Það er mikið rætt um nýja iðnbyltingu og hvaða áhrif hún mun hafa í framtíðinni. Er þar ekki síst vitnað til aukinnar sjálfvirkni í atvinnulífinu, notkun gervigreindar við hin ýmsu störf og síðan mikilla breytinga sem kunni að leysast úr læðingi með sjálfakandi bifreiðum og breytingum í orkugeiranum.
Svo fátt eitt sé nefnt.
Hér í Bandaríkjunum er nú í gangi forvitnileg rökræða innan Bandaríkjaþings og í mörgum ríkjum Bandaríkjanna. Hún snýr að samkeppnissjónarmiðum og hvernig tæknibreytingar geti brotið upp grundvallaratriði í alþjóðlegu samkeppnisregluverki.
Hagkerfi heimsins - bæði einstaka þjóðríki og svæði innan þeirra (sem jafnvel eru margfalt stærri en íslenska hagkerfið) - eru misjafnlega búin undir hraðar og miklar breytingar. Víða er unnið að því hörðum höndum að greina breytingar og hvernig þær komi til með að hafa áhrif.
Hvað varðar samkeppnissjónarmiðin sérstaklega þá er það oft erfitt fyrir risana að feta sig áfram í vexti án þess að brjóta á minni aðilum á markaði. Sagan sýnir þetta glöggt og má nefna himinháar sektir sem lagðar hafa verið á Microsoft og fleiri fyrirtæki því til staðfestingar.
Eitt atriði hefur þó verið svo til óumdeilt til þessa: Það er aðskilnaður bankastarfsemi og smásölumarkaðar. Segja má að það atriði sé grundvallaratriði í samkeppnislöggjöfinni.
Í nýrri skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey er fjallað um þessi atriði, og greint frá því að bankastarfsemi sé á barmi gífurlegra hraðra breytinga sem geti haft mikil áhrif á heilu hagkerfin. Ekki endilega neikvæðar breytingar, heldur þurfi bankar og stjórnvöld að vera vakandi fyrir því hvað sé á seyði.
Taka má dæmi um það sem gæti gerst.
1. Smásölufyrirtæki á vefnum - eins og Amazon - gætu framþróað fjármálaþjónustu sína (Amazon Pay) og farið að bjóða í vaxandi mæli lán til einstaklinga og smærri fyrirtækja. Að baki ákvörðunum um þetta liggja rökréttar skýringar, þar sem Amazon - líkt og margir aðrir tæknirisar - búa yfir miklu dýpri og áreiðanlegri gögnum til að meta lánshæfi og áhættuálag. Hið flókna og umdeilda kerfi sem er notað í dag (Credit Score) í Bandaríkjunum verður ekki samkeppnishæft til lengdar og þörf á algjörri kúvendingu. Tæknifyrirtækin muni auka markaðshlutdeild sína í hefðbundinni fjármálaþjónustu við almenning hratt og örugglega.
2. En hvernig samræmist það regluverkinu að umsvifamikil og jafnvel markaðsráðandi smásölufyrirtæki geti orðið lánveitendur og þátttakendur í bankastarfsemi? Það er nýr veruleiki. Þetta getur orðið raunin ef sátt um þetta næst, og það mun reyna á stjórnmálamenn víða við að greina þetta og átta sig á mikilvægum samfélagslegum spurningum. Störf munu hverfa, önnur verða til, og þeir stóru verða enn stærri og valdameiri. Hvar liggja hagsmunir almennings? Hvernig verður samkeppni tryggð? Þetta eru stórar og mikilvægar siðferðislegar spurningar.
3. Það sem er einna mikilvægast í þessu samhengi er hversu hratt þetta getur komið fram. Allt í einu gætu stærstu tæknifyrirtæki heimsins komið fram með lausnir og þannig dýpkað verulega viðskiptasamband sitt við milljarða manna um allan heim. Þetta er ekki lítið mál, heldur uppbrot á stöðunni eins og við höfum þekkt hana.
Þessi þróun er þegar farin af stað víða, en næstu skref eru að miklu leyti háð breytingum á regluverkinu. Gríðarlega hraður vöxtur Alibaba í Asíu, þegar kemur að neytendalánum, er dæmi um breytingar í þessa veru.
Hvernig gæti þetta birst á Íslandi og hvernig er Ísland undirbúið undir miklar breytingar?
Ísland er einn allra minnsti sjálfstæði vinnumarkaður heimsins - sem er með eigin mynt og regluverk - eða um 200 þúsund einstaklingar. Miklar breytingar á undirstöðu viðskipta eins og við höfum þekkt þær undanfarna áratugi, eins og uppbrot á bankastarfsemi og smásölu, gæti komið hratt inn á markaðnum og gjörbreytt landslaginu. Breytt undirstöðum vinnumarkaðar í leiðinni.
Það er til dæmis vel hægt að hugsa sér að Amazon opni vöruhús á Íslandi fyrst Costco gerði það, og taki til sín bróðupartinn af smásölu með háþróuðu heimsendingarkerfi sínu og háu þjónustustigi.
Á Íslandi eru tæknilegir innviðir betri en víða og því er ekki útilokað að alþjóðleg fyrirtæki muni líta til Íslands sem góðs svæðis fyrir þjónustu sem byggist öðru fremur á internetinu og stafrænni tækni. Góðir og vistvænir innviðir í orkumálum hjálpa líka til.
Mikil áskorun bíður íslensks atvinnulífs. Alþjóðleg samkeppni hefur að undanförnu haft mikil áhrif á Íslandi og margt bendir til þess að hún sé rétt að byrja. Tæknin er þegar komin mun lengra en markaðsbreytingar gefa til kynna, því rökræðan hjá alþjóðstofnunum og þjóðþingum er ekki búin. Hún gefur til kynna að grundvallarbreytingar séu framundan. Leiðarstefið í þeim er að enginn verður eyland. Það verður ekki valkostur að búa við einangrun, nema þá að það sé gert með vilja að dragast aftur úr í harðnandi samkeppni.