Í Foreign Policy (FP), virtu riti um alþjóðastjórnmál, var á dögunum fjallað ítarlega um þá ógn sem hefur magnast upp frá því Donald J. Trump, Bandaríkjaforseti, tók við stjórnartaumunum í byrjun árs.
Hættuna á kjarnorkustríði.
Samkvæmt því sem í FP er skrifað þá eru nokkur ríki í Bandaríkjunum þegar farin að undirbúa sig vegna mögulegrar árásar Norður-Kóreu með kjarnorkusprengju á Bandaríkin. Í Kaliforníu, fjölmennasta ríki Bandaríkjanna með 38 milljónir íbúa, hefur nákvæmum leiðbeiningum verið útdeilt til lögreglu og ýmissa samtaka, sem koma að hjálparstarfi þegar mikla vá ber að. Svo dæmi sé tekið.
Niðurlægingin er algjör
Það sem er hins vegar verst er að út á við, virkar Bandaríkjastjórn gjörsamlega niðurlægð vegna vanhæfis forsetans, og óyfirvegaðrar nálgunar að flóknu máli. Útaf fyrir sig má líta á það sem árangur undanfarinna áratuga að það hafi tekist að koma í veg fyrir alvarleg stríðsátök á Kóreuskaga, með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir heiminn allan, því ekki hefur vantað hótanir og ógnandi tilburði frá stjórnvöldum í Norður-Kóreu.
Það sem mestu hefur skipt - fyrir utan aðgerðir sem við heyrum líklega aldrei af - er að alþjóðasamfélagið hefur reynt að halda uppi virku samtali um samstilltar aðgerðir og þar hefur yfirveguð nálgun verið leiðarstef, meðal annars í forsetatíð Barack Obama.
Þetta var meira að segja ofarlega á forgangslista hins annars herskáa George W. Bush Bandaríkjaforseta, en forsetatíð hans litaðist verulega af viðbrögðum við árásinni á tvíburaturnanna 11. september 2001. Sagan dæmir þau viðbrögð nú þegar ekki vel, og hefur Bush sjálfur sagt að margt þar sem gert var hafi verið rangt eða ekki nægilega ígrundað.
Donald Trump has challenged Rex Tillerson to an IQ test https://t.co/L5WhnuDGcf pic.twitter.com/tnblQA12ka
— Newsweek (@Newsweek) October 11, 2017
Gerir illt verra
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, er sá leiðtogi sem hefur talað með hvað mestum ákafa fyrir því, að stillt sé til friðar á Kóreuskaga. Engan skal undra, enda hafa tilraunir Norður-Kóreu með langdrægar flaugar ógnað beint íbúum á japönsku landsvæði en á dögunum fór loftvarnarkerfi á þremum svæðum í Japan í gang og var fólk beðið um að koma sér niður í kjallara og í skjól hið snarasta. Eitthvað sem maður hefur helst séð í bíómyndum.
Það er erfitt að gera sér í hugarlund, hvað fer um huga þjóðarleiðtoga, þar sem staðan er þessi. Þegar ógnin er raunveruleg. Abe hefur beitt öllum þeim þrýstingi sem hann getur, til að krefjast þess að unnið verði gegn Kim Jong Un, leiðtoga Norður-Kóreu, og hernaðarbrölti hans.
Tíu mánuðir af niðurlægingu
Trump hefur tekist það sem var reyndar nokkuð fyrirsjáanlegt, sem er að stuðla að mikilli sundrungu á alþjóðavettvangi með glannalegum og yfirborðskenndum yfirlýsingum. Ýmis fyrirtæki í bandarísku efnahagslífi hafa bent á að ímynd Bandaríkjanna sé á hraðri leið í ræsið með tali forsetans. Nú síðast var hann opinberlega að skora á utanríkisráðherrann, Rex Tillerson, að fara í greindarpróf með sér.
Má þar nefna varúðarorð fyrirtækja í ferðaþjónustu í Bandaríkjunum, en dregið hefur úr heimsóknum um 4,2 prósent til Bandaríkjanna frá því Trump tók við. Þetta skýtur að mörgu leyti skökku við, því um margt - þrátt fyrir sögulegan óróa í stjórnmálunum - þá hefur staða efnahagsmála í Bandaríkjunum verið að batna jafnt og þétt allt frá árinu 2010.
Alþjóðleg áhrif
Það er blessunarlega full snemmt, að velta fyrir sér hver geta orðið efnahagsleg áhrif af því, ef til átaka kemur á Kóreuskaga með beinni þátttöku Bandaríkjahers. Það yrðu alltaf pólaríserandi átök út á við, með Norður-Kóreu og Bandaríkin í aðalhlutverkum, þó aðrar þjóðir kæmu að.
Það segir hins vegar sína sögu, að einstök ríki Bandaríkjanna séu farin að búa sig undir átök, stríð og skelfingu. Fagtímarit eru farin að fjalla um yfirgengilega vanhæfni Trumps sem beina ógn við heimsfriðinn, þar sem hann virðist skorta yfirvegun, samskiptahæfileika og yfirsýn. Eitthvað sem er ekki boðlegt valdamesta stjórnmálamanni veraldar.
Þetta er mikið umhugsunarefni, svo ekki sé meira sagt.
Nýleg dæmi um hvernig stríðsátök geta haft áhrif á gang efnahagsmála hjá þjóðum sem eru knúin áfram af ferðþjónustu, ekki síst, má sjá við Miðjarðarhaf í kjölfar arabíska vorsins 2011.
Enginn er eyland
Þá hrundu tugmilljóna ferðamannastaðir með tilheyrandi alvarlegum efnahagslegum afleiðingum fyrir þjóðir, og einstök svæði innan þeirra (sem eru miklu fjölmennari en Ísland, mörg hver) sem voru tengd þeim, bæði beint og óbeint.
Ekkert stríð var hjá mörgum þessara svæða, en víðtæk hræðsla við ferðalög og breytingar á skipulagi ferðaskrifstofa og flugfélaga, geta verið stórt og mikið mál í þessu samhengi.
Hver veit nema að áhuginn á Íslandi hafi glæðst við þessar miklu breytingar þarna eftir 2011, þegar breyta þurfti ferðaplönum hjá tugmilljónum manna á tiltölulega skömmum tíma vegna stríðsátaka og ófriðar.
En þetta er fyrst og síðast nefnt hér, sem dæmi um hversu mikil óvissa er fyrir hendi, í hinu efnahagslega gangverki, þegar stríðsátök brjótast út.
Óútreiknanlegir menn
Ég hef fylgst nokkuð vel með umræðum um spennuna á Kóreuskaga undanfarin misseri. Fróðlegt var að heyra sjónarmið þeirra sem starfa á alþjóðamáladeild (Foreign Affairs) Seattle Times, þegar ég fór þangað á dögunum, eins og ég minntist á um daginn.
Áhyggjurnar af því að stríð geti brotist út eru raunverulegar og áhyggjurnar snúa jafn mikið að Trump og Kim Jong Un, eins og ég skildi þá sem fylgjast með þessu úr nálægð og hafa góða heimildarmenn innan bandaríska stjórnkerfisins og í þinginu. Óútreiknanlegir stjórnarherrar, sem tilbúnir eru að svífast einskis, og láta fúkyrðaflaum fljóta með um leið og ákvörðun er tekin. Þetta hljómar ekki sem sennileg lýsing þegar Bandaríkjaforseti á hlut, en svona er þetta nú samt.