Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafaverkfræðinga kynntu í dag nýja skýrslu þar sem segja má að fara fram greinargott og nákvæmt stöðumat á innviðum Íslands.
Til þeirra teljast samfélagslegir innviðir af ýmsum toga, eins og hafnir, flugvellir, vegir, úrgangsmál, veitukerfi, orkumannvirki og slíkir þættir.
Samkvæmt matinu sem kemur fram í skýrslunni þá er gert ráð fyrir að uppsöfnuð viðhaldsþörf sé um 372 milljarðar króna, sem nemur um 11 prósentum af heildarendurstofnvirði innviða landsins.
Gríðarleg samfélagsleg verðmæti liggja í sterkum innviðum, og má segja að Ísland standi mörgum þjóðum framar þegar að þeim kemur.
En eins og lýst er í skýrslunni hjá SI og ráðgjafaverkfræðingum þá er komið að skuldadögum. Tíminn til þess að bregðast við stöðunni er í raun liðinn, og því má engan tíma missa við að útfæra það hvernig eigi að standa að þessi miklu uppbyggingu sem framundan er.
Vonandi verður þessi innviðauppbygging fremst á forgangslista nýrrar ríkisstjórnar, eftir kosningarnar 28. október. Full þörf er á því að stjórnvöld átti sig á mikilvægi þessarar vinnu, því hún er hluti af því að undirbúa Ísland fyrir gríðarlega hraðar og miklar tæknibreytingar sem framundan eru. Því betri innviðir, því sterkari samkeppnisstaða.
Það sama má segja um þá gjörbreyttu stöðu sem komin er upp í hagkerfinu, vegna uppgangs ferðaþjónustu. Tugprósenta umferðaraukning á hverju ári, mörg ár í röð, hefur gert það enn mikilvægara en áður að huga að innviðunum.
En hvernig ætla stjórnmálaflokkarnir að nálgast þessi mál? Spennandi verður að fylgjast með þeim koma fram með stefnuna á borðið, því ekki hefur farið mikið fyrir þeim hugmyndum. Gildir þá einu um hvort það er hægri, vinstri eða miðjuflokkar.
Það er ekki nóg að tala um mikilvægið heldur þarf að útfæra stórtæka áætlun, velta upp fjármögnunarleiðum í hverju verkefni og framkvæma. Þar skulda stjórnmálaflokkarnir svör.
Vonandi koma þau í tæka tíð.