Lokið er einni erfiðustu kosningabaráttu sem farið hefur fram á Íslandi, að minnsta kosti hin síðari ár. Hún einkenndist af leiða og áhugaleysi almennings, stjórnmálamanna og að einhverju leyti fjölmiðla á mikilvægasta verkefni lýðræðisins, kosningum til þings. Það voru allir dauðfegnir þegar þessu var lokið.
Ástæður þessa eru margþættar. Í fyrsta lagi var augljóslega verið að kjósa í annað sinn á einu ári. Og ástæður kosninganna hafa í hvorugt skipti nokkuð haft með málefnaágreining að ræða heldur snúist um persónulegan breyskleika stjórnmálamanna, spillingu, óheiðarleika, leyndarhyggju eða valdníðslu. Í öðru lagi virðist sífellt stærri hluti almennings einfaldlega vera að gefast upp á stjórnmálum og kýs að lífa lífi sínu án þess að gefa þeim neinn ráðandi stað í hvernig það þróast. Í þriðja lagi hefur persónuníð, og nafnlaus falskur áróður sem andlitslausar sellur í baklandi stórra stjórnmálaflokka borguðu háar fjárhæðir fyrir að koma fyrir augu kjósenda í gegnum samfélagsmiðla og vettvangs eins og Youtube, verið ráðandi í fyrsta sinn í íslenskum kosningum. Það er í algjörri andstöðu við lög um fjármögnun stjórnmálaflokka og fullkomið virðingarleysi fyrir bæði kjósendum og lýðræðinu.
Niðurstaðan er eins og kannski við var að búast bæði neikvæð og jákvæð, óháð því hvaða stjórnmálaflokk viðkomandi styður. Konum og ungu fólki fækkar og miðaldra karlmönnum fjölgar umtalsvert. Það er í fullkominni andstöðu við þann stað sem við ættum að vera á árið 2017. Það má hins vegar fagna niðurstöðunni sem kom upp úr kössunum að sumu leyti. Aldrei áður hafa verið jafn margir flokkar á Alþingi og aldrei áður hafa þeir verið jafn ólíkir. Það þýðir að fjölbreytileiki þjóðarinnar endurspeglast mjög vel í þeim fulltrúum sem sitja á mikilvægustu stofnun hennar, Alþingi. Og fjöldi flokkanna gerir það alls ekki að verkum að erfitt verði að mynda ríkisstjórn ef vilji er til staðar. Í raun eru mun fleiri möguleikar í stöðunni nú en voru fyrir ári síðan.
Ákall um meiri samvinnu
Hvernig á að túlka þau skilaboð sem kjósendur eru að senda stjórnmálaflokkum í þessum kosningum? Ein leið til að túlka þau er að ákall sé um meiri samvinnu ólíkra afla. Kjósendur hafna byltingu en þeir hafna líka óbreyttu ástandi.
Önnur augljós skilaboð eru líka þau að óþol gagnvart valdakerfinu eru ríkjandi. Tveir popúlískir, en ólíkir, flokkar, ná eftirtektarverðum árangri. Það er í fyrsta sinn sem slíkir ná inn sem afl á íslenskt Alþingi. Áður hefur hann verið bundinn við einstaklinga innan flokka.
Popúlismi einkennist vanalega af þjóðerniskennd, einangrunarhyggju, andstöðu gegn elítum, róttækum og oft illframkvæmanlegum lausnum á vandamálum samfélagsins. En síðast en ekki síst er popúlismi, eins og hann hefur birst okkur í Evrópu og Bandaríkjunum á síðustu árum, grundvallaður á trú á sterkan leiðtoga sem búi yfir einhverskonar æðri skilningi og getu til að leysa vandamál.
Samanlagt verða tveir flokkar sem innihalda að minnsta kosti hluta þessara hráefna, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins, með ellefu þingmenn á komandi þingi.
Fyrsti viðræðukostur nokkuð augljós
Þótt popúlisminn hafi að mörgu leyti verið sigurvegari kosninganna, í ljósi þess að hann komst að, þá er líka vert að minna á að hinir sex flokkarnir sem munu eiga fulltrúa á þingi fengu rúmlega 82 prósent atkvæða. Meginþorri þjóðarinnar er augljóslega enn ekki á því að það þurfi „róttæka rökhyggju“, bankagjöf, skatttekjur barnanna okkar eða yfir 100 milljarða króna árlega útgjaldaaukningu til að reka mannsæmandi samfélag á Íslandi.
Það er því rökrétt að álykta að næsta ríkisstjórn verði mynduð úr hinum sex flokkunum sem sitja á næsta Alþingi.
Augljósasta niðurstaða kosninganna er sú að stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir eru með meirihluta á Alþingi. Í ljósi þess að traust ríkir á milli leiðtoga þeirra allra, að allir þeirra eru sammála um að áhersla verði lögð á uppbyggingu í heilbrigðismálum, menntamálum, endurskipulagningu á þeim hluta fjármálakerfisins sem er í höndum ríkisins, álagningu komugjalda og mikla fjárfestingu í innviðum þá er erfitt að sjá hvaða mál ættu að standa í vegi fyrir að viðræður muni hefjast þeirra á milli.
Hvorri blokkinni vill Viðreisn tilheyra?
Innan Samfylkingar er mikil áhersla lögð á að Viðreisn verði tekin með í þær viðræður til að mynda sterkasta frjálslynt mótvægi gagnvart Vinstri grænum og Framsóknarflokknum. Áherslur Viðreisnar eru enda mjög í takt við það sem talið var upp hér að ofan. Ágreiningsmálið yrðu eignarskattar, hvernig setja ætti fram einhverja táknræna lausn á Evrópumálum sem allir geti sætt sig við og hversu hratt eigi að fara í stjórnarskrárbreytingar. Allt eru þetta mál sem auðvelt er að ná málamiðlun um í núverandi stöðu þannig að allir ættu að geta gengið nokkur beinir frá borði.
Auk þess yrði fimm flokka ríkisstjórn ólíkra flokka alls staðar að úr litrófinu konustjórn. Helmingur þingmanna Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokksins, Pírata og Viðreisnar eru konur. Þrír flokkanna eru með konur í leiðtogasætinu og við það bætist að í Framsókn situr líkast til áhrifamesti varaformaður íslensks stjórnmálaflokks, Lilja Alfreðsdóttir. Verði af slíkri stjórn yrði stjórnarandstaðan samansett af Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins. Með 27 þingmenn, og þar af einungis sex konur. Fyrir flokka sem setja frjálslyndi, jafnrétti og kerfisbreytingar á oddinn, á borð við Viðreisn, er augljóst hvorri blokkinni þeir ættu frekar að tilheyra.
Íhaldsstjórn möguleg, Moggastjórn ólíkleg
Bæði Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson hafa líka þann valkost að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum sem hefðu myndarlegan meirihluta. Slík ríkisstjórn, mögulega með aðkomu fjórða flokks, er rökrétt næsta skref ef stjórnarandstöðunni tekst ekki að ná saman, með eða án Viðreisnar. Og þar myndi líka nást saman um helstu málefnaáherslur.
Þetta er því spurning um vilja. Hvað vill Katrín Jakobsdóttir og fólkið í kringum hana, og hvað vill Sigurður Ingi Jóhannsson og hans fólk? Vilja þau mynda breiða umbótastjórn eða vilja þau mynda sterka íhaldsstjórn með Sjálfstæðisflokknum?
Raunar á Sigurður Ingi einn möguleika til viðbótar. Sá er að sættast við Sigmund Davíð og mynda stjórn ásamt Sjálfstæðisflokki og Flokki fólksins. Þetta er eini möguleikinn á stjórn byggðum á slíkum kjarna þar sem framámenn í öllum öðrum flokkum útiloka í einkasamtölum með öllu samstarf við Sigmund Davíð. Á milli þeirra og hans ríkir einfaldlega ekkert traust. Þetta er draumaríkisstjórn Morgunblaðsins og valdakjarnans í kringum þann miðil. Það sést vel á ritstjórnarskrifum blaðsins í morgun, þar sem Sigurður Ingi er í raun beðinn um að biðja Sigmund Davíð afsökunar á því að hafa fellt hann sem formann og hrakið í burtu til að sættir náist.
Í ljósi þess sem á hefur gengið í Framsóknarflokknum síðastliðið eitt og hálft ár, í ljósi þess að flokkurinn sótti fylgi sitt á allt aðrar lendur í ár en á undanförnum árum og að flokkurinn er heill í fyrsta sinn í langan tíma verður það að teljast afar ólíklegt að Sigurður Ingi sjái einhvern grundvöll á samstarfi við sinn gamla formann, sem yfirgaf flokkinn bara vegna þess að hann fékk ekki að vera formaður. Sú stæka kvennfyrirlitning sem Sigmundur Davíð sýndi Lilju Alfreðsdóttur í gær, þegar hann talaði niður til hennar og kallaði hana sitt sköpunarverk, verður ekki til að auka líkurnar á slíkri sátt.
Þá er sá tími liðinn að Sjálfstæðisflokkurinn sé kjölfestan í íslenskum stjórnmálum, sama þótt forvígismenn hans tali á þeim nótum. Hann er enn stærsti flokkur landsins, en hann fékk sína næst verstu útkomu í sögunni um helgina. Flokkurinn hefur aldrei verið jafn órafjarri því að mynda uppáhaldsríkisstjórn sína, tveggja flokka meirihlutastjórn með Framsóknarflokknum, og hann er núna. Samanlagt fylgi þeirra hefur aldrei verið lægra. Síðustu þrjár ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn sat í hafa enn fremur ekki náð að sitja út heilt kjörtímabil. Það eina sem þær áttu sameiginlegt var að Sjálfstæðisflokkurinn sat í þeim. Og hann er sá flokkur, utan hins popúlíska Miðflokks, sem oftast er nefndur þegar taldir eru upp flokkar sem ekki eru taldir samstarfshæfir af öðrum leiðtogum. Það er því alls ekki lengur ávísun á stöðugleika að hafa Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn.
Spurning um vilja
Hvað stendur þá í vegi fyrir því að sú ríkisstjórn sem blasir við verði mynduð? Í raun ekkert nema það að ákveða að gera það. Sú ákvörðun liggur fyrst og síðast hjá tveimur einstaklingum, Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, og Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins. Hinir flokkarnir munu ekki skorast undan.
Það verður erfitt og krefjandi verkefni að halda saman jafn breiðri stjórn sem skipuð yrði jafn ólíkum flokkum. En stjórnmál eiga að vera erfið og krefjandi. Og það á að reyna á mannkosti stjórnmálaleiðtoga sem gefa sig að þeim. Í gjörbreyttu stjórnmálalandslagi er skýrt ákall um breytt stjórnmál og breiða samvinnu. Nú stendur bara eftir sú spurning hvort raunverulegur vilji sé til þess að mynda slíka regnbogastjórn eða ekki.
Yfir til ykkar.