðar lausnir sem henta í hverju tilfelli.
Eitt af því sem blasir við að móta þarf stefnu um, er hvernig eigi að efla þessar tengingar við nýja markaði. Í alþjóðavæddum heimi er ekki augljóst að starfsstöðvar í þeim löndum sem á að efla tengingar við séu innan þeirra sjálfra. Má sem dæmi nefna að alþjóðavædd tæknifyrirtæki eru oft með sínar bestu tengingar innahúss, og halda þar um tengingar við ólík lönd og markaðssvæði. Hugmyndin um að vera með fulltrúa utanríkisþjónustunnar í Sílikondalnum, líkt og Danir hafa nú þegar gert, byggir í reynd á þessari hugsun.
Velta má því einnig upp hvort tilefni sé til þess að styrkja tengingar við ákveðin borgarsvæði í heiminum, sem eru orðnar miðstöðvar við marga sértæka markaði. Þetta á meðal annars við um vaxandi borgir í sunnarverðri Asíu eins og Ha Noi í Víetnam og einnig ört vaxandi borgarsvæði í Afríku eins Naíróbí í Kenýa. Þetta eru tengipunktar inn á mikilvæg svæði framtíðarinnar, og smáríki eins og Ísland geta leyst mikla krafta úr læðingi með því að sjá hag í þessum staðsetningum.
Miklir hagsmunir í húfi
Eins og utanríkisráðherra nefndi sjálfur, þegar skýrslan var kynnt, þá er ljóst að mikil vinna er nú eftir við greina tækifæri og ógnanir, straum og stefnur. Það má svo nefna það sérstaklega, að mikið er í húfi fyrir íslenska hagkerfið að efla til muna útflutning á íslenskum vörum. Ennþá er töluverður halli á þeim viðskiptum, en á öðrum ársfjórðungi nam hann 45,8 milljörðum króna. Mikill kraftur í ferðaþjónustunni skilar afgangi af þjónustu upp á 60,5 milljarða, og því jákvæðri heildartölu upp á 16,3 milljarða.
Full ástæða er til að minna á það, að það er ekki á vísan að róa þegar ferðaþjónustan er annars vegar. Hún getur tekið dýfu niður á við alveg eins og hún getur þotið upp á við. Þegar útflutningur á vörum og hugvitsdrifinni þjónustu er annars vegar, er langtímahugsun lykilatriði. Góð, skilvirk og sveigjanleg utanríkisþjónusta getur verið lykilhlekkurinn í þeirri vinnu.